Elon Musk þykir samstaða verkafólks í Svíþjóð vera „geðbiluð“

Suður-afríski ofurkapítalistinn Elon Musk er að rekast á norræna vinnumarkaðsmódelið um þessar mundir. Fyrr í dag, fimmtudag, sagði Musk á X, samfélagsmiðli í hans eigu, að verkfallsaðgerðir sem beinast nú að rekstri bílaframleiðandans Tesla í Svíþjóð, séu „insane“. Musk er forstjóri Tesla. Tilefni ummælanna voru að meðal verkfallsaðgerðanna sem sænsk stéttarfélög hafa nú komið í kring er að koma í veg fyrir að Tesla í Svíþjóð berist númeraplötur. Fyrirtækið getur því ekki skráð nýja bíla.

Tesla neitar að semja við stéttarfélag

Nú eru liðnar um fjórar vikur frá því að stéttarfélagið IF Metall boðaði verkfallsaðgerðir gegn Tesla til að þrýsta á fyrirtækið að ganga til kjarasamninga við félagið, bæði um laun og vinnuaðstæður fyrir þá 120 meðlimi félagsins sem starfa sem vélvirkjar fyrir bílaframleiðandann. Tesla framleiðir ekki bíla í Svíþjóð en þar eru nokkur verkstæði á vegum fyrirtækisins.

Að sögn IF Metall snúast kröfur félagsins einkum um vinnuaðstæður: að þær séu öruggar og mannsæmandi. Í tilkynningu félagsins sjálfs segir að þar sem vinnumarkaðsmódel Svíþjóðar hvíli á yfir aldargamalli hefð og sé afar rótgróið líti bæði vinnuveitendur og starfsfólk á það sem skyldu sína að halda frið, og því séu verkfallsaðgerðir afar fátíðar í Svíþjóð. Í tilfelli IF Metall, sem telji 300 þúsund félagsmenn, komi að jafnaði í mesta lagi til einnar vinnudeilu á ári.

Við upphaf þessa verkfalls, fyrir mánuði síðan, sagði talsmaður Tesla í sænskum fjölmiðlum að fyrirtækið fylgdi vinnulöggjöf Svíþjóðar og ætlaði sér ekki að skrifa undir sameiginlegan kjarasamning. Þetta kemur fram í umfjöllun New York Times.

Sænskt verkafólk beitir samstöðuverkföllum

Síðastliðinn föstudag, fyrir tæpri viku, efndu rafvirkjar og hafnarstarfsmenn til samstöðuverkfalls með félögum sínum í IF Metall, og neita að afgreiða eða annast vörur frá Tesla: við tugi hafna neituðu hafnarverkamenn að afferma bíla úr skipum og rafvirkjar neita að annast viðgerðir á hleðslustöðvum fyrirtækisins. Þá hefur ræstingastarfsfólk fellt niður þrif á vinnustöðum Tesla og starfsfólk póstsins hefur hætt að flytja póstsendingar til útibúa fyrirtækisins.

Talsmenn IF Metall og annarra stéttarfélaga sem eiga í hlut segja að Tesla leggi sig nú fram um að brjóta á eða komast fram hjá verkföllunum, meðal annars með því að flytja bíla til Svíþjóðar með vörubílum og með ráðningu nýrra vélvirkja. Nú á miðvikudag kom hins vegar fram að IF Metall hefur tekist koma í veg fyrir að nýjar númeraplötur berist fyrirtækinu, sem getur þar með, eins og getið er að ofan, ekki skráð nýja bíla.

Það sem af er ári er Y-módelið frá Tesla mest seldi nýi bíllinn í Svíþjóð.

Umfjöllun The Guardian.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí