Ásgerður Ósk Pétursdóttir, sem tók sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans fyrr á þessu ári, segir að gagnrýni á stýrivexti bankans feli oft í sér „forsendur og ályktanir sem eigi sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum“. Sú fimm manna nefnd ákveður stýrivexti Seðlabankans. Ekki er langt síðan hún vildi hækka vextina enn meira en var þó í minnihluta með þá skoðun.
Ásgerður Ósk kallar eftir því í viðtali við Viðskiptablaðið að fjölmiðlar hætti að vitna í þá sem tali fyrir óhefðbundnum aðferðum í hagfræði. Í það minnsta vill hún meira aðhald hjá fjölmiðlum þegar gagnrýni á Seðlabankann sé „farin að fela í sér forsendur og ályktanir sem eigi sér litla eða enga stoð í raunveruleikanum“.
Það eigi ekki við um stýrivexti, þeir einfaldlega svínvirki. „Það er svolítið sérstakt þegar umræðan er orðin á þá leið að vaxtahækkanir séu ekkert að virka en næsta setning er síðan um hversu fast þeir séu farnir að bíta og hversu erfitt ástandið sé orðið. Eitthvað hljóta þeir þá að virka fyrst svo er,“ segir Ásgerður Ósk. Með öðrum orðum þá er það ekki slys að gífurlega háir stýrivextir á Íslandi séu að fara illa með marga fjárhagslega. Það er markmiðið.
„Það væri til mikils að vinna ef fólk gæti hugsað þetta meira út frá því hver er tilgangurinn með vaxtahækkunum. Þetta snýst auðvitað um að ná og viðhalda jafnvægi í hagkerfinu, sem birtist okkur hvað best í formi verðstöðugleika. Ef við myndum ekki gera það þá er ljóst að staðan yrði ennþá verri til lengri tíma litið. Það væri óskandi að sá vinkill fengi aðeins meira pláss í umræðunni stundum,“ segir Ásgerður.
Ásgerður Ósk stendur lengst til vinstri á myndinni hér fyrir ofan.