Í dag hefur fátt annað verið rætt en versnandi lesskilning barna á Íslandi, samkvæmt nýrri Pisa-könnun. Minna hefur þó verið rætt nokkuð sem Íslendingar ættu að hafa ekki minni áhyggjur af, börn á Íslandi eru með óvenjulitla samkennd með öðrum. Oft er talað um að helsta einkenni siðblindu sé skortur á samkennd, svo það er ekki hægt að segja að sú niðurstaða boði gott fyrir þjóðina.
Ofan á þetta bætist að íslensk börn hafa lítinn áhuga á því að starfa með öðrum og mælast illa hvað varðar samvinnu. Til að bæta gráu ofan á svart, þá eru tveir eiginleikar sem eru áberandi algengari hjá íslenskum börnum: þrautseigja og streituþol. Þetta eru jákvæðir eiginleikar en fara kannski ekki vel saman með skort á samkennd. Það verður seint sagt um marga helstu skúrka og ribbalda mannkynssögunnar að þeim hafi skort þrautseigju eða verið þjakaðir af stressi.
Rétt er að taka fram að þetta er allt í samhengi við hvernig börn eru í öðrum löndum OECD. Það þýðir að ekki er hægt að benda á að þetta sé afleiðing af einhverju sem öll löndin eiga sameiginlegt. Þannig hefur til dæmis oft verið gefið í skyn að mikil notkun á tölvu eða jafnvel tölvuleikjum valdi siðleysi meðal barna. Börn í öllum löndum OECD eiga það þó sameiginlegt svo það getur ekki verið skýringin á því að íslensk börn hafa litla samkennd. Skortur á samkennd meðal íslenskra barna hlýtur að vera afleiðing af sér-íslenskum aðstæðum.
Í samantekt á niðurstöðum PISA hvað varðar Ísland er nánar útskýrt hvað sé átt við með þessum skilgreiningum. Þar segir: „Nemendur á Íslandi skoruðu hins vegar lægra en nemendur OECD-ríkja að jafnaði á mælikvörðum um samkennd og samvinnu. Samkennd er meðal annars mæld með spurningum um hversu auðvelt nemendur eigi með að setja sig í spor annarra eða finna til með öðrum. Nemendur sem skora lágt á spurningum um samvinnu gætu átt erfiðara með að vinna í hóp með öðrum og ólíklegri til að kjósa það.“
Á hinn bóginn þá er jákvæðu eiginleikunum lýst svo: „Þrautseigja eins og hún er mæld í þessu samhengi þýðir að gefast ekki auðveldlega upp og einbeita sér að verkefnum þar til þeim er lokið en gott streituþol felst meðal annars í því að halda ró sinni undir álagi.“ Eru börn á Íslandi með öðrum orðum þeim kostum gædd að vera einbeittir einfarar sem kæra sig kollótt um hvort næsti maður lifir eða deyr? Ekkert að stressa sig á því? Ef svo þá er það mögulega stærra vandamál fyrir íslenskt samfélag en skortur á lesskilningi. Svo er ekki útilokað að þetta sé í raun sami vandinn og eitt valdi öðru.
Myndin er af leikaranum Macaulay Culkin úr kvikmyndinni Fanturinn frá 1993. Þar lék hann siðlaust barn.