Ítalía semur við Albaníu um rekstur varðhaldsbúða fyrir innflytjendur

Á mánudag undirritaði Giorgia Meloni, forsætisráðherra Ítalíu, samkomulag við Edi Rama, forsætisráðherra Albaníu, um að Albanía muni taka á móti allt að 39.000 manns á ári úr hópi þeirra sem sækja um alþjóðlega vernd á Ítalíu. Nánar til tekið er fyrirhugað að flytja til Albaníu fólk sem ítalska strandhelgisgæslan bjargar á Miðjarðarhafi, á leið frá Afríku.

Samkvæmt heimildamönnum The Guardian var gengið frá samkomulaginu í ágúst, þegar fréttir hermdu að Meloni hefði verið í fríi í Albaníu, þó að það hafi ekki verið formfest og tilkynnt fyrr en nú á mánudag.

Ítalska ríkið mun fjármagna byggingu tveggja „miðstöðva“ eða varðhaldsbúða í Albaníu. Ítalska strandhelgisgæslan mun færa fólk sem er bjargað á hafi til albönsku hafnarborgarinnar Shëngjin. Þar býðst þeim að sækja um alþjóðlega vernd á Ítalíu og verða þá flutt í varðhaldsbúðirnar, á stað sem nefnist Gjadër. Útfærslan virðist fela í sér að búðirnar muni heyra undir ítalska lögsögu en þó mun albanska lögreglan annast gæslu í búðunum.

Forskot á Danmörku og Austurríki

Financial Times fullyrðir að þetta sé í fyrsta sinn sem aðildarríki ESB útvistar verndarferli til lands sem ekki tilheyrir sambandinu, sem er væntanlega rétt ef haft er í huga að Bretland, sem hefur gert hliðstætt samkomulag við Rúanda, er ekki lengur aðildarríki sambandsins.

Þá hafa ESB-ríkin Austurríki og Danmörk lýst yfir ásetningi um svipað fyrirkomulag en ekki gengið frá samningum enn. Að því leyti sem þessi ríki etja kappi á botninn í mannréttindamálum má segja að Ítalía hafi því náð nokkru forskoti á mánudag.

Samkvæmt fyrstu fréttum hyggjast ítölsk stjórnvöld ekki flytja konur, börn og „fólk í viðkvæmri stöðu“ til búðanna í Albaníu.

„Eins konar ítalskt Guantánamo“

Riccardo Magi, forseti ítalska vinstriflokksins Più Europa eða Meiri Evrópu, sagði um samkomulagið að ítölsk stjórnvöld „væru að skapa eins konar ítalskt Guantánamo, utan alþjóðlegra viðmiða, utan Evrópusambandsins, án möguleika á að fylgjast með varðhaldstöðu þeirra sem verða læst inni í þessum miðstöðvum. … Ítalía getur ekki flutt fólk sem er bjargað á hafi til ríkis utan ESB eins og þau væru bögglar eða varningur.“

Þegar Meloni kynnti samkomulagið sagði hún að Ítalía myndi launa greiðvikni Albana með því að gera allt sem í hennar valdi stæði til að styðja umsókn Albaníu um aðild að Evrópusambandinu.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí