Björn Birgisson, samfélagsrýnir og Grindvíkingur, segir að hamfarirnar á Suðurnesjum séu gott tilefni til að endurskoða eignarhaldið á orkuverinu í Svartsengi. Hann segir, líkt og fleiri undanfarið, að það sé eitt besta dæmi um það þegar gróðinn sé einkavæddur en tapið ríkisvætt.
„Hitaveita Suðurnesja var upphaflega stofnuð 1974 af og í eigu allra sex sveitarfélaganna sem þá voru á Suðurnesjum. Algjör gullmoli,“ segir Björn á Facebook.
„Síðar hélt frjálshyggjan innreið sína í opinberar eigur – ófær um að byggja neitt upp sjálf, en þess albúin að komast yfir eigur almennings með öllum tiltækum ráðum. Aðallega óheiðarlegum. Hitaveita Suðurnesja var einkavædd og skipt upp í HS Veitur og HS Orku. Sú er staðan núna.“
Björn segir að í ljósi þess að eigendur Hs Orku vilji bara hirða hagnaðinn en ekki taka þátt í að verja mannvirkið, þá sé eina vitið að þjóðnýta orkuverið. „Hagnaðurinn af rekstrinum fer alltaf til einkaaðila. Nú á að byggja varnargarða um mannvirkin í Svartsengi. Eigendur þeirra borga ekkert í þeim framkvæmdum. Almenningur um allt land á að borga með viðbótarskatti. Hér má æla. Þetta er mjög gott dæmi um hvernig gróðinn er einkavæddur, en tap er ríkisvætt, sem og óvæntur kostnaður.Það er algjörlega borðliggjandi að þjóðnýta á orkuverið í Svartsengi.“