Í vikunni 6.–12. nóvember lágu fleiri inni á Landspítala með Covid-19 en nokkru sinni fyrr á þessu ári, eða alls 32 sjúklingar. Þeim hafði þá fjölgað um nær 170% á tveimur vikum, eða hátt í þrefalt, en innlagðir sjúklingar með Covid-19 voru tólf í síðustu vikunni fyrir mánaðamót. Þetta kemur fram í nýjustu vikuskýrslu Landlæknis um öndunarfærasýkingar.
Aðrar öndunarfærasýkingar eru sem fyrr hverfandi í samanburði: fimm manns lágu inni með rhinoveiru, þrír með RS-veiru og einn með inflúensu þann 6.–12. nóvember (viku 45).
Fjölgunin er í samræmi við fjölgun greindra smita, samkvæmt vikuskýrslu sýkla- og veirufræðideildar Landspítala. Hlutföll Covid-19 sýkinga og inflúensu haldast nokkuð jöfn milli vikna, samkvæmt þeim gögnum: Covid-19 greindist um og yfir fimmfalt oftar en inflúensa í vikum 43–45. Báðum fjölgaði þó umtalsvert á milli vikna: greindum inflúensu-sýkingum fjölgaði úr 7 í 11, frá fyrstu til annarar viku nóvember, en greindum Covid-19 sýkingum úr 38 í 58. Það er í báðum tilfellum yfir 50% aukning á milli vikna og þarf að leita nokkuð langt aftur til samanburðar. Annar eins fjöldi Covid-19 sýkinga hefur að minnsta kosti ekki greinst fyrr þetta haust.
Frá því að stjórnvöld felldu niður sóttvarnaraðgerðir, í upphafi ársins 2022, hefur söfnun og miðlun upplýsinga um útbreiðslu Covid-19 einnig dregist verulega saman. Vikuskýrslurnar eru nú örasta gagnamiðlun heilbrigðisyfirvalda um viðfangsefnið. Í þeim er þó ekki greint frá fjölda á gjörgæsludeild eða fjölda dauðsfalla.