Ríkisstjórnin er orðin svo völt í sessi að úrskurður Umboðsmanns Alþingis að Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra hafi brotið lög með hvalveiðibanninu gæti liðað stjórnina í sundur.
Grunnt hefur verið á því góða í stjórnarsamstarfinu milli sjálfstæðismanna og Svandísar. Áður en álit umboðsmanns var kynnt höfðu sumir sjálfstæðismenn farið fram á afsögn hennar sem ráðherra.
Eiríkur Bergmann stjórnmálafræðiprófessor segir um tíðindi dagsins:
„Það blasir við að óþol innan ríkisstjórnarinnar hefur aukist mjög. Ekki síst í baklandi flokkanna og forystumennirnir eru líka smátt og smátt að missa trú á að stjórnasamstarfið haldi. Það þarf því minna en að jafnaði til að samstarfið liðist í sundur. Þúfan sem veltir hlassinu þarf ekki að vera stór,“ segir Eiríkur í samtali við Samstöðina.
Hann segir augljóst að stjórnin muni ekki koma mörgum málum í gegn úr því sem komið er.
„Hún er verulega völt í sessi og þetta mál hjálpar ekki.“