Frá því undir aldamót hefur nýgengi skorpulifrar nær þrefaldast á Íslandi frá aldamótum. Nýgengi skorpulifrar af völdum áfengisneyslu á þar stærstan þátt og hefur aukist enn hraðar, eða 0,77 á hverja 100 þúsund íbúa frá 1984 til aldamóta í 6,1 á árunum 2016–2020. Þetta kemur fram í ritstjórnargrein eftir Sigurð Ólafsson lækni, sem birtist í nýjasta hefti Læknablaðsins, undir titlinum „Skorpulifur í stórsókn“.
Áfengi, offita, sykursýki og sprautufíkn
Frá því undir aldamót hefur nýgengi skorpulifrar nær þrefaldast á Íslandi, úr 3,3 tilfellum fyrir hverja 100 þúsund íbúa á árunum 1994–2003, í 9,7 á árunum 2010–2015. Í tæpum þriðjungi tilfella taldist áfengisneysla meginorsök skorpulifrar. Sigurður segir nokkrar ástæður liggja að baki þessari fjölgun tilfella og nefnir fyrst af öllu mikla aukningu á áfengisneyslu á Íslandi, eða frá 4,3 lítrum af vínanda á hvern íbúa eldri en 15 ára árið 1980 í 7,5 lítra á árunum 2016–2020.
Næstalgengasta orsök skorpulifrar, meginorsök í rúmum fimmtungi tilfella, er fitulifrarkvilli, skrifar Sigurður. Offita og sykursýki eru helstu áhættuþættir hans og hratt vaxandi vandamál á landinu.
Loks segir Sigurður mikla aukningu á skorpulifur vegna lifrarbólgu C ekki koma á óvart, enda skýrist hún „af faraldri meðal fólks sem sprautar sig með vímuefnum í æð og langs meðgöngutíma frá smiti til skorpulifrar.“ Frá því að meðferðarátak hófst gegn lifrarbólgu C, árið 2016, segir Sigurður að gengið hafi vel að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá: „Á fyrstu þremur árum átaksins náðist að greina og meðhöndla yfir 90% smitaðra.“ Í þeim hópi voru margir greindir með skorpulifur og fengu allir lyfjameðferð. Því hafa, að sögn Sigurðar, afar fáir greinst með skorpulifur af völdum lifrarbólgu C.
24 tilfelli á ári af völdum áfengis
Eftir sem áður aukist nýgengi skorpulifrar enn. Samkvæmt nýlegri rannsókn á áfengistengdum lifrarsjúkdómum á Íslandi jókst nýgengi skorpulifrar af völdum áfengisneyslu úr 0,77 á 100.000 íbúa frá 1984 til 2000 í 6,1, árin 2016–2020. Sigurður áréttar með upphrópunarmerki: „Það er áttföld aukning!“ Ef tíðnin hefur haldist óbreytt til þessa dags myndi hún jafngilda alls um 24 tilfellum á ári, miðað við íbúafjölda.
Sigurður tekur undir með höfundum rannsóknarinnar sem hann vísar til, sem setja aukna áfengisneyslu í samhengi við greiðara aðgengi að áfengi undanfarin ár. Hann segir að sé horft til lýðheilsuúrræða séu „einkum þrír þættir sem áhrifaríkast er fyrir stjórnvöld að hafa áhrif á til að stemma stigu við áfengisneyslu meðal þjóða“ og telur þá upp: „verðlagning, aðgengi (áfengiskaupaaldur, fjöldi og þéttni sölustaða og afgreiðslutími) og markaðssetning/auglýsingar.“
Greininni lýkur læknirinn á að segja að á Íslandi séu lýðheilsusjónarmið nú látin víkja, hér sé „rekinn áróður fyrir greiðara aðgengi og meira frelsi í áfengissölu“. Alþingismenn leggi „stöðugt fram frumvörp sem miða að því að auka framboð og aðgengi að áfengi“. Hann segir að það kunni að vera „sjónarmið í sjálfu sér að aukið frelsi á þessu sviði sé réttlætanlegt þótt það leiði til aukinnar sjúkdómsbyrði og heilbrigðisútgjalda“ en það þurfi þá að koma skýrt fram.