BDS Ísland, samtök sem beita sér fyrir allri sniðgöngu gagnvart Ísrael, boða mótmæli við RÚV á morgun klukkan 16. Þá munu samtökin afhenda útvarpsstjóra undirskriftalista með ríflega níu þúsund nöfnum. Þess er krafist að Ísland sniðgangi Eurovision í ár til að mótmæla þátttöku Ísrael.
„Á mánudaginn kl. 16 verður útvarpsstjóra afhentur undirskriftalisti með ríflega 9000 undirskriftum frá fólki sem fer fram á að Ríkisútvarpið beiti sér fyrir því að Ísrael verði vísað úr Eurovision í ljósi þjóðernishreinsana í Palestínu og að Ísland dragi sig úr keppni ef svo verður ekki,“ segir í lýsingu mótmælanna á Facebook.
Samtökin benda svo þeim sem vilja bæta nafni sínu við undirskriftarlistann að það má gera hér.
„Þrátt fyrir þjóðarmorð Ísraels á hendur Palestínu er Ísrael þátttakandi í Eurovision í ár. Rússland var ekki rekið úr Eurovision fyrr en Finnland hótaði að draga sig úr keppni, og önnur lönd fylgdu í kjölfarið. RÚV hefur völdin til þess að þrýsta á stjórn ESB og draga sig úr þátttöku en þau sitja þögul hjá. Hvers vegna er það? Hvar er réttlætið í því? Við skorum á RÚV að gera betur og draga sig úr þátttöku, nema Ísrael verði vísað úr keppni,“ segja samtökin.