Þórhildur Sunna Ævarsdóttir, þingmaður pírata, spurði Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra hvort Katrín væri stolt af ákvörðun Bjarna Benediktssonar utanríkisráðherra að frysta greiðslur frá Íslandi til mannúðarhjálpar á Gaza.
Þórhildur vildi vita hvar Katrín stæði. Hvort forsætisráðherra væri stolt af utanríkisstefnu þjóðarinnar.
Katrín færðist undan að svara spurningunum. Meðal annars sagði hún mikilvægt að leita svara við ásökunum sem fram hefðu komið.
Þórhildur sagði í seinni ræðu sinni að svör forsætisráðherra bentu til þess að hún gerði enga athugasemd við ákvörðun Bjarna. Það vakti furðu þingmannsins á sama tíma og Alþjóðadómstóllinn í Haag segði auknar líkur á að verið væri að fremja þjóðarmorð á Palestínumönnum.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, Miðflokki spurði Katrínu hvort Bjarni Benediktsson hefði upplýst hana áður en Bjarni greindi opinberlega frá því að hann hefði ákveðið að frysta greiðslurnar.
„Svo var ekki,“ svaraði Katrín.