Sjálfstæðisflokkurinn boðar fallna efnahagsstefnu Liz Truss

Óli Björn Kárason, fyrrum þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, boðar í grein í Mogga efnahagsstefnu Liz Truss, sem meira að segja harðkjarna markaðssinnar í Bretlandi höfnuðu. Þetta er grót hörð nýfrjálshyggja sem enginn virðust styðja lengur nema Valhöll á Íslandi. Þar er því enn trúað að minni skattar á hin ríku leiði til almennrar velsældar. Þetta er þvert á reynslu þjóðanna.

Lækkun skatta á hin ríku leiddi alls staðar til minni velsældar á nýfrjálshyggjuárunum og minni hagvaxtar. Þessi efnahagsstefna féll í Hruninu 2008 og afhjúpaðist enn frekar í kórónafaraldrinum, þegar skaðsemin af veikum innviðum kom í ljós, einkavæddum og útvistuðum. En stefnan hangir enn upp sem opinber efnahagsstefna víða, fyrst og fremst vegna þess að stjórnmálaelítan landanna er ófær að móta nýja, enda er elítan víðast kostuð af hinum ríku.

Það kom hins vegar í ljós þegar Lis Truss, fyrrum forsætisráðherra Breta, boðaði miklar skattalækkanir til hinna ríku þrátt fyrir halla á ríkissjóði að þolið gagnvart þessari stefnu er að þverra. Þá reis gervallt breska fjármálakerfið upp og hafnaði þessari stefnu, allt frá lífeyrissjóðum að villtum bröskurum í the City, fjármálahverfi Lundúnarborgar, og höfnuðu þessari stefnu. Fólk vissi sem var að skattalækkanir ofan í halla ríkissjóðs væri uppskrift að verðbólgu og efnahagslegum hörmungum sem myndu auðvitað skaða hin verst settu mest en líka hin skárr settu og best settu til lengri tíma.

Nýfrjálshyggjan náði fram að ganga tímum Thatcher og Reagan þrátt fyrir viðvaranir, en nú er enginn til að verja hana nema últra hægrið í forystu breska Íhaldsflokknum, sem sækir umboð sitt til aldraðs eignafólks sem er einangrað og aflokað, hefur í raun enga reynslu af samfélaginu. Allra síst af lífi og basli venjulegs fólk. Og þessi einangraði hópur fyrirlítur hin fátæku og bjargarlausu. Einangraða efnafólkið sækir sjálfsmynd sína í að auðlegð þess byggt á verðleikum þess sjálfs, ekki á arðráni á öðru fólki. Og þar sem það trúir að það hafi sjálft hafist upp fyrir eigin verðleika trúir það jafnframt að hin fátæku liggi í valnum vegna skorts á verðleikum. Fátækt þess sé sjálfskaparvíti og persónulegur galli, ekki afleiðing af óréttlæti samfélagsins.

En þótt þessi stefna sá fallin, bæði sem hagfræðikenning og siðferðislegur grunnur samfélagssáttmála, þá hefur andlát hennar ekki borist Valhöll. Bjarni Benediktsson lækkaði skatta á hin ríku, fjármagns- og fyrirtækjaeigendur, þrátt fyrir að hann hafi rekið ríkissjóðs með meiri halla en nokkur fjármálaráðherra sögunnar. Og þegar hann féllst á að hækka tekjuskatt fyrirtækja hafði hann þá þegar opnað fyrir endurgreiðslu þessa sama skatts fyrir miklu hærri upphæðir.

Að mati Óla Björns Kárasonar í fyrri grein er vægi skattalækkana Bjarna Benediktssonar frá 2013 um 95 milljarðar króna á þessu ári. Ef Bjarni hefði ekki lækkað skatta ofan í hallareksturinn væri í dag enginn halli á ríkissjóði og mun minni í fyrra, skuldasókn ríkissjóðs hefði verið minni í tíð Bjarna og vaxtagreiðslur í dag því miklu lægri. Ríkið gæti varið þeim fjármunum sem Bjarni beindi í vaxtagreiðslur til gagnlegri hluta. Og áhrif af hallarekstri ríkissjóðs á verðbólguna væru minni, aðhald ríkissjóðs væri meira gegn þenslu og verðbólgu.

Í grein Óla Björns í dag sést hvers vegna Bjarni rak ríkissjóð svona illa. Í Valhöll er því trúað að stefna Liz Truss sé góð, að það sé snjallt að lækka skatta á hin ríku þótt það valdi halla á ríkissjóði. Því er trúað að því minni skattur sem er innheimtur af hinum ríku því blessunarríkara verði líf allra. Ólíkleft er að Óli Björn og Bjarni trúi þessu í reynd, en þeir halda þessu alla vega fram.

Og Óli Björn heldur ýmsu öðru fram í grein sinni sem stenst enga skoðun. Hann skrifar til dæmis: „Sam­kvæmt gagna­grunni Hag­stof­unn­ar hækkuðu skatt­tekj­ur rík­is­ins um 310 millj­arða að raun­v­irði frá 2013 til 2022, miðað við vísi­tölu neyslu­verðs. Með öðrum orðum: Þrátt fyr­ir skatta­lækk­an­ir – þar sem undið hef­ur verið ofan af mörg­um – en ekki öll­um – verstu breyt­ing­um vinstri­stjórn­ar­inn­ar á skatt­kerf­inu – hafa tekj­ur rík­is­ins hækkað hressi­lega.“

Þarna vill hann halda fram að tekjur ríkissjóðs þenjist út og mikilvægt sé að minnka þær enn frekar. Samkvæmt Hagstofu voru tekjur ríkissjóðs 34% af landsframleiðslu 2013 en 32% árið 2022. Þetta er hið eðlilega viðmið, ekki neysluvísitala, því útgjöld ríkissjóðs eru ekki aðeins vörukaup heldur mest launagreiðslur og kostnaður sem eykst við aukið umfrang hagkerfisins. Á verðlagi og veltu þessa árs jafngildir þessi lækkun 83 milljörðum króna. 83 milljarða króna lækkun kynnir Óli Björn sem 310 milljarða króna hækkun, í von um að geta sannfært þann hóp aldraðs efnafólks sem enn les Moggann um að nauðsynlegt sé að lækka skatta á hinum ríku enn frekar.

Til að draga úr eyðileggingaráhrifum efnahagsstefnu sinni, Bjarna og Liz Truss heldur Óli Björn því fram að Sjálfstæðisflokkurinn hafi stóraukið framlög til aldraðra og öryrkja: „Fram­lög til mál­efna aldraðra og ör­yrkja hafa hækkað á tíma Sjálf­stæðis­flokks­ins í rík­is­stjórn um nær 90 millj­arða. Þetta jafn­gild­ir yfir 70% hækk­un.“

Samkvæmt Hagstofunni voru heildarútgjöld til almannatrygginga 161 milljarður króna 2013. Ef við hækkum þetta í takt við fjölgun aldraðra, 67 ára og eldri, og gerum þá ráð fyrir að öryrkjum fjölgi jafn hratt, og tengjum upphæðina við hækkun launa, gerum ráð fyrir að velsæld lífeyrisþega haldist í hendur við velferð launafólks, hefði þessi upphæð átt að vera 407 milljarðar króna árið 2022 en var í reynd 356 milljarðar króna. Kjör aldraða og öryrkja hafa þá fallið um 51 milljarð króna miðað við aðra á sama tíma og Óli Björn vill halda því fram að hagur þeirra hafi batnað um 90 milljarða króna.

Því miður lagði Sjálfstæðisflokkurinn Þjóðhagsstofnun niður undir lok síðustu aldar, en Þjóðhagsstofnun var ætlað að leggja til hlutlausar upplýsingar um hagkerfið og stöðu einstakra hópa sem nota mætti til grundvallar umræðu stjórnmálafólks og annarra um efnahagsmálin. Nú heyra allar opinberar stofnanir sem reiða fram hagtölur beint eða óbeint undir ráðherra. Og upplýsingar þessara stofnana og ráðuneytanna sjálfra eru æ meira litaðar pólitískum hagsmunum ráðherra, sem í tilfelli Bjarna Benediktssonar vill sannfæra íslensku þjóðina um að efnahagsstefna Liz Truss sé góð fyrir Ísland þótt Bretar vilji ekki sjá hana.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí