„Hvað erum við að gera?“ spurði þingmaður og svaraði: „Ekki neitt“

Þingfundur fimmtudags hófst á því að Hanna Katrín Friðriksson, þingmaður Viðreisnar, ræddi það sem hún nefndi verkstol ríkisstjórnarinnar og þau áhrif sem það hafi á þingstörfin. Um ræðu hennar var víða fjallað í fréttum, og meðal annars að af þeim 109 málum sem ríkisstjórnin sagðist ætla að bera fram á þingi þetta haust eru 39 komin fram og alls eitt afgreitt.

Deyja öll mál á ríkisstjórnarfundum?

Óhætt er að segja að aðrir þingmenn hafi tekið undir með Hönnu Katrínu: Þorbjörg Sigríður Gunnlaugsdóttir, samflokksmaður hennar, sagði þetta vera fílinn í herberginu: „Alþingi er lamað.“ Hún sagði ríkisstjórnina vera svo sundraða í dag „að hingað berast einfaldlega engin frumvörp frá ráðherrum.“ Síðan spurði hún: „Deyja málin öll á ríkisstjórnarfundum?“

Logi Einarsson, þingmaður Samfylkingar, benti á að þingið væri starfhæft því það hefði haft heilu og hálfu vikurnar til að ræða þingmannamál. Þau séu rædd til fullnustu bæði á þingi og í nefndum en fáist síðan ekki afgreidd „af því að það liggur ekki fyrir eitthvert samkomulag stjórnar og stjórnarandstöðu.“ Logi spurði: „Hvar í reglum þingsins er það að það eigi að gera eitthvert slíkt samkomulag? Er það ekki þannig á eðlilegum vinnustöðum að á meðan það er rúm til að vinna þá vinna menn öll mikilvæg verk, hvaðan sem þau koma? Þetta er sóun á tíma og þetta er heimskulegt fyrirkomulag.“

Stjórnin búin að gefast upp?

Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, tók undir með öllum framangreindum og spurði um þingmannamálin sem látin eru daga uppi: „Hvers konar vanvirðing er það eiginlega fyrir tíma þingmanna sem leggja hérna fram mál?“ Björn sagði ástandið „fáránlegt, algjörlega fáránlegt.“

Guðmundur Ingi Kristinsson, þingmaður Flokks fólksins, sagðist telja ríkisstjórnina nú toppa sig í lágkúru með því hversu stjórnarmál vantar á þingið. Hann sagði frá nefndarfundum velferðarnefndar sem falla ýmist niður eða styttast í tíu mínútur vegna þess að ekkert berst frá ríkisstjórninni. „Á þessum sex árum sem ég er búinn að vera hér þá hef ég aldrei upplifað það,“ sagði Guðmundur, velferðarnefnd væri yfirleitt full af málum og frekar vantað tíma en hitt. „En núna bregður allt í einu svo við að það er ekkert um að vera, allt steindautt.“ Hann sagðist spyrja sig hvort það væri vegna þess að ríkisstjórnin geti ekki komið sér saman um mál eða hvort hún er „bara búin að gefast upp?“

„Nei, það er ekkert að gera hjá okkur“

Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sagðist undanfarna daga oft hafa fengið þá spurningu frá fólki, í ljósi þess hversu margt gengur á í samfélaginu, hvort ekki sé brjálað að gera hjá þingmönnum. Því miður hafi hún þurft að svara fólki: „Nei, það er ekkert að gera. Það er ekkert að gera hjá okkur. Ríkisstjórnin, eins og hefur verið bent á hérna, er ekki að koma fram með þau mál sem hún hefur lofað. Það er ekkert að gerast. Það voru hundruð mála sem áttu að koma hérna fyrir þingið. Við erum að nálgast jólafrí og það eru bara einstaka mál sem hafa verið afgreidd.“ Hún sagðist telja, eins og frummælandi, að ríkisstjórnin hefði komist að þeirri niðurstöðu „að hún geti haldið út kjörtímabilið með því að gera ekki neitt.“ Á þingi verður fundafall eftir fundafall, sagði hún, spurði svo og svaraði: „Hvað erum við að gera? Ekki neitt.“

Tveir stjórnarþingmenn mölduðu lítillega í móinn, en annars voru ræður þingmanna á einn veg: Þetta er fáránlegt, við erum ekki að gera neitt.

Þingmenn viðra hugmyndir og spjalla

Það var undir dagskrárliðnum „Um fundarstjórn.“ Við tók óundirbúinn fyrirspurnatími, þar sem ráðherrar voru spurðir um ýmis mál í hálftíma. Þá sérstök umræða um störf Landhelgisgæslunnar. Rætt var um þingsályktunartillögur: Steinunn Þóra Árnadóttir, þingmaður VG, vill gjaldfrjálsar skólamáltíðir. Hafdís Hrönn Hafsteinsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ræddi upplýsingamiðlun um heimilisofbeldi. Birgir Þórarinsson, þingmaður Miðflokksins, sagðist vilja flytja skrifstofur Útlendingastofnunar til Reykjanesbæjar.

Þannig mætti áfram telja, hvert málið á fætur öðru fékk sitt korter á þingi, einhver mælti með því og stundum einhver annar á móti því, vitandi þó um hvert eitt mál að það væri dæmt til að daga uppi án afgreiðslu. Miðað við lýsingar þingmannanna sjálfra við upphaf þingfundarins var helst sá munur á þessum þingfundi og hverri annarri þrætu á samfélagsmiðli að skoðanaskiptin á þingi voru með kurteisara móti.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí