„Að hafa „fíkn“ í hitt og þetta er næsti bær við að langa óskaplega í eitt og annað. Að vera að fást við fíknir er hluti af mannlegu eðli og spannar ansi stórt svið í tilveru okkar og við erum að tala um td. Matarfíkn, kynlífsfíkn, spilafíkn, skjáfíkn og fíkn í hin og þessi efni sem breyta hugarástandi okkar eins og áfengi, nikótín, alls kyns meðöl frá lækninum og svo stöff sem kemur frá móður jörð og ekki skulum við gleyma sykrinum og svo þessu magnaða fyrirbæri sem er valdfíkn og svo fleira og fleira en öll fíkn er hugbreytandi.“
Þetta skrifar listamaðurinn Tolli Morthens á Facebook en tilefnið er nýleg rannsókn en niðurstaða hennar var að margir Íslendingar kærðu sig ekki að búa nálægt þeim sem eiga við fíknivanda að stríða. Tolli bendir réttilega á að þá sé fokið í flest skjól, þar sem nær allir Íslendingar eiga við einhvers konar fíknivanda að stríða.
„Nú liggur fyrir rannsókn sem bendir til þess að við Íslendingar viljum alls ekki vera í nábýli við fólk með fíknivanda. Það var ó, ég held að sá sem ekki vill búa nálægt fólki með fíknivanda hafi ekki í mörg hús að venda jafnvel þótt viðkomandi velji að að búa einn fjarri öðrum. Þessi rannsókn sýnir okkur fyrst og fremst mikla fáfræði um eðli „fíknar“ og hve orðræðan um þetta hjá okkur er á mikilli villigötu,“ segir Tolli.
Hann segir einungis eina lausn við þessum vanda og hún snúist minnst um fíklana sjálfa. „„Fíkn“ er samofin inn í huga og líkama okkar og um leið tvinnuð inn í menningu okkar og samfélag. Við þurfum upplýsta umræðu um þetta fyrirbrigði sem tekur út skömmina og dómhörkuna og sýnir okkur að fíkn og fíknisjúkdómar fylgja tengslum og tengslarofi í mannlegri tilveru og þar er ábyrgðin okkar allra,“ segir Tolli.