Fjöldi íslenskra barna sem smituðust af veirunni sem veldur COVID í fyrstu bylgjum faraldursins, frá vorinu 2020 fram á sumar 2021, höfðu einkenni sem teljast til „Long COVID“ tveimur mánuðum síðar. Þetta kemur fram í nýrri, íslenskri rannsókn sem birtist í fagritinu The Pediatric Infections Disease Journal í síðustu viku. Höfundar rannsóknarinnar segja ljóst að milljónir barna stríði við einkennin um allan heim. Góðu fréttirnar séu að um þriðjungur barnanna var laus við einkennin innan eftir rúmt ár frá sýkingu.
Einstök rannsókn vegna góðra sóttvarna
Valtýr Stefánsson Thors, sérfræðingur í barnasmitsjúkdómum, leiddi rannsóknina, sem náði til fyrstu þriggja bylgjanna af COVID. Höfundar rannsóknarinnar tilgreina að á umræddu tímabili hafi sóttvarnir Íslands þýtt að fátt var um óskráðar sýkingar, og því tiltölulega auðvelt að finna áreiðanlega samanburðarhóp barna sem ekki höfðu orðið fyrir smiti. Höfundarnir segja rannsóknina einstaka að því leyti, auk þess hve svörun við henni var góð og hvað hún náði til ungra barna, en rannsóknin tók til allra aldurshópa frá 0 til 17 ára.
Þessi viðamikla rannsókn náði raunar til 77% þeirra barna sem greindust með SARS-Cov-2 veiruna á umræddu tímabili: 643 börn eða forráðamenn þeirra svöruðu spurningalista í kjölfar smits, og 602 börn án smits, í sömu aldurshópum, til samanburðar. Ekkert barnanna var lagt inn á sjúkrahús vegna sýkingarinnar og ekkert þeirra hafði alvarleg einkenni á meðan á henni stóð, samkvæmt skilgreiningu WHO.
Þreyta, vöðvaverkir, sljóleiki
Börnin voru spurð, tveimur mánuðum eftir að smit greindist, hvort tiltekin einkenni hefðu gert vart við sig að minnsta kosti tvisvar sinnum á innan við viku. Í rannsókninni birtast niðurstöðurnar í níu liðum:
Rúm 26% þeirra barna sem höfðu smitast af SARS-CoV-2 kenndu til óvenjulegrar þreytu tveimur mánuðum síðar, samanborið við rúm 15% þeirra sem ekki höfðu smitast.
11,5% þeirra sem höfðu smitast greindu frá vöðvaverkjum, samanborið við 7,3% í samanburðarhópnum.
61 barnanna sem höfðu smitast sögðust enn finna fyrir missi á bragðskyni eða lyktarskyni tveimur mánuðum síðar, en ekkert barnanna í samanburðarhópnum tilgreindi slík einkenni.
98 börn, eða rúm 15% þeirra sem höfðu smitast, greindu frá öndunarerfiðleikum eða hósta, yfir þrefalt fleiri en í samanburðarhópnum (4,7%).
Höfuðverkir voru yfir tvöfalt algengari meðal barna tveimur mánuðum eftir staðfest smit en án smits (12,5% á móti 6,0%).
Þá reyndist einbeitingarskortur, minnistap og sljóleiki umtalsvert algengari meðal barna tveimur mánuðum eftir smit en án: 20,7% á móti 13,3%.
Loks var veigamikill munur á svörum við spurningu um óreglulegan hjartaslátt eða hjartaflökt, sem þó er vert að taka fram að er sjaldgæfur kvilli í báðum hópum: 4 börn í hópi þeirra sem ekki höfðu smitast greindu frá slíkum tilfellum, en úr hópi þeirra sem höfðu smitast greindu 17 börn frá þess háttar einkennum tveimur mánuðum síðar.
„Veruleg áhrif á daglegt líf“
Á einum flokki spurninga ekki verulegur munur milli hópanna, það voru þær sem sneru að geðheilsu: svipað hlutfall barna greindi frá kvíða, þunglyndi og svefnörðugleikum, óháð smiti. Þó munaði helst á svefnörðugleikum: tveimur mánuðum eftir smit sögðust 17,5% barna glíma við svefnvandamál, samanborið við 14,3% barna sem ekki höfðu orðið fyrir smiti. Það telst þó ekki verulegur munur. Höfundar rannsóknarinnar segja það mikilvæga niðurstöðu, að engin tengsl hafi fundist milli SARS-CoV-2 sýkingar og geðrænna einkenna, sem samræmist niðurstöðum annarra athugana.
Í könnuninni voru börnin beðin um að leggja mat á þunga einkennanna, á þriggja stiga mælikvarða, það er hvort þau væru lítil, nokkur eða mikil. Heilt yfir sögðu börnin 75%–83% einkenna sinna nokkur eða mikil, „sem gefur til kynna að einkennin séu yfirleitt ekki talin mild,“ eins og höfundar rannsóknarinnar orða það, og gætu haft „veruleg áhrif á daglegt líf“.
Þó var ein undantekning á þessu: 94% þeirra sem greindu frá hjartsláttartruflunum eða hjartaflökti lýstu þeim einkennum sem „litlum“ eða „nokkrum“.
Þriðjungi batnaði innan árs
Enginn markverður munur kom í ljós á þessum langvinnu einkennum eftir því í hvaða bylgju börnin sýktust, né eftir því hversu alvarleg einkenni þeirra voru beint í kjölfar smits.
Heilt yfir var mestur munur á einkennum barna sem höfðu smitast og samanburðarhópsins í aldursflokknum 13–17 ára en minni munur meðal yngri barna. Þetta segja höfundarnir samræmast því sem búist var við. Þau segja þó áhugavert að yngri börn, þar á meðal börn undir sex ára aldri, hafi borið „veruleg einkenni“, einkum þreytu, öndunarvanda, svefnörðugleika og kvíða. „Þetta er aldurshópurinn sem er talinn í minnstri hættu af alvarlegri bráðri sýkingu og gefur hugsanlega til kynna að þörf sé á frekari rannsóknum sem beina sjónum að lífeðlismeinafræði SARS CoV-2 sýkinga meðal yngri barna.“
Þegar könnuninni var fylgt eftir ári síðar svöruðu 85% þeirra þátttakenda í rannsókninni sem höfðu greint frá einu eða fleirum langvarandi einkennum. Ekki var leitað til samanburðarhópsins í þeirri seinni könnun. Tæpur þriðjungur þeirra sem svöruðu, eða 29%, átti á þeim tímapunkti ekki lengur við nein einkenni á listanum að stríða. Þau einkenni sem var algengast að hefðu horfið voru óreglulegur hjartsláttur og missir bragð- og lyktarskyns. Í sumum tilfellum greindu börnin þó frá því að önnur einkenni hefðu birst í millitíðinni: vöðvaverkir, öndunarvandamál og höfuðverkir. Höfundar rannsóknarinnar taka fram að þau hafi ekki haft aðgang að sjúkrasögu barnanna á milli kannananna tveggja.
Áhrif á lífsgæði milljóna barna
Höfundarnir nefna að aðrar rannsóknir gefi til kynna að einkenni Long COVID séu álíka tíð eftir smit af omicron-afbrigðinu, sem verið hefur í mestri dreifingu síðan vorið 2022, og hinum fyrri afbrigðum SARS-Cov-2. Þó séu vísbendingar um að einstök einkenni á við höfuðverki, vöðvaverki og svefnörðugleika séu algengari í kjölfar omicron-sýkingar.
Þau benda á að ekki sé vitað um áhrif endurtekinna SARS-CoV-2 sýkinga á Long COVID, né hvort áhætta af sýkingu breytist við að hafa áður fengið Long COVID. Þau segja að frekari rannsókna sé þörf en bæta við að „því miður“ sé nú, „eftir því sem breiðst hefur úr SARS-CoV-2, orðið nær ómögulegt að finna óútsettan hóp til samanburðar.“
Í lokaorðum rannsóknarinnar tilgreina höfundarnir góðu fréttirnar: annars vegar að um þriðjungur þeirra barna sem bera langvinn einkenni virðast ná sér innan árs, hins vegar muni útbreiddar bólusetningar barna gegn sjúkdómnum áreiðanlega draga úr álaginu bæði af bráða-COVID og Long COVID. Eftir sem áður megi ætla að einkenni sjúkdómsins hafi áhrif á lífsgæði milljóna barna um allan heim.
Valtýr Stefánsson Thors, lektor í barnalækningum, leiddi rannsóknina, eins og áður var nefnt, en aðrir rannsakendur voru Kristín Lilja Björnsdóttir og prófessorarnir Þorvarður Jón Löve og Ásgeir Haraldsson.