Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptaráðherra ákvað í dag að kveðja sér hljóðs varðandi helsta deiluefni á Íslandi í dag um þessar mundir, hvort þjóðin sniðgangi Eurovision til að mótmæla þátttöku þjóðar sem fremur þjóðarmorð, Ísrael. Vafalaust hafa þó margir klórað sér í hausnum yfir því sem Lilja vildi koma á framfæri. Í viðtali við RÚV sagði hún að best væri ef utanríkisráðherra tæki lokaákvörðun um hvort Íslendingur syngi í Stokkhólmi í vor.
Það yrði þá Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sem myndi ráða þessu. Rök hennar fyrir því að utanríkisráðherra frekar en menningarmálaráðherra tæki þessa ákvörðun eru skiljanleg, að þetta deilumál sé fyrst og fremst utanríkismál. En ef horft er til þess hvað sé líklegasta leiðin til að draga úr úlfúð og ná sátt, þá er þessi leið, að leyfa Bjarna að ráða, augljóslega arfaslæm.
Eftir að Bjarni tók við sem utanríkisráðherra héldu margir að þá myndi nú hneykslismálunum fækka. Almennt og sérstaklega í sinni tíð hefur utanríkisráðuneytið þótt gott til að sitja á friðarstól. Enda taka utanríkisráðherrar sjaldan umdeildar ákvarðanir, fyrir utan að vísu nokkur stór frávik, og eru yfirleitt í fréttum að tala fyrir einhverju jákvæðu sem allir eru sammála um. En svo á ekki við um Bjarna. Á örstuttum tíma hefur Bjarna tekist að vera meðal umdeildari utanríkisráðherra í manna minnum.
Óháð því hvort menn styðja Ísrael eða Palestínu þá verður seint sagt að Bjarni hafi sýnt sig góðan í refskák sem utanríkisráðherra. Það verður einfaldlega að segjast að hann hefur frekar klúðrað hlutum og valdið deilum. Besta dæmið er vafalaust þegar hann hafði ekki Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra nægilega vel með í ráðum vegna atkvæðagreiðslu í Sameinuðu þjóðunum. Það skilaði honum engu nema neikvæðu umtali, óþarfa núningi við meinta samstarfsmenn.og örlítið verri niðurstöðu úr næstu skoðanakönnun.