Sænskir vinstrimenn brugðust berskjölduðum hópum í faraldrinum

Í nýjasta hefti bandaríska ritsins Jacobin birtist grein undir yfirskriftinni „The Swedish Left Failed the Vulnerable During the Pandemic“ eða Sænskir vinstrimenn brugðust berskjölduðum hópum í faraldrinum. Greinarhöfundar, Markus Balázs Göransson og Nicholas Loubere, segja „handfrjálsa“ nálgun Svíþjóðar á Covid-19 faraldurinn hafa notið hylli hægrimanna um víða veröld – en innan Svíþjóðar hafi vinstrimenn einnig lofað nálgunina. Þeir segja þá afstöðu sænska vinstrisins hafa grundvallast á undirgefni við yfirvald og trú á sérstöðu þjóðarinnar.

Afleiðingar þessa, segja greinarhöfundar, voru meðal annars að áfallið sem faraldurinn olli viðkvæmum hópum var langtum þyngra en meðal annarra: í júní 2022 höfðu 1 af 621 íbúum Svíþjóðar látist af völdum Covid-19, samkvæmt opinberum gögnum. Fyrir fólk sem nýtur persónulegrar aðstoðar var hlutfallið 1 af hverjum 169 – dauðsföll í þeim hópi voru með öðrum orðum fjórfalt tíðari en meðal alls almennings.

Beðið eftir vinstrinu

„Fyrir margt vinstrafólk í Svíþjóð með alþjóðlegt tengslanet var heimsfaraldurinn súrrealísk upplifun,“ segir í greininni. „Fyrstu mánuðina biðum við eftir því að sænski Vinstriflokkurinn (Vänsterpartiet) og framvarðarsveit vinstrihreyfinga þrýstu á stjórnvöld og yfirvöld heilbrigðismála að breyta um stefnu og víkja frá þeirri áætlun að láta mikinn meirihluta íbúa smitast, í von um ætlað „hjarðónæmi“ áður en bóluefni kæmu til sögunnar.“

Það gerðist ekki, segja höfundarnir. Þess í stað hafi sænska vinstrið „með nokkrum markverðum undantekningum, tekið hjarðónæmis-nálgunina upp á arma sína og tekið höndum saman um að ráðast á þá sem gagnrýndu viðbrögð stjórnvalda við faraldrinum. Eftir því sem tíminn leið og þessi nálgun tók á faraldurinn tók stærri toll, steig sænska vinstrið, óskiljanlega, fastar niður fótum í þessari afstöðu. Á sama tíma varð Svíþjóð eftirlæti öfgahægrisins, fyrirmynd sem breiddist út meðal andstæðinga grímunotkunar og samkomutakmarkana um allan heim.“

Í dálæti hjá hægrinu

Höfundarnir benda á að róttækar hægrihreyfingar um allan heim hafi endurtekið vegsamað nálgun Svíþjóðar á faraldurinn og stillt henni upp sem fyrirmynd sem önnur lönd ættu að fylgja. Þeir nefna Jair Bolsonaro í Brasilíu, Ron DeSantis, ríkisstjóra Florida, og Scott Atlas, fyrrum ráðgjafa Donalds Trump í faraldrinum, sem dæmi um þann fjölda hægrimanna sem hafi lofað viðbragð Svíþjóðar.

Það sama, segja þeir, á við um hugveitur á sviði frjálshyggju, nýfrjálshyggju og nýrra íhaldsafla, á við American Institute for Economic Research (AIER), Cato stofnunina og Brownstone stofnunina. „Þessi félög sem annars berjast gegn loftslagsaðgerðum og efnahagslegum jöfnuði hafa endurtekið hafið sænsku nálgunina á loft sem skínandi dæmi um stefnu í faraldrinum og notað það til að gagnrýna virka stefnu í sóttvörnum.“

Höfundar hinnar alræmdustu yfirlýsingar hægrimanna í faraldrinum, sem á ensku nefnist the Great Barrington Declaration, eða Barrington-yfirlýsingin, lögðu drög að henni í bækistöðvum AIER árið 2020 og voru, að sögn greinarhöfunda, undir sterkum áhrifum frá nálgun Svíþjóðar. Fleiri dæmi eru nefnd til sögunnar í greininni.

Áhersla á einstaklingsábyrgð

Höfundarnir segja margar ástæður fyrir því að róttækar hægrihreyfingar hafi hrifist af nálgun Svíþjóðar. Efasemdir sænskra stjórnvalda um grímur, tregða þeirra við að kynna til sögunnar „einföldustu úrræði til sóttvarna“ og mótþrói þeirra við að hindra starfsemi einkafyrirtækja, hafi vitaskuld gengið í augun á hægriöflum. Því til viðbótar liggi um leið dýpri hugmyndafræðilegur þráður á milli sænsku nálgunarinnar og hægrihreyfinga á heimsvísu, sem nái lengra aftur en faraldurinn.

Árið 2018 birtu fræðimennirnir Carl Rådestad og Oscar Larsson rannsókn á nýfrjálshyggjuvæðingu sænskra viðbragða við áföllum og hættuástandi, sem þeir sögðu hafa átt sér stað og þróast frá tíunda áratug síðustu aldar. Sífellt stærri hluti ábyrgðar hafi verið færður á herðar einstaklingum í ferli sem þeir kalla „responsibilization“ eða ábyrgðarvæðingu, þar sem einstaklingum hefur verið ætlað að „taka ábyrgð á eigin öryggi.“

Höfundar Jacobin-greinarinnar vísa í þessa rannsókn og segja að sænsk stjórnvöld hafi lagt sig fram um að réttlæta slíka einstaklingsvæðingu ábyrgðar á þeim forsendum að hún létti á opinberum sjóðum. Þeir segja að þróunina verði um leið að skoða í ljósi víðtækari viðleitni til að varpa ábyrgðum af ríkinu. Þeir vísa til franska heimspekingsins Émilie Hache sem hafi bent á að „hugmyndin um ábyrgð einstaklinga er lykilþáttur nýfrjálshyggjunnar og hefur endurtekið verið dregin fram á Vesturlöndum til að réttlæta tilraunir til að draga úr ábyrgðum ríkisins.“

Miðað við millistéttina

Í faraldrinum segja þeir að opinber orðræða sænskra stjórnvalda hafi litast mjög af áherslu á ábyrgð einstaklinga: „Opinberar stofnanir héldu því aftur og aftur fram að útbreiðslu SARS-CoV-2,“ veirunnar að baki Covid, „bæri ekki að fást við með skimun, rakningu og sóttkví, bættri loftræstingu, einangrun sjúklinga, hugbúnaði til rakningar eða öðrum aðferðum sem beita mætti á vegum ríkisins heldur með sjálfviljugri þátttöku einstaklinga á grundvelli ráðgjafar sóttvarnaryfirvalda.“

Frá vinstrinu séð, segja höfundar, er þetta augljóslega mikil vandræðanálgun. „Að halda því fram að varnir við banvænum smitsjúkdómi séu spurning um ábyrgð einstaklinga er viðleitni við að einkavæða sameiginlegt vandamál, og um leið að virða að vettugi þá meðlimi samfélagsins sem ekki geta varið sjálfa sig eða aðra. Nálgun á faraldurinn sem byggði á samstöðu hefði lagt áherslu á sameignilega ábyrgð samfélagsins á að vernda viðkvæmat fólk og þau sem eru útsett fyrir veikindum. En í Svíþjóð útdeildi ríkisstjórn Sósíal-demókrata og Græningja lífi og heilsu fólks til einstakra borgara – það er til fólks sem stóð frammi fyrir afar misjöfnum félagslegum og efnahagslegum aðstæðum og bjó að gríðarlega ólíkum úrræðum til að verja sig og aðra.“

Lífshætta háð tekjum

Höfundarnir segja það vel skrásett að sænsk yfirvöld hafi enn aukið á vandann með því að móta þá ráðgjöf um sóttvarnir sem stjórnvöld þó veittu út frá forsendum skrifstofustarfsfólks og miðstéttarfólks, „hóps sem almennt gat unnið heiman frá sér og var síður berskjaldað fyrir veirunni hvort eð er.“ Sóttvarnarráð á við að „vinna að heiman ef þúg etur, halda þig heima ef þú ert með einkenni, og halda fjarlægð frá öðrum“ hafi verið þeim miklu auðveldara að fylgja sem ekki þurftu að vera líkamlega viðstödd til að sinna starfi, sem voru með sveigjanlegan vinnutíma, bjuggu í rúmbetra húsnæði og unnu ekki við þjónustustörf.

Blaðamaðurinn Martin Klepke, við vinstra dagblaðið Arbetet, hefur í röð greina bent á þessa miðstéttar-slagsíðu sænsku nálgunarinnar, segir í greininni. Þar er haft eftir Klepke að verkafólki í Svíþjóð hafi verið kastað undir vagninn þegar ráðgjöf heilbrigðisyfirvalda tók ekkert tilliti til félagslegra og faglegra aðstæðna þeirra. Til dæmis, segir þar: „Á meðan aðrir gátu unnið heiman frá sér eða forðast mannþröng í samgöngum með því að ferðast utan álagstíma, þurfti margt verkafólk að ferðast til og frá vinnu í illa loftræstum almenningssamgöngum, pakkfullum af fólki. Það gerðist jafnvel á sama tíma og yfirvöld hvöttu fólk til að halda fjarlægð – en neituðu að gera kröfur um eða einu sinni mæla með úrræðum á við andlitsgrímur.“

Í þessu samhengi nefna höfundarnir loks hinn misjafna árangur eftir hópu: dauðsföll voru fjórfalt tíðari meðal fólks sem naut persónulegrar aðstoðar en meðal alls almennings. Og samkvæmt rannsókn frá sænsku Lýðheilsustofnuninni voru tekjur stærsti áhrifavaldurinn á þá lífshættu sem fólki stafaði af Covid-19.

Hvers vegna fagnaði vinstrið blóðugri nýfrjálshyggju?

Þrátt fyrir allt þetta, skrifa höfundarnir, hefur sænska vinstrið enn að mestu leyti haldið sig frá því að gagnrýna viðbrögð stjórnvalda. Blaðamaðurinn Klepke sé einn af örfáum vinstrimönnum í landinu sem hafi leyft sér að draga ágæti sænsku nálgunarinnar í efa.

Þeir skrifa að í reynd hafi sænska vinstrið ekki aðeins látið hjá líða að gagnrýna stefnuna heldur hafi margir framámenn innan vinstrihreyfinga gengið svo langt að vegsama hana. Þannig hafi Karin Rågsjö, talsmaður Vinstriflokksins á sviði lýðheilsumála, kallað Anders Tegnell, sóttvarnalækni landsins, „búrókrata með hetjudýrð“; þingmaður flokksins, Hanna Gunnarsson, hafi án kaldhæðni látið frá sér tíst þar sem hún kalli hann „frelsara okkar“ og svo framvegis. Dæmin virðast mýmörg.

„Hvers vegna,“ spyrja höfundarnir, „hefur sænska vinstrið fagnað viðbragði við faraldrinum sem var opinskátt byggt á viðmiði nýfrjálshyggjunnar um einstaklingsbundna ábyrgð og virti kerfisbundið að vettugi jaðarsetta og berskjaldaða hópa?“

Greinin er lengri en hér verður rakið til fulls. Hana má lesa í opnum aðgangi á Jacobin.com.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí