Þess er minnst í Þýskalandi í dag, 9. nóvember, að 85 ár eru liðin frá atburðunum sem eru oftast nefndir Kristallnacht eða kristalsnótt, sem mörkuðu tímamót í ofsóknum gegn Gyðingum í valdatíð nasista. Olaf Scholz, kanslari Þýskalands, sagðist fyllast „skömm og smán“ andspænis því gyðingahatri sem nýverið hefur birst í Þýskalandi, og lét vita að stjórnvöld í Berlín myndu ekki umbera hatur í garð Gyðinga, í ræðu sem hann hélt við minningarathöfn í bænahúsi í Berlín af þessu tilefni.
Bænahúsið sjálft varð fyrir árás með bensínsprengjum á dögunum. „Allar birtingarmyndir gyðingahaturs eitra samfélög okkar,“ sagði Scholz í ræðunni. „Við munum ekki umbera það.“
91 myrt, 30.000 frelsissvipt
SA- og SS-liðar nasistaflokksins, ásamt börnum úr hreyfingunni sem nefndist Hitlersæskan og óbreyttum borgurum frömdu ódæðið 9. til 10. nóvember 1938, á meðan þýsk lögregluyfirvöld horfðu fram hjá. Nafnið Kristalsnótt vísar til glerbrota sem lágu um götur borga um allt Þýskaland eftir að rúður verslana, bygginga og bænahúsa gyðinga voru mölvaðar. 267 bænahús í Þýskalandi, Austurríki og Súdetalandi voru eyðilögð og 7.500 fyrirtæki lögð í rúst. Þetta heiti á atburðinum er þó umdeilt í seinni tíð, þar sem það þykir gera lítið úr því beina ofbeldi sem um leið átti sér stað: árásarliðið myrti 91 manneskju þessa nótt um leið og 30 þúsund voru tekin höndum, allt Gyðingar, og flutt í þrælkunarbúðir í Buchenwald, Dachau og Sachsenhausen. Flest hinna handteknu voru ungir karlmenn, sóttir á heimili sín, en einnig á vinnustaði og víðar.
Atburðurinn átti sér stað sex árum eftir að nasistar komust til valda. Frá 1933 höfðu þeir sett lög sem grundvölluðust á gyðingahatri og beindust opinskátt gegn Gyðingum, í samræmi við stefnu flokksins. Lögin takmörkuðu aðgang þeirrar hálfu milljónar Gyðinga sem bjó í Þýskalandi að vinnumarkaði, takmarkaði borgaraleg réttindi þeirra og réttinn til menntunar. Með Nürnberg-lögunum sem sett voru árið 1935 var loks ríkisborgararéttur Gyðinga afnuminn og hjónabönd bönnuð milli Gyðinga og Þjóðverja án gyðinglegs ætternis.
Aðdragandi Helfararinnar
Kristalsnótt markaði tímamót í ofsóknum þýskra stjórnvalda, nasistaflokksins og fylgismanna hans, gegn Gyðingum, sem þar eftir birtust í beinu líkamlegu og banvænu ofbeldi af áður óþekktri stærðargráðu. Óeirðir kristalsnætur flokkast sem „pogrom“, en þetta rússneska orð er notað á ensku og fjölda annarra mála sem heiti yfir ofbeldisfullar óeirðir sem ætlað er að kúga eða hrekja burt þjóðernishóp eða trúarhóp, einkum Gyðinga. Oft er vísað til þessa atburðar sem upphafs Helfararinnar, áforma nasista um útrýmingu Gyðinga í Evrópu sem var að fullu hrint í framkvæmd rúmum þremur árum síðar.
Hugh Greene hét fréttaritari Daily Telegraph í Berlín þegar kristalsnótt átti sér stað. Hann skrifaði: „Lögmál múgsins réði Berlín þetta síðdegi og kvöld og hjarðir skemmdarvarga helltu sér í eyðileggingarsvall. Ég hef séð nokkur róstur eiga sér stað gegn Gyðingum í Þýskalandi á síðustu fimm árum, en aldrei neitt eins velgjuvaldandi og þetta. Kynþáttahatur og hystería virðist hafa náð fullkomnu valdi á annars sómakæru fólki. Ég sá konur í tískufatnaði klappa höndum og æpa af hrifningu á meðan heiðvirðar, miðaldra mæður héldu börnum sínum á lofti til að fylgjast með „gleðinni“.“
Í þingræðu árið 1945 sagði Einar Olgeirsson, formaður Sósíalista, nýkominn úr ferð til Þýskalands eftir stríðslok: „Nasisminn er kriminelt fyrirbrigði. Það er nauðsynlegt að það komi skýrt fram fyrir auglit þings og þjóðar, að nasistaflokkurinn er annað og verra en stjórnmálaflokkur. Nasisminn í Þýskalandi var skipulögð glæpastarfsemi.“ Þýsk yfirvöld og handbendi þeirra drápu sex milljónir Gyðinga í Helförinni. Í löndum Evrópu hefur samfélag Gyðinga aldrei borið þess bætur. Þrjár og hálf milljón Gyðinga bjuggu í Póllandi fyrir Helförina. Enn í dag er fjöldi Gyðinga í landinu aðeins talinn í þúsundum: 4.500–22.500 samkvæmt stofnuninni Institute for Jewish Policy Research (JPR). „Aldrei aftur“ er kjörorð sem öll vestræn ríki hafa haft í hávegum í minningu Helfararinnar.