Ríkisstjórnin styrkir auðfólk og vinnur gegn nýjum og minni fjölmiðlum

Fjölmiðlar 5. nóv 2023

„Ástæða þess að Samstöðin fær ekki ríkisstyrk er að kerfið er byggt upp til að vernda eldri og stærri fjölmiðla. Og þar með að bregða fæti fyrir hina yngri og minni,“ segir Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri Samstöðvarinnar. „Miðað við 25% af ritstjórnarkostnaði má ætla að Samstöðin ætti að fá um 15 m.kr. í ríkisstyrk í ár og meira á næsta ári. Kerfið er hins vegar sett þannig upp að Samstöðin fær ekkert en þarf að keppa við fjölmiðla sem fá styrki. Nýir miðlar byrja því ekki í jafnstöðu heldur ofan í holu sem ríkisstjórnin hefur grafið.“

„En kannski er það guðsblessun að Samstöðin fái ekki styrki,“ bætir Gunnar Smári við. „Áhrifin af þessum styrkjum á aðra miðla sést til dæmis af því að enginn þeirra gagnrýnir þetta vitlausa kerfi, þeir drjúpa allir höfði í átt að Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra og rétta fram lófann í von um pening.“

Styrkjakerfið er þannig að fjölmiðlar fá ekki styrk fyrr en eftir nokkur ár. Reglurnar miða að því að miðlarnir hafi verið í rekstri í nokkur ár. Með þessu dregur kerfið úr nýliðun á vettvangi þar sem fjölmiðlar hafa fallið eins og flugur og nýliðunar er sannarlega þörf. En slík hindrun á nýliðun er í reynd stuðningur við þá fjölmiðla sem fyrir eru og einkum hina stærstu.

Enda fær Morgunblaðið og Sýn stærstu styrkina, fjölmiðlar í eigu auðugasta fólks landsins. Heimildin er í þriðja sæti styrkþega en síðan kemur Viðskiptablaðið, sem líka er í eigu auðugs fólks, og svo Bændasamtökin, sem eru í reynd ríkisrekin. Megnið af peningunum fer því til fólks og fyrirbrigða sem myndu halda úti sínum áróðri þótt engir væru styrkirnir. Styrkirnir styðja því við það kerfi sem tók við þegar rekstrargrundvöllur fjölmiðlanna hrundi, ekki það kerfi sem hrundi.

„Samstöðin hefur ekki óskað eftir neinum stuðningi frá stjórnvöldum,“ segir Gunnar Smári. „Við vitum fullvel að það verkefni sem við erum að kljást við, að byggja upp öflugan fjölmiðil á grunni Samstöðvarinnar mun taka langan tíma og kannski eru mestar líkur á að við munum farast á leiðinni. En ef þetta tekst, að byggja upp fjölmiðil í eigi áhorfenda, áheyrenda og lesenda, þá er erfiðið vissulega þess virði. En þótt við höfum ekki beðið stjórnvöld um neitt þá má samt óska þess að þau leggi ekki stein í götu okkar.“

Samstöðin er í eigu lesenda, áheyrenda og áhorfenda. Fólk getur skráð sig fyrir áskrift hér: Áskrift. Þau sem vilja geta látið áskriftina renna sem félagsgjöld til Alþýðufélagsins, sem er félagsskapur áskrifenda sem jafnframt er eigandi Samstöðvarinnar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí