Þó að stjórn KFUM og KFUK hafi ályktað að það væri hafið yfir skynsamlegan vafa að séra Friðrik Friðriksson, stofnandi samtakanna, hafi áreitt drengi kynferðislega, þá eru sumir sem telja að afhjúpun Guðmundar Magnússonar sagnfræðings sé einhvers konar samsæri. KFUM og KFUk hafa beðið þolendur afsökunar og Reykjavíkurborg hefur fjarlægt styttuna af séra Friðriki. Sú ákvörðun var ekki umdeild í borgarstjórn.
Þrátt fyrir þetta er hópur sem telur að séra Friðrik hefði átt að fá að vera áfram við Lækjargötuna, sá hópur telur til að mynda Sigmund Davíð Gunnlaugsson, formann Miðflokksins. En Stefán Pálsson, sagnfræðingur og varaborgarfulltrúi VG, bendir á að séra Friðrik sé líklega meðal þeirra minnst þekktu sem stytta sé af í Reykjavík.
„Ég sé hjá stöku manni á samfélagsmiðlum örla á þeirri hugmynd að það hafi verið e-ð samsæri um að „taka niður“ séra Friðrik Friðriksson. Veiki hlekkurinn í þeirri samsæriskenningu er sá að séra Friðrik var flestum gleymdur áður en Guðmundur Magnússon (sem verður nú seint talinn róttækur libbi) ákvað að setja saman um hann bók. Ætli hann og Þorfinnur karlsefni hafi ekki deilt titlinum sem minnst þekktu einstaklingarnir af styttum bæjarins? ,“ segir Stefán á Facebook.
Hann bendir enn fremur á að enginn skrifi ævisögu á Íslandi nema hafa einlægan áhuga á viðkomandi. „Augljóslega ræðst enginn í að semja ævisögu á Íslandi án þess að vera drifinn áfram af aðdáun eða virðingu fyrir þeim sem fjallað er um og vilja til að lyfta viðkomandi í sögunni. Stærð markaðarins býður ekki upp á að skrifa slíkar sögur af öðrum hvötum. Þeir sem trúa því í alvörunni að „aðförin að séra Friðriki“ sé sprottin af illum hug vondra manna verða fyrst að útskýra hvað í ósköpunum nokkur ætti að telja sig græða á að sverta minningu hans.“