Að morgni mánudags birti Samstöðin frétt um þau skilaboð Samtaka atvinnulífsins til fyrirtækja í Grindavík að lögum samkvæmt þurfi þau ekki að greiða starfsfólki laun á meðan rekstur liggur niðri vegna náttúruhamfara.
Lesandi nokkur setti sig í samband við blaðamann og bað um að frekari upplýsingum yrði bætt við fréttina, sem væri of óhugnanleg að óbreyttu. Lesandinn sagði að þegar hún sæi fréttina í núverandi mynd, með andlitum stjórnenda SA, birtust þau henni með „horni og hala“ sem henni þótti ekki skemmtileg upplifun. Hún stakk upp á að þeim upplýsingum yrði bætt við texta fréttarinnar að starfsfólkið sem um ræðir á þó rétt á atvinnuleysisbótum.
Að launafólk hefur rétt á atvinnuleysisbótum hefur þegar komið fram. Þingmenn Samfylkingar tóku þann rétt þó til nánari umfjöllunar þennan mánudag, Kristrún Frostadóttir í þingræðu og Jóhann Páll Jóhannsson á Facebook.
Verðum að búa betur að velferðarkerfinu
Jóhann Páll vitnaði í félagsmálaráðherra, Guðmund Inga Guðbrandsson, sem sagði í kvöldfréttum RÚV: „Þau sem ekki fá laun næstu vikurnar eiga fullan rétt á að sækja um í atvinnuleysistryggingakerfinu, svo það er hluti af velferðarkerfinu sem grípur fólk.“ Við þetta bætir Jóhann Páll þeim upplýsingum að grunnatvinnuleysisbætur í dag eru 331.298 krónur eða „um 70 þúsund krónum undir lágmarkslaunum á vinnumarkaði.“ Hann segir að síðustu tvö ár hafi bæturnar verið „látnar rýrna um meira en 30 þúsund krónur að raunvirði.“ Það sé stuðningurinn sem bíði þeirra sem sækja um atvinnuleysisbætur næstu tvær vikur. „Síðan taka tekjutengdu bæturnar við en hámarksfjárhæð þeirra er 522.282 kr. og hefur rýrnað um 36 þúsund krónur að raunvirði síðustu tvö árin.“
„Ég trúi ekki öðru,“ segir Jóhann Páll, „en að Alþingi geti náð saman um aðgerðir til að tryggja afkomuöryggi Grindvíkinga. Að sama skapi verðum við að búa miklu betur að velferðarkerfinu okkar almennt svo það grípi fólk svo sómi sé af þegar áföll dynja yfir.“
Grunnbætur eru ekki háar
Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, tók sama mál upp í ræðu á þingi, um viðbrögð stjórnvalda við stöðunni á Reykjanesi, nú á mánudag. „Landsmenn munu líta til þess,“ sagði hún „að við tryggjum lífsviðurværi fólks sem hefur þurft að flýja heimili sín. Andlega og félagslega áfallið er nógu alvarlegt þó að fjárhagslegar áhyggjur bætist ekki ofan á. Vissulega eigum við Atvinnuleysistryggingasjóð, sem hér hefur verið komið inn á, en við vitum það vel að grunnbætur eru ekki háar. Við vitum líka að hámark tekjutengingar atvinnuleysistrygginga er heldur ekki hátt og það varir aðeins í þrjá mánuði. Það er heldur ekki svo að þó að atvinnuleysi mælist lágt í landinu þá geti þúsundir manna gengið í hvaða störf sem er í þessari stöðu eins og ekkert sé.“
Kristrún hvatti, manaði jafnvel, þingið til að taka höndum saman um að tryggja virðingarverða afkomutryggingu fyrir Grindvíkinga: „Það reynir verulega á samtrygginguna okkar á tímum sem þessum,“ sagði Kristrún. „Við fáum hraðsoðna innsýn inn í hvernig sameiginlegu kerfin okkar raunverulega standa. Almannavarnir hafa sýnt styrk sinn á síðustu árum og núna á síðustu dögum sömuleiðis. Ég treysti því, virðulegi forseti, að það verði ráðist í þessa vinnu nú á næstu dögum og vikum til að tryggja virðingarverða afkomutryggingu fyrir Grindvíkinga. Sú vinna mun eflaust vekja okkur til umhugsunar um hvar treysta megi sameiginlegu kerfin okkar fram á veginn fyrir fleiri sem þurfa nú þegar að reiða sig á þau.“