Þorvaldur Logason heimspekingur sakar Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóra, Eirík Bergmann prófessor og Hannes Hólmstein Gissurarson, prófessor, um að hafa í ritum sínum um Hrunið 2008, gert lítið úr og falið allan grun um alvarlega pólitíska spillingu. Ásökunin birtist í grein hans í Vísi í gær, laugardag. Hann segir að sögu Hrunsins þurfi að segja upp á nýtt á grundvelli augljósra staðreynda um spillingu og fjársvik.
Af verkum höfundanna þriggja tekur Þorvaldur hlut Eiríks Bergmann til sérstakrar skoðunar og segir hann sérkennilegan. Eiríkur hafi sett fram þá fræðikenningu að skýra mætti „uppgang, hrun og endurreisn íslensks efnahagslífs út frá pólitískri sjálfsmynd þjóðarinnar.“ Þorvaldur spyr hvernig Búsáhaldabyltingin hefði litið út „ef alþýða manna hefði staðið á Austurvelli og hrópað: „Vanhæf þjóðarsál! Vanhæf þjóðarsál! …“ í stað þess að hrópa á vanhæfa pólitíska stjórn?“
Einföld en sláandi staðreynd um Icesave
Af skýringum Eiríks nefnir Þorvaldur sérstaklega umfjöllun hans um Icesave-málið. Þorvaldur segir þátttöku Eiríks í atburðarásinni „flækjast svo illilega fyrir honum að hann virðist hvorki skilja kjarna málsins né geta leiðrétt augljósar rangfærslur.“
Þorvaldur Logason er höfundur hinnar nýútkomnu bókar Eimreiðarelítan: Spillingarsaga. Í Vísis-greininni segir hann að í bókinni setji hann fram „einfalda en sláandi staðreynd sem þjóðin hefði átt að vera upplýst um strax eftir útgáfu Rannsóknarskýrslu Alþingis 2010 og var endanlega staðfest með dómi Hæstaréttar í markaðssvikamáli Landsbankans, árið 2016: Icesave var fjársvik!“
Sú staðreynd er, skrifar hann, „fullkomlega og algjörlega óumdeilanleg. Fjárhagsstaða Landsbankans var svo gróflega fölsuð að allir þeir sem lögðu fram fé í bankann voru í reynd fórnarlömb fjársvika. Í bók minni geng ég reyndar lengra í afhjúpun og rökstyð að Icesave hafi einnig verið pólitísk tryggingarsvik (sama gilti um Kaupthing Edge í útibúinu í Þýsklandi).“
Áskorun til vandaðra fræðimanna og sagnafólks
Þorvaldur segir að á þær staðreyndir virðist Eiríkur „meira og minna blindur.“ Hann sé einnig blindur á: „spillingarorsakir Hrunsins og áhrif spillingarinnar á viðvarandi efnahagsvandamál Íslands. Í Bergmann útgáfunni af Icesave sögunni er sjálfsmynd Íslendinga í fyrirrúmi.“ Þorvaldur skrifar að Eiríkur hafi sjálfur verið „hluti af hinum þjóðernislega Indefence-hópi og hóf þar stórkostlega strámannsherferð undir slagorðinu: „Íslendingar eru ekki hryðjuverkamenn.“ Vitandi fullvel að Bretar beittu aldrei neinum lagaákvæðum um hryðjuverk heldur ákvæðum um efnahagsbrot (spillingu) og settu okkur aldrei á neinn lista yfir hryðjuverkaríki heldur á eignafrystingarlista. Þar voru vissulega ríki með það sem Eiríkur myndi líklega kalla þjakaða þjóðarsál en ég kalla spillta stjórnmálaelítu.“
Undir lok greinarinnar segir Þorvaldur að sú augljósa staðreynd að Icesave var „fjársvik á ábyrgð lítillar valdaklíku æðstu valdamanna Íslands“ gjörbreyti sögunni sem nú þurfi að skrifa alveg upp á nýtt, og skorar á „vandaða sagnfræðinga, stjórnmálafræðinga, kvikmyndargerðarmenn og aðra að fara af krafti í það verk.“
Greininni lýkur loks á mönun heimspekingsins: „Látum baráttuna um söguna ekki enda með dauða sannleikans.“