Mikil átök eru um ráðstöfun á orku og heitu vatni. Eitt álitaefni er réttmæti nýtingar á grænni orku til umdeildrar eða mengandi starfsemi svo sem ál- og gagnavera.
Almenningur gæti hugsað að þessi mál varði hann ekki með beinum hætti en eitt helsta einkennistákn alþýðumannsins, íslensku útisundlaugarnar, gætu þó verið í hættu vegna vaxandi samkeppni um jarðhita. Rætt er um að byggja yfir þær.
Ómar Ragnarsson fréttamaður og náttúruverndarsinni benti iðulega á að hitinn í geyminum undir Íslandi væri ekki óþrjótandi. Nú setja fleiri og fleiri spurningarmerki við baðlónin sem sprottið hafa upp eins og gorkúlur víða um land. Fornfrægar almenningslaugar gætu einnig verið í hættu.
Þannig segir Jóhann Friðrik Kristjánsson verkfræðingur í færslu á facebook að aðeins tvö til þrjú háhitasvæði á Íslandi bjóði upp á næga orku til að hita upp útilaugar eða baðlón um ófyrirsjáanlega framtíð.
„Flestar sundlaugar á landinu eru skelfilega orkusóandi og þar með ósjálfbærar,“ skrifar Jóhann. Hann telur stutt í að allar laugar í Reykjavík þurfi að byggja yfir til að minnka orkutap.
Um einn helsta vaxtasprota ferðaþjónustunnar, baðlónin, segir Jóhann:
„Þegar maður sér fleiri og fleiri hugmyndir um útibaðlón þá vaknar spurningin hvort ráðgjafar séu fullkomlega úti á túni.“
Jóhann bendir á að vaxandi vandræði séu hjá hitaveitum víða um land og sem dæmi um baðlón eða sundlaugar sem hafi ekki nægt vatn eftir 2-3 áratugi nefnir hann Sjóböðin á Húsavík, sundlaug Húsavíkur, hin nýju Skógarböð á Akureyri, Sundlaug Akureyrar, Vök böð og Fontana vegna vaxandi íbúafjölgunar.
„Jarðhiti er ekki óþrjótandi á óvirkum svæðum,“ segir Jóhann.