„Brostu, það kostar ekkert“ var nokkuð algengt viðkvæði í samskiptum fólks um aldamót. Hvað sem olli vinsældum þessara fyrirmæla, þá er þar augljóslega farið með fleipur. Það getur kostað töluvert að brosa.
Í Viðskiptablaðinu hefur nýlega verið nokkuð fjallað um þann hagnað sem til verður meðal lækna og þó einkum tannlækna, sem eru annars vegar í einkarekstri en njóta hins vegar opinbers stuðnings við þann rekstur. Sá opinberi stuðningur er ekki síst fólginn í fjöldatakmörkunum inn í fögin, sem viðheldur viðvarandi skorti í báðum starfsstéttum. Undir nafnleysi skrifar ritstjórnarmeðlimur Viðskiptablaðsins: „Í krafti stöðu sinnar hafa læknar og tannlæknar um áratugaskeið verndað sjálfa sig persónulega með því að takmarka fjölda þeirra sem bæði getað menntað sig í viðkomandi sérgrein, og ekki síður þá sem koma erlendis frá og sækja um læknaleyfi.“
Í pistlinum er vísað í skrif sem birtust í sama miðli tveimur árum fyrr, þar sem kom fram að fjöldi nemenda sem leyft er að hefja nám við tannlæknadeild Háskóla Íslands hefur verið óbreyttur frá árinu 1983, eða átta á ári. Á sama tíma hafi íbúum landsins fjölga úr 235 þúsund í 369 þúsund – rétt tala í dag væri 400 þúsund, sem er 70% fjölgun íbúa.
Fleiri íbúar eru þannig á hvern tannlækni hér á landi en í Danmörku, Noregi og Svíþjóð. Í pistli Viðskiptablaðsins er sagt að tugi tannlækna vanti nú á markaðinn. „Þeir sem njóta góðs af því eru starfandi tannlæknar sem græða gríðarlegar í skjóli skortsins, sem stéttin bjó sjálf til innan ríkisrekna háskólans.“ Þar er nefnt dæmi um Brosið Heilsuklíník, tannlæknastofu þriggja tannlækna, sem á síðasta ári hafi hagnast um 101 milljón króna. Velta félaganna fæst ekki uppgefin, segir þar. Tannlæknar stofunnar eru þrír. Hagnaður hvers þeirra, til viðbótar við laun, er samkvæmt því 33 milljónir króna á árinu eða 2,75 milljónir á mánuði.
Í pistlinum er spurt hvernig tannlæknarnir fari að þessu og svarað: „Það er mánaða bið eftir tannlæknaþjónustu og samkeppnin engin. Tannlæknar þurfa því ekki að keppa um verð og gæði.“
„Þetta er algjörlega óþolandi pilsfaldakapítalismi,“ segir loks í pistlinum. „Hann er bæði vondur fyrir skattgreiðendur, sem greiða tannlækningar barna, og neytendur.“