Undir miðnætti á mánudagskvöld samþykkti Alþingi frumvarp forsætisráðherra um vernd mikilvægra innviða á Reykjanesskaga, eftir skjóta afgreiðslu: umræður á þingi, í nefnd, atkvæðagreiðslur um breytingatillögur og loks um frumvarpið sjálft á einum degi. Eins og segir í fyrstu grein laganna er markmið þeirra „að verja mikilvæga innviði og aðra almannahagsmuni á Reykjanesskaga fyrir hugsanlegum afleiðingum eldsumbrota.“ Breið samstaða var meðal þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu um frumvarpið og sama mátti grein á meðal alls almennings.
Aðra sögu má segja um þá útfærslu að fjármagna varnirnar með nýjum skatti.
Árlegt gjald á allar húseignir
Forvarnargjald heitir hinn nýi skattur sem er kveðið á um í fjórðu grein laganna: „árlegt gjald á allar húseignir sem nemur 0,08% af brunabótamati.“ Gert er ráð fyrir að gjaldið skili um milljarði í tekjur á næsta ári, þegar ákvæðið tekur gildi. Það rennur í ríkissjóð og verður innheimt af tryggingafélögum.
Meðal þeirra mikilvægu innviða sem helst hefur verið rætt að skuli verja á Reykjanesi, til dæmis með varnargörðum, eru virkjun HS Orku á Svartsengi og Bláa lónið. Allt fram á mánudag var ekki víða tekið sérstaklega til þess í því samhengi að hvort tveggja eru einkafyrirtæki. Á mánudagskvöld mátti þó greina vaxandi kergju á samfélagsmiðlum yfir því að lagður verði nýr skattur á almenning til að fjármagna þær, án þess að neitt hafi komið fram um þátttöku fyrirtækjanna sem njóta góðs af þeim.
Guðjón Friðriksson, sagnfræðingur, spurði á Facebook: „Af hverju eru einkafyrirtækin HS Orka og Bláa lónið, sem hafa grætt milljarða á undanförnum árum, ekki látin borga amk. hluta af kostnaðinum við varnargarðana? Þess í stað er lagður nýr skattur á þorra almennings til að borga kostnaðinn.“
Á sama vettvangi tók Valdimar Örn Flygenring, leikari, dýpra í árinni og bar ekki fram spurningu heldur kröfu: „95% skatt á hagnað bankanna, eldisins, útgerðarinnar, HS orku og blanka lónsins fyrir varnargarðana!! Deilið!!“ Aðfaranótt þriðjudags höfðu yfir 1.100 manns deilt þeirri færslu.
Er þörf á nýjum skattstofni?
Þessi útfærsla, að stofna til nýs gjalds á alla húseigendur, til að standa straum af útgjöldum sem eru óveruleg viðbót við heildarútgjöld ríkisins, fór ekki heldur athugasemdalaust í gegnum þingið.
Fyrst til að gera athugasemd við hinn nýja skatt í afgreiðslu frumvarpsins á mánudag var Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður Pírata. Eins og allir þingmenn sem tóku til máls um frumvarpið hóf Þórhildur ræðu sína á að gera grein fyrir því að hugur hennar og þingflokksins væri hjá Grindvíkingum og þau styddu frumvarpið. Í ljósi hins skamma tíma sem þingið hefði til að afgreiða það væri þó vert að staldra við og gaumgæfa einstök atriði þess.
„Í fyrsta lagi,“ sagði Þórhildur, „þarf að velta því upp hvort þörf sé á að búa til nýjan skattstofn á einum degi til að greiða fyrir framkvæmd sem vel ætti að rúmast innan fjárlaga. Þegar 2,5 milljarða framkvæmdir eru skoðaðar í samhengi ríkisfjármála er ekki um stóra upphæð að ræða. Hefur verið skoðað að afgreiða þessa tilteknu framkvæmd með varasjóði ríkisstjórnarinnar og viðbótarfjárlögum næsta árs?“ Hún benti á að fjárlögin eru enn til umfjöllunar í fjárlaganefnd. „Slík nálgun myndi gefa okkur meira rými til að ræða hvernig fjármögnun á vörnum fyrir mikilvæga innviði landsins væri best fyrir komið,“ sagði hún, en þess í stað fari ríkisstjórnin þá leið „að leggja til nýjan skattstofn, tímabundið samkvæmt frumvarpinu en hann ber þó öll merki þess að eiga að gilda um ókomna tíð.“
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, tók í sama streng í ræðu sinni: „Það eru þó ákveðin atriði sem ég tel rétt að gera athugasemd við,“ sagði hann, „og hvet til að fái umræðu í nefndinni. Þar á ég einkum við þau áform að leggja á nýjan skatt eða hækka skatta til að ráðast í þessar hugsanlegu og líklegu framkvæmdir.“ Sigmundur sagðist hafa telja æskilegra „að nýta þá sjóði sem fyrir eru til að ráðast í þær aðgerðir sem þarf, hvort sem þar er litið til náttúruhamfaratryggingar eða ofanflóðasjóðs,“ og einfaldast að „breyta reglum um þá sjóði, til að mynda ofanflóðasjóð, svo hægt væri að nýta hann strax í þessar aðgerðir“. Þá sagði þingmaðurinn að í ofanflóðasjóð hafi safnast saman „meiri peningar heldur en hægt hefur verið að nýta á undanförnum árum og raunar ríkisstjórnin gengið á sjóðinn og notað í önnur verkefni.“
Minnihlutinn lagði til breytingu
Í annari umræðu mælti loks Eyjólfur Ármannsson, þingmaður Flokks fólksins, fyrir breytingatillögu á frumvarpinu, um að fella burt fjórðu grein frumvarpsins og þar með hið nýja gjald.
Eyjólfur vísaði í ákvæði um varasjóð í lögum um opinber fjármál, þar sem segir: „Í frumvarpi til fjárlaga skal gera ráð fyrir óskiptum almennum varasjóði til að bregðast við útgjöldum sem eru tímabundin, ófyrirsjáanleg, óhjákvæmileg og ekki hægt að bregðast við með öðrum hætti samkvæmt lögum þessum.“ Þá tiltók hann að í fjárlögum þessa árs séu lagðir til í varasjóð 34,5 milljarðar króna og á næsta ári sé gert ráð fyrir 45 milljörðum. „Hér er um framkvæmd að ræða sem er svona á bilinu 2,5 milljarðar til 3 milljarðar,“ sagði hann. „Það er fráleitt að ætla að setja skattlagningu á þjóðina og samfélagið í lögum sem er ætlað að bregðast við þeirri neyð sem nú er á Reykjanesi.“
Þegar gengið var til atkvæðis um breytingatillöguna greiddu fjórtán þingmenn stjórnarandstöðunnar atkvæði með henni, þ.e. með því að fella burt úr meginfrumvarpinu ákvæðið um hinn nýja skatt. Það voru þingmenn úr flokkum Píarata, Viðreisnar, Miðflokksins og Flokki fólksins. Þingmenn Samfylkingar sátu hjá.
Allir Sjálfstæðismenn hlynntir nýjum skatti
Allir 35 viðstaddir þingmenn stjórnarflokkanna höfnuðu aftur á móti þessari breytingatillögu, þar með taldir þingmenn Sjálfstæðisflokks. Hvernig þeir hefðu fært rök fyrir afstöðu sinni í þessu máli kom ekki fram, enda tók enginn þingmaður stjórnarflokkanna til máls í umræðu um breytingatillöguna – ef frá er talin hálfrar mínútu löng ræða Orra Páls Jóhannssonar, formanns þingflokks VG, sem gerði þó grein fyrir atkvæði sínu. Orri Páll tók undir góðar óskir til Grindvíkinga, síðan sagði hann: „Hér er ábyrg tillaga að frumvarpi sem sett er fram á neyðartímum. Með fjórðu grein frumvarpsins er styrkum stoðum rennt undir tekjuöflun ríkisins til stuðnings íbúum á Reykjanesskaganum. Við í þingflokki VG styðjum ekki þessa breytingatillögu fulltrúa minnihlutans, það er að segja allra nema Samfylkingarinnar. Ég segi nei.“
Þegar frumvarp forsætisráðherra var borið undir atkvæði var það því óbreytt að þessu leyti, hvað gjaldtökuna varðar. Þeir þingmenn sem gerðu athugasemd við gjaldtökuna tóku sem fyrr segir einatt fram að þeir styddu eftir sem áður frumvarpið, og gerðu ljóst að samstaða ríki innan þings sem utan um stuðning við íbúa Reykjaness andspænis náttúruhamförunum. Laust undir miðnætti á mánudagskvöld voru lögin sjálf loks samþykkt, með atkvæðum allra viðstaddra þingmanna stjórnar og stjórnarandstöðu.