Óánægja er meðal eldri borgara eftir gjaldskrárhækkun sem þýðir að ókeypis skíðaiðkun á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins er úr sögunni fyrir hóp sem hefði mikið gagn af útivist og hreyfingu.
67 ára og eldri hafa fram til þessa fengið frítt í lyftur í Bláfjöllum og víðar á skíðasvæðum höfuðborgarsvæðisins. Eftirleiðis verða þeir rukkaðir um rúmar 36.000 krónur fyrir vetrarkort. Í Morgunblaðinu í dag er haft eftir formanni félags eldri borgara í Reykjavík, Ingibjörgu H. Sverrisdóttur, að langstærstur hluti fólks á lífeyri búi við knappan fjárhag. Hún gagnrýnir að engin umræða hafi farið fram um málið í öldungaráði Reykjavíkurborgar.
Hrina gjaldhækkana á ýmiss konar þjónustu og vöru um áramót hefur komið illa við landsmenn. Má nefna að sorphirðugjöld stefna í sligandi kostnað. Þetta hamlar gegn verðbólgumarkmiðum og gæti stefnt kjarasamningum í hættu. Á sama tíma snýst meginþorri pólitískrar umræðu um forsetaframboð.
Ýmsar kannanir hafa sýnt lakari heilsu öldunga, aukna félagslega einangrun, alkóhólisma sem vaxandi mein og rýrnandi vöðvamassa sem leiðir til skertrar hreyfigetu. Því er útivist og hreyfing hópi eldri borgara mikilvæg. Myndatexti: Útivist að vetri getur vegið þungt í bættri lýðheilsu eldri borgara og sætir gjaldhækkun á skíðasvæði gagnrýni.