„Í Vikulokum talaði fulltrúi Vinstri grænna eins og verðbólguvandinn á Íslandi væri vegna ytri aðstæðna og önnur ríki í Evrópu væru að glíma við það sama. Staðreyndin er sú að íslenskum stjórnvöldum gengur miklu verr að ná niður verðbólgunni heldur en löndunum í kringum okkur. Þessi mynd frá Vilhjálmi Hilmarssyni hagfræðingi BHM lýsir stöðunni vel.“
Þetta skrifar Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, á Facebook. Hann bendir á, líkt og svo margir, að rót verðbólgunnar má finna í húsnæðiskreppunni. „Rót vandans er óstjórn í efnahagsmálum. Þensluhvetjandi ríkisfjármálastefna og vanhugsuð atvinnustefna sem byggir fyrst og fremst á stórtækum innflutningi láglaunavinnuafls samhliða langvarandi stefnuleysi og vanrækslu í húsnæðismálum,“ segir Jóhann Páll.
Hann segir að í raun sé ekki svo flókið að koma böndum á verðbólguna, með velþekktri leið. „Það besta sem stjórnvöld geta gert núna til að stuðla að verðstöðugleika er að auka aðhald á tekjuhlið ríkisfjármálanna með sanngjörnum skattahækkunum á breiðu bökin og efla velferðarkerfið til að liðka fyrir farsælum langtímasamningum á vinnumarkaði.“