Stuðningur stjórnvalda við rannsóknir og þróun tvöfaldaður án skýrra markmiða og eftirlits

Íslensk stjórnvöld tvöfölduðu opinber framlög til rannsóknar- og þróunarstarfs fyrirtækja, úr fjórum milljörðum á ári 2019 í rúma átta milljarða árið 2020. Stuðningurinn skilar sér í aukinni fjárfestingu á sviðinu, segir í nýrri úttekt OECD um efnið, en töluvert skortir á að markmið stjórnvalda séu skýr og eftirlit sé haft með að þeim sé náð. Fjármála- og efnahagsráðuneytið greindi frá úttektinni í fréttatilkynningu sem birtist í dag, fimmtudag.

Í fremstu röð í skattfrádrætti

Árið 2019 nam opinber stuðningur við rannsóknar- og þróunarstarf fyrirtækja rúmum fjórum milljörðum á ári. Ári síðar var sá stuðningur kominn í rúma átta milljarða og árið 2021 nam hann tæpum níu milljörðum. Í samanburði OECD-ríkja er Ísland fyrir vikið í þriðja sæti á lista yfir slík framlög sem hlutfall af landsframleiðslu: aðeins í Frakklandi og Bretlandi veita stjórnvöld fyrirtækjum meiri stuðning til rannsóknar- og þróunarstarfs, og munar raunar nær engu á framlögum Íslands og Frakklands á þeim mælikvarða.

Á sama tíma eru fjárframlög fyrirtækjanna sjálfra til rannsóknar og þróunar miklu lægri, í samanburði við önnur ríki OECD, þar sem Ísland er í 13. sæti.

Viðbragð við Covid

Þessi aukning er nær eingöngu tilkomin með hækkun skattfrádráttar sem stjórnvöld veita fyrirtækjum fyrir slíka starfsemi. Beinir styrkir nema aðeins 17% af útgjöldum hins opinbera til rannsóknar og þróunarstarfs en skattfrádrátturinn 83%.

Aukinn stuðningur til rannsóknar- og þróunarstarfs var hluti af aðgerðum stjórnvalda til að bregðast við efnahagsáhrifum COVID-19 faraldursins. Breytingarnar fólu í sér hækkun á hlutfalli skattfrádráttar, úr 20% í 35% fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, en 25% fyrir stórfyrirtæki. Þá voru efri mörk fjárhæða sem komu til útreiknings á afslættinum hækkuð úr 900 milljón krónum á hvert fyrirtæki árið 2019 í 1.100 milljónir árið 2020.

Fyrirtækin sjálf aftar á lista

Flest fyrirtækjanna sem þiggja þennan opinbera stuðning starfa í þjónustugeiranum. Þar af fer um helmingur til fyrirtækja á sviði upplýsinga og samskipta.

Í lykilniðurstöðum úttektar OECD segir að reglubundið eftirlit með skattfrádrættinum þarfnist bóta. Eins og er sé fyrst og fremst fylgst með ákveðnum þáttum í stjórnsýslu kringum stuðninginn en ekki sé kerfisbundið fylgst með því hvers konar þróunarstarf nýtur góðs af honum eða að áhrifin af styrknum séu í samræmi við markmið, enda skorti á skýra skilgreiningu þeirra. Þá kemur fram að engin árleg skýrsla sé gefin út um tölfræði þessa stuðnings, né hafi stjórnvöld gefið út gögn um dreifingu hans og fjölbreytileika afsláttarþeganna. OECD mælir með því að úr þessu verði bætt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí