Þegar skimað er gegnum þingræður liðinnar viku birtist ein sem við fyrstu sýn virðist forvitnilega óaðkallandi en þó hugsanlega svolítið lýðræðisleg, undir yfirskriftinni „Skjaldarmerki frá 1881 á framhlið Alþingishússins.“ Að kóróna danska einvaldsins tróni enn á toppi þessarar byggingar, 79 árum eftir lýðveldisstofnun, þykir mörgum til marks um andvaraleysi um sögu og inntak lýðveldisins, og löngu tímabært að tillaga kæmi fram um að víkja henni frá fyrir táknmynd sem á einhvern hátt varðar samfélag samtímans.
Þegar í ljós kemur að hér er á ferðinni þingsályktunartillaga frá þremur Sjálfstæðismönnum og að fremstur í flokki fer Birgir Þórarinsson, áður þingmaður Miðflokksins, kemur það að vissu leyti á óvart, enda hvorki hann né meðflutningsmenn málsins þekktir fyrir lýðræðislegan uppreisnaranda gegn andlausri og þreytulegri íhaldssemi. Þegar ræðan loks heyrist kemur enda á daginn að það er ekki tilfellið – þingmönnunum þykir alls ekki nóg komið af táknmyndum liðinnar tíðar og konungstigna á þinghúsinu heldur vilja þvert á móti fjölga þeim:
„Í tillögunni er lagt til,“ sagðir Birgir í ræðunni er hann bar fram tillöguna, „að skjaldarmerkin sem prýddu Alþingishúsið allt þar til þau voru fjarlægð 1904 verði sett upp að nýju. Um er að ræða tvö skjaldarmerki, annars vegar skjaldarmerki handhafa valds á Íslandi, frá fyrri öldum, krýndur útflattur þorskur á rauðum skildi; og hins vegar skjaldarmerki Danmerkur, þrjú krýnd ljón.“
Nái tillaga fram að ganga yrði dönskum kórónum á framhlið þinghússins þannig fjölgað úr þeirri einu sem nú stendur á húsþakinu, um eina yfir þorski og þrjár á höfði ljóna, í alls fimm danskar kórónur. Fyrirferð konungsveldisins yrði að því leyti fimmfölduð á einu bretti, 79 árum eftir lýðveldisstofnun.
„Þetta er tillaga sem fer nú ekki mikið fyrir,“ sagði Birgir í ræðunni, „en herra forseti, ég tel að hún sé mikilvæg að því leytinu til að færa húsið, eins og ég nefndi hér, í alveg upprunalegt horf.“ Hann sagðist hafa það frá fyrrum þjóðminjaverði Þjóðminjasafns Íslands að „þessi skjaldarmerki sem voru á húsinu en voru fjarlægð 1904 eins og ég sagði hér áðan, að þau séu til og það er því ekki mikið til fyrirstöðu og fylgir því lítill kostnaður að setja þau upp aftur. Og það held ég að verði bara til prýði. “
Þetta var í þriðja sinn sem þessi þingsályktunartillaga kemur fyrir þingið og var henni vísað til nefndar.