Skorpulifur af völdum áfengis er áttfalt algengari nú en undir aldamót

Frá því undir aldamót hefur nýgengi skorpulifrar nær þrefaldast á Íslandi frá aldamótum. Nýgengi skorpulifrar af völdum áfengisneyslu á þar stærstan þátt og hefur aukist enn hraðar, eða 0,77 á hverja 100 þúsund íbúa frá 1984 til aldamóta í 6,1 á árunum 2016–2020. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein eftir Sigurð Ólafsson lækni, sem birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins, undir titlinum „Skorpulifur í stórsókn“.

Áfengi, offita, sykursýki og sprautufíkn

Frá því undir aldamót hefur nýgengi skorpulifrar nær þrefaldast á Íslandi, úr 3,3 tilfellum fyrir hverja 100 þúsund íbúa á árunum 1994–2003, í 9,7 á árunum 2010–2015. Í tæpum þriðjungi tilfella taldist áfengisneysla meginorsök skorpulifrar. Sigurður segir nokkrar ástæður liggja að baki þessari fjölgun tilfella og nefnir fyrst af öllu mikla aukningu á áfengisneyslu á Íslandi, eða frá 4,3 lítrum af vínanda á hvern íbúa eldri en 15 ára árið 1980 í 7,5 lítra á árunum 2016–2020.

Næstalgengasta orsök skorpulifrar, meginorsök í rúmum fimmtungi tilfella, er fitulifrarkvilli, skrifar Sigurður. Offita og sykursýki eru helstu áhættuþættir hans og hratt vaxandi vandamál á landinu.

Loks segir Sigurður mikla aukningu á skorpulifur vegna lifrarbólgu C ekki koma á óvart, enda skýrist hún „af faraldri meðal fólks sem sprautar sig með vímuefnum í æð og langs meðgöngutíma frá smiti til skorpulifrar.“ Frá því að meðferðarátak hófst gegn lifrarbólgu C, árið 2016, segir Sigurður að gengið hafi vel að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá: „Á fyrstu þremur árum átaksins náðist að greina og meðhöndla yfir 90% smitaðra.“ Í þeim hópi voru margir greindir með skorpulifur og fengu allir lyfjameðferð. Því hafa, að sögn Sigurðar, afar fáir greinst með skorpulifur af völdum lifrarbólgu C.

24 tilfelli á ári af völdum áfengis

Eftir sem áður aukist nýgengi skorpulifrar enn. Samkvæmt nýlegri rannsókn á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á Íslandi jókst nýgengi skorpulifrar af völdum áfengisneyslu úr 0,77 á 100.000 íbúa frá 1984 til 2000 í 6,1, árin 2016–2020. Sigurður áréttar með upphrópunarmerki: „Það er áttföld aukning!“ Ef tíðnin hefur haldist óbreytt til þessa dags myndi hún jafngilda alls um 24 tilfellum á ári, miðað við íbúafjölda.

Sigurður tekur undir með höfundum rannsóknarinnar sem hann vísar til, sem setja aukna áfengisneyslu í samhengi við greiðara aðgengi að áfengi undanfarin ár. Hann segir að sé horft til lýðheilsuúrræða séu „einkum þrír þættir sem áhrifaríkast er fyrir stjórnvöld að hafa áhrif á til að stemma stigu við áfengisneyslu meðal þjóða“ og telur þá upp: „verðlagning, aðgengi (áfengiskaupaaldur, fjöldi og þéttni sölustaða og afgreiðslutími) og markaðssetning/auglýsingar.“

Greininni lýkur læknirinn á að segja að á Íslandi séu lýðheilsusjónarmið nú látin víkja, hér sé „rekinn áróður fyrir greiðara aðgengi og meira frelsi í áfengissölu“. Alþingismenn leggi „stöðugt fram frumvörp sem miða að því að auka framboð og aðgengi að áfengi“. Hann segir að það kunni að vera „sjónarmið í sjálfu sér að aukið frelsi á þessu sviði sé réttlætanlegt þótt það leiði til aukinnar sjúkdómsbyrði og heilbrigðisútgjalda“ en það þurfi þá að koma skýrt fram.

Grein Sigurðar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí