„Í meira en tvö ár hef ég verið að berjast fyrir því að við útlendingar getum lært íslensku á Íslandi. Fyrst beitti ég mér í þágu fullorðinna en núna eru það krakkarnir sem eru mitt hjartans mál. Mig langar stundum að gráta yfir því hvað erlend börn fara í gegnum á Íslandi. Við erum svo sannarlega að bregðast þeim!“
Þetta skrifar Lina Hallberg innan Facebook-hópsins Málspjall en hún segir að það sé þyngra en tárum taki að fylgjast með íslenskukunnáttu bekkjarfélaga sonar hennar. Hann er´i öðrum bekk í grunnskóla en Lina áætlar að 7 af 24 nemendum tali nær enga íslensku.
„Sonur minn er í öðrum bekk. Í lok 1. bekkjar voru þau 19 nemendur, þar af einn strákur sem var nýfluttur til Íslands frá Úkraínu. Eftir sumarfríið mættu 18 nemendur en á fyrstu tveimur vikunum bættust fjórir við hópinn. Í þessari viku byrjuðu aftur tveir nýir nemendur. Núna tala 7 af 24 nemendum, þ.e. 29,16%, næstum enga íslensku og a.m.k. þrír eru tvítyngdir,“ segir Lina og heldur áfram:
„Kennarinn er frábær en ég myndi ekki vilja vera í hennar sporum. Hún hefur aldrei fengið menntun í að kenna íslensku sem annað mál og svo á hún ekki einu sinni heildstætt og faglega unnið aldursmiðað námsefni sem hún gæti gripið í. Það er því miður ekki einsdæmi að margir í bekknum eigi annað mál en íslensku að móðurmáli. Í Fellaskóla í Breiðholti eru t.d. 85% af krökkunum af erlendu bergi brotin.“
Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, tekur undir með Linu og segir stjórnvöld beri ábyrgð á þessu ástandi. „Þetta er skelfilegt ástand. Stjórnvöld lofa aðgerðum en ekkert gerist. Það átti að leggja aðgerðaáætlun fram í mars en því var frestað. Svo átti að leggja hana fram í október en hún er ekki komin enn. Og jafnvel þótt hún komi – og verði samþykkt einhvern tíma í vetur – er ekkert í fjárlögum eða fjármálaáætlun sem bendir til þess að hún verði fjármögnuð,“ skrifar Eiríkur.