„Nú þegar Bláa lónið er í sviðsljósinu, þá er gott að minnast þess að maðurinn sem að tók áhættuna á því að baða sig í af fallinu frá virkjuninni fékk aldrei neitt í sinn hlut frá þeim, og þegar hann dó, óskaði fjölskylda hans að lónið tæki þátt í útfararkostnaði hans, til þess að heiðra hann. Það var ekki gert, þar sem lónið er nú í sviðsljósinu, þá mætti nú alveg minnast á þetta, því það sýnir hvaða siðferði stjórnendur fyrirtækisins hafa.“
Þetta skrifar Þórólfur Júlían Dagsson, fyrrverandi oddviti Pírata í Reykjanesbæ, á Facebook en hann vísar til Vals Margeirssonar. Hann var fyrstur til að baða sig í lóninu árið 1981, þó að vísu sé hvergi minnst á hann í kynningarefni lónsins. Valur lést árið 2015, en hann hafði reynt að leiðrétta tilurð Bláa lónsins, til að mynda í aðsendri grein sem birtist í Víkurfréttum árið 2004. Þar skrifaði Valur:
„Ég vil því meina að ég undirritaður, sé upphafsmaður að kalla þennan stað, Bláa lónið, auk þess sem ég tel mig hafa verið fyrstan til að baða mig þarna til að kanna lækningamátt þessa jarðsjávar.“
Hann tók þó skýrt fram að hann væri ekki að biðja um neitt nema bara að sannleikurinn væri hafður að leiðarljósi. „Með þessum orðum mínum er ég hvorki að státa mig af þessu né að agnúsast yfir áframhaldandi uppbyggingu við Bláa lónið fyrir psoriasis-sjúklinga, síður en svo. Mér finnst hinsvegar þegar menn á tyllidögum sem þessum eru að rifja upp tilurð Bláa lónsins þar sem verið er að eigna hinum og þessum heiðurinn af því að hafa uppgötvað þennan lækningamátt, að þá megi sannleikurinn fá að njóta sín.“