Það má segja að innan Facebook-hóps áhugamanna um Eurovision sé algjör samhugur um að sniðganga keppnina í ár. Innan hópsins er bent á að von margra um að Ísrael verði bannað að taka þátt muni nær örugglega ekki rætast. Ástæðan sé einföld, ein stærsti styrktaraðili Eurovision í ár er
ísraelskt fyrirtæki, Moroccan Oil, og því allar líkur á því að siðferði víki svo menn missi ekki spón úr aski sínum.
Hvað er þá til ráða? Jú, nær allir áhugamenn eru á því máli að það verði að sniðganga keppnina í ár. Þrátt fyrir að Eurovision sé bara einu sinni á ári, þá verða menn að bíta í það súra epli. Í nokkuð löngum þræði er ekki einn maður segist vilja taka þátt í Eurovision á sama tíma og Ísrael. „Við eigum að fara fram á að Ísland dragi sig úr keppni verði Ísrael með og fleiri þjóðir gera það vonandi líka. Við getum ekki leyft þeim að stíga á svið þarna eins og ekkert sé!!,“ skrifar ein kona.
Önnur skrifar: „Þá er bara að senda pós á Rúv hvetja þá til að draga sig úr keppni ef barna morðingjar fá að vera með.“ Karl nokkur tekur í sama streng og skrifar: „Nei. Víkjum barnamorðingjum úr keppninni.“ Svo eru margir sem segja að það sé einfaldlega galið að leyfa Ísrael að taka þátt. „Ef rúv ætlar ekki að draga okkur úr keppninni þá vona ég að við sem þjóð getum staðið saman og sniðgengið keppnina og allt kringumstand að öllu leiti. Þetta er GALIÐ,“ skrifar ein kona.
Svo eru sumir sem klóra sér í hausnum yfir þeirri augljósu hræsni að banna Rússum að taka þátt, en ekki Ísrael. „Ég botna bara ekkert í þessu, Rússar út en Ísraelar eru alltaf stikkfrí einhvern veginn,“ skrifar ein kona.