Fyrrverandi bæjarfulltrúi VG: „Þessar málamiðlanir eru löngu komnar fram yfir það sem getur talist eðlilegt“

Valgerður H Bjarnadóttir, félagsfulltrúi og fyrrverandi bæjarfulltrúi VG á Akureyri, sendir þingflokki VG og ráðherrum flokksins opið bréf þar sem hún segist bæði sorgmædd og reið yfir afstöðu flokksins. Hún segist ekki geta lengur setið og horft upp á það sem er að gerast í ríkisstjórn sem að nafninu til á að vera leidd af sínum gamla flokki. Hún segir málamiðlanir flokksins sé komnar fram yfir það sem getur talist eðlilegt.

Hér fyrir neðan má lesa bréfið sem Valgerður skrifaði í heild sinni.

Þetta bréf sendi ég áðan í tölvupósti til þingflokks og ráðherra (sic) VG og birti hér. Þessu má deila og endurnýta eins og hverju og einu ykkar finnst rétt.

Ákall til þingflokks og ráðherra Sú var tíðin að við vorum sammála um hugsjónir og leiðir í baráttunni fyrir betri heimi. En nú virðist sú tíð liðin.

VG – opið bréf

Ég er sorgmædd og reið og ég get ekki lengur setið og horft upp á það sem er að gerast í ríkisstjórn Íslands og gert er í nafni Íslands þessa dagana. Ég verð að segja eitthvað .. og við ykkur beint, fyrrum félaga mína úr VG. Af virðingu fyrir ykkur og hugsjónum okkar. Nú veit ég að þið eruð önnum kafin og kannski ekki miklar líkur á að þið lesið þennan póst sjálf, en ég vil senda ykkur hann. Og ég set hann líka á facebook, þannig að öll geti lesið, sem opið bréf, í þeirri von að hann nái að lokum til ykkar líka og að þið hlustið. 

Í nótt skilst mér að móðir á flótta með 8 börn hafi verið send úr landi, í óvissuna. Í ykkar nafni og í mínu nafni sem íslenskrar konu, þar sem ég kaus VG til valda í þessu landi, alveg frá því að flokkurinn varð til. Og þótt ég viti vel hvernig stjórnarfari er háttað á Íslandi, þá eruð þið, þingflokkur VG og ráðherrar (mikið vildi ég að konurnar í flokknum fyndu sér annan titil) ábyrg á meðan þið sitjið í ríkisstjórn með þeim sem taka þessar ákvarðanir.

Í gær afneitaði utanríkisráðherra því að Ísrael hefði gert árás á flóttamannabúðir á Gaza, og setti á hrokafullan hátt ofan í við fréttamann sem réttilega kallaði árásir Ísraelshers „attack“.  Ráðherrann réttlætti svo þessi voðaverk og bætti einhverju við um mannúðarvopnahlé  .. en það var löngu hætt að vera trúverðugt.  Ráðamenn Ísraels hafa sjálfir kallað þetta árásir, svo ég skil ekki hvað honum gekk til. Eini ráðamaðurinn sem ég hef undanfarið heyrt ávíta fréttamenn fyrir að kalla hernaðarinnrásir og árásir sínum réttu nöfnum, er Pútín, þar til nú.

Um helgina sat Ísland hjá í ykkar nafni og mínu um vopnahlé á Gaza. Og orðalagi var kennt um hjásetuna. Að mótmæla þessu eftirá, breytti engu, því að á meðan þessi atkvæðagreiðsla fór fram og hártogast var á um hver hefði ráðfært sig við hvern eða upplýst, klukkan hvað og hvernig .. var lífið murkað úr fjölda saklauss fólks, barna og kvenna, sem við kusum að gefa ekki möguleika á vopnahléi. Mörg þúsund börn þjást hræðilega og láta lífið þessa dagana, vegna þess að við stöndum ekki öll með þeim.

Við söfnuðumst saman um allt land .. meira en 100 þúsund 24. október s.l. og kröfðumst réttlætis og afnáms hins kúgandi og stríðandi feðraveldis.  En nú virðist það allt gleymt og ríkisstjórn Íslands, með stuðningi VG kemur fram á þennan hátt. Það er ekki í lagi.

Svona get ég haldið lengi áfram, en ætla ekki að gera það. Bið ykkur bara að staldra við og hugsa um hvað þið eruð að gera. Mér er sama um VG, sem um þessar mundir er í dauðateygjunum .. stjórnmálaflokkar skipta ekki máli, þeir koma og fara. En mér er ekki sama um það fólk sem þjáist og deyr í heiminum vegna þess að ráðafólk þorir ekki að standa með hugsjónum sínum. Mér er ekki sama um ykkur öll og um hugsjónirnar sem við áttum einu sinni saman. 

Ég veit að samsteypustjórn krefst málamiðlana. Ég veit að þið eruð ekki öfundsverð.  En þessar málamiðlanir eru löngu komnar fram yfir það sem getur talist eðlilegt. Þær mega ekki kosta æruna og verða til þess að lokað sé á kærleika, mannúð og skýra sýn á veruleikann. Þessu verður að linna!

Með von um einlæga hlustun, Valgerður H. Bjarnadóttir

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí