Það hefur stundum verið sagt að límið í ríkisstjórninni hafi verið mikið traust almennings til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra og formanns VG, og þá sérstaklega utan þeirra sem styðja flokk hennar. Nú er það lím þornað upp, ef svo má segja, því aldrei hafa færri borið traust til hennar. Það segir þó sína sögu um óvinsældir ríkisstjórnarinnar að hún er þó sá ráðherra sem flestir segjast treysta.
Þetta kemur fram í nýrri könnun Maskínu en þar kemur fram að um 45 prósent landsmana segjast ekki treysta henni í dag. Um 34 segjast hins vegar treysta henni, þó mismikið. Þessar tölur eru einfaldlega afhroð fyrir stjórnmálamann sem hefur lagt mikla áherslu á að henni sé hægt að treysta og náð að sannfæra flesta.
Erfitt er að verjast þeirri tilhugsun að vantraust almennings á Katrínu megi að nokkrum hluta rekja til vals hennar á samstarfsfólki, því erfitt er að finna hóp af fólki sem almenningur treystir minna með fimm krónur milli húsa, en ráðherra í ríkisstjórn hennar. Þar dregur svo lestina Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, en einungis tveir stjórnmálamenn hafa mælst með minna traust en hann frá því að mælingar hófust.
Svo fáir treysta Bjarna að ekki verður betur séð en að stór hluti Sjálfstæðismanna eigi það sameiginlegt með almenningi. Um 75 prósent svarenda bera lítið traust til Bjarna Benediktssonar vegna starfa hans í utanríkisráðuneytinu. Aðeins um sautján prósent bera mikið traust til hans. Sjálftæðisflokkurinn mælist yfirleitt með um 20 prósent fylgi nú, svo það má segja að enginn utan flokksins treysti Bjarna. Og almargir innan flokksins einnig.