Ég hringi á bjöllu í stórri blokk og er hleypt inn. Þar tekur á móti mér Björn Grétar sem bíður mér sæti við eldhúsborðið en kona hans hellir mér kaffi í bolla og bíður upp á hraun- og æðibita sem ég gæði mér á. Íbúðin er hlýleg og alþýðleg með góðri stofu með flottu útsýni og litlum eldhúskrók. Við tölum um námið mitt og störf mín en viðtalið er hluti af BA ritgerð minni í stjórnmálafræði þar sem fjallað er um stefnu verkalýðshreyfingarinnar og hvort samráðskerfi sé orðið normið á kostnað átaka. En svo kveiki ég á upptöku á símanum og við byrjum.
Björn Grétar Sveinsson var mjög ungur þegar hann kynntist verkalýðshreyfingunni í gegnum móður sína sem var róttæk kona og í stjórn Verkakvennafélagsins Framtíðar á Eskifirði en hann vandi komur sínar með henni á fundi félagsins. Hann er fæddur árið 1944 og ólst upp á Eskifirði ásamt móður sinni og stjúpföður. Í viðtali við Þjóðlíf árið 1988 segir Björn frá sjálfum sér og sínum uppruna en foreldar hans voru verkafólk í litlu bæjarfélagi en hins vegar hafi verið mikið um broddborgara þar og að móðir hans hafi hvatt hann eindregið áfram í að láta hvergi undan síga í samkeppni við börn broddborgaranna. „Það var gífurlegur metnaður í henni, gömlu konunni fyrir okkar hönd og þessi metnaður var stéttarlegs eðlis.“
Hann var svo viðloðinn vinstri pólitík og tengdist á þann hátt inn í verkalýðsmálin á Eskifirði. Hann sótti fundi hjá Sósíalistafélaginu á Eskifirði og fór þaðan inn í Alþýðubandalagið en hann segir að vinstrihreyfingin hafi verið með ansi mikil völd á verkalýðsfélaginu þar í bæ: „Við vorum með ansi mikil völd þarna á verkalýðshreyfingunni og gekk ágætlega í sveitastjórnarmálum þarna. Ég fór inn í sveitastjórn frekar ungur fyrir Alþýðubandalagið Við skiptum okkur af verkalýðshreyfingunni. Við litum á það sem okkar hlutverk. Það var rosalega gaman.“ Björn var kosinn tvívegis í sveitastjórn á Eskifirði á árunum 1970-1974 og bætti við: „Ég man eftir fundi þar sem var verið að breyta í verkalýðsfélaginu og við í Alþýðubandalaginu skiptum með okkur verkefnum. Ég stakk upp á formanninum sem var að sjálfsögðu kosinn. Það var auðvitað nauðsynlegt að hann væri réttu megin í pólitíkinni eins og sagt er.“ Alþýðubandalagið var nokkuð stórt á Eskifirði en á þessum árum var flokkurinn iðulega með svipað mörg atkvæði og Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn og tvo menn kjörna.
Ljúfa lífið á Hornafirði
Björn kláraði ekki síðara kjörtímabilið á Eskifirði þar sem hann flutti til Vestmannaeyja í veisluna sem þar var eftir eldgosið 1974. Þar bjó hann í stuttan tíma en var þó virkur í trésmíðadeildinni í verkalýðsfélaginu í Eyjum á þeim tíma sem hann var þar en hann starfaði sem húsasmiður. Að loknu gosævintýri í Vestmannaeyjum hélt hann ásamt fjölskyldunni sinni til Hafnar á Hornafirði en það fannst honum skemmtilegt skref á lífsleiðinni. Á Hornafirði var gott að vera: „Þetta var gott sveitarfélag og gaman að starfa þar. Gott fyrirkomulag. Þarna var meðal annars öflugt kaupfélag sem var eins og kaupfélög eiga að vera. Þú sem Alþýðubandalagsmaður eða kommi, þú varst ekkert látinn gjalda þess.“ Hann var kosinn sem endurskoðandi reikninga hjá kaupfélaginu og honum fannst þetta vera heilbrigður rekstur en ekki þessi framsóknarpólitíski rekstur þar sem enginn annar komst að.
Það er ljóst að Björn Grétar var mjög virkur í félagsmálum en á þessum tíma hafði hann setið í sveitastjórn og verið virkur í verkalýðshreyfingu og kaupfélagi. Og þá var komið að því að stofna stjórnmálaflokk. „Við bjuggum til stjórnmálaflokk þarna á Höfn, sem hét Krían. Við fengum mjög góða kosningu og Krían var til í mörg ár á eftir. Þetta var svona sameiginleg kreðsa þar sem Kvennalistinn og Alþýðubandalagið voru svona saman en voru samt ekkert að líma sig við eitthvað eitt.“ Krían var samtök óháðra og félagshyggjufólks sem var starfrækt frá 1990 allt til ársins 2006 en Björn Grétar var varabæjarfulltrúi fyrir framboðið á fyrsta kjörtímabili þess ásamt því að vera varaþingmaður fyrir Alþýðubandalagið á árunum 1987-1991.
Verkalýðsfélagið Jökull var starfrækt á Höfn en skorað var á Björn að fara í framboð til formanns félagsins en hann hafði þá verið varaformaður þess. „Formaðurinn, sá ágæti maður Sigurður Hannesson, var búinn að tala um að hætta en þá var ég varaformaður félagsins og formaður iðnaðarmannadeildarinnar. En svo hætti hann við að hætta en það var þrýst á mig að hætta ekki við að bjóða mig fram. Úr þessu varð bara heilbrigð kosning og listakosningar og ég veit ekki hvað og hvað.“ Baldur Kristjánsson sem stofnaði með Birni tímaritið Eystraholt ásamt tíu öðrum köllum sagði honum að hann gæti ekkert unnið þetta, að Björn ætti engar ættir þarna: „Sem var alveg rétt. Ég átti andskotann engar ættir þarna. Bara smotterí. Nokkrar frænkur og frændur. En Sigurður var innfæddur með ættir út í sveitir þarna. En ég vann!“ Björn Grétar og félagar fóru undir slagorðinu að koma Verkalýðsfélaginu Jökli á kortið og vera áberandi. Félagið á Höfn var blandað félag með sjómannadeild, iðnaðarmannadeild og almennadeild en verslunarmenn komu svo síðar inn í félagið. Að sögn Björns var mikið líf í félaginu en mikil vinna var á Höfn. Vertíð á eftir vertíð. Hann notaði tímann, í hádeginu þegar það var lokað og á kvöldin til þess að heimsækja vinnustaði og reka félagið eins og hann vildi sjá verkalýðsfélag vera rekið að vera sýnilegur og vera í miklu sambandi við félagsmenn. „Maður fór á vinnustaði þegar það var lokað í hádeginu og svo á kvöldin, það var mikið líf þarna, unnið fram á kvöld, mikil síld þarna. Vertíð eftir vertíð. Þar fengu krakkar að fara að vinna árið sem þeir fermdust. Þetta voru endalausar vertíðar. Brjálað að gera og alveg ofboðslega skemmtilegt tímabil. Félagið var komið á kortið með einmitt þessum sýnileika. Ég sagði að gamni mínu að verkalýðsfélagið á svona stað ætti að skipta sér að öllu, nema kannski ekki sóknarnefndinni. EN kannski er nauðsynlegt að skipta sér að henni líka!“ bætir hann við hlægjandi en ljóst er að hann minnist tímans á Höfn í Hornafirði með hlýju og gleði.
Þátttaka almennra félagsmanna skiptir öllu máli að mati Björns þó aldrei náist full þátttaka en það fer eftir efninu. Hann og hans félagar hjá Jökli héldu allt frá námskeiði í jólakransagerð þar sem var fullt hús yfir í fund um lífeyrismál þar sem mættu innan við fimm. „Við fórum í það hjá Jökli á Hornafirði að halda námskeið í öllum andskotanum, meira að segja í því að búa til jólakransa. Þetta var mjög gaman. Þegar við vorum að úthluta orlofshúsunum þá var það gert á opnum fundi. Allt opið. Auðvitað getur einstaka málefni verið mjög spennandi, að mér fannst, eins og við héldum fundi um lífeyrismál og fengum forstjóra lífeyrissjóðsins á Austurlandi en fundargestir voru færri en fingurnir á annarri hendi. Lélegast fundur sem ég hef haldið! Við héldum rosalega flott námskeið um ferðaþjónustuna á Austurlandi. Alveg rosalega skemmtilegt. Það var búið til alveg sérstaklega fyrir okkur.”
Það voru ekki endilega mistök að fara inn í Verkamannasambandið
Björn Grétar var formaður í átta ár á milli 1985 til 1993 en þá hafði hann verið áberandi í málefnum verkalýðshreyfingarinnar og svo var komið að Guðmundur Jaki, formaður Dagsbrúnar og Verkamannasambands Íslands hafði samband við hann um taka við Verkamannasambandinu af sér þar sem Guðmundur hafði hug á að eyða síðustu starfsárunum við að sinna sínu félagi, Dagsbrún með besta móti. „Ég var svo kominn inn í Verkamannasambandið að því leytinu til að ég sat í framkvæmdastjórn þar sem félagið á Höfn var mjög áberandi. Mikið í fjölmiðlum, ekkert ólíkt því sem félagið á Akranesi er í dag eða Sólveig Anna. Við Guðmundur Jaki þekktumst mjög vel og við náðum bara mjög vel saman og hann kallar einhvertíma á mig upp á skrifstofu hjá VMSÍ og sagði þar við mig hvort það væri ekki kominn tími til þess að nýta mig meira inn í hreyfingunni með að færa mig suður.“ Björn Grétar spurði Guðmund þá hvort þetta væri ekki röng goggunarröð, hann kæmi frá litlu félagi úti á landi, af hverju setti hann ekki varaformanninn sinn í þetta? Þá sagði Guðmundur varaformann sinn vera svo helvíti hégómagjarnan.
En þarna var hann kominn inn í Verkamannasambandið, inn í klíkuna en að sögn Björns þá var mikið um flokkadrætti þar innandyra og talsvert um átök. Hann segir sögu af því þegar Guðmundur Jaki, hans góði vinur, var settur af sem formaður Dagsbrúnar. Þá hafi góðir menn í Dagsbrún farið heim til hans og sagt honum að hann væri búinn að vera nógu lengi og sögðu honum að uppstillingarnefnd myndi stinga upp á Halldóri Björnssyni sem formanni þó svo að Guðmundur hafi ekkert ætlað að hætta. Og við því segir Björn því verr og miður enda hafi Guðmundur verið einn af hans helstu bandamönnum í hreyfingunni. „Þá fer ég fljótt að finna fyrir því, að Halldór (Björnsson) lætur til skarar stríða þar sem hans skoðun var að þessi maður frá litla félaginu á Hornafirði ætti ekkert að vera í embætti forseta Verkamannasambandsins, það ætti að vera formaður Dagsbrúnar. Þannig ég var bara tekinn úr sambandi í lokin.“ Í frétt Morgunblaðsins frá 1 júní 2000 er sagt frá því að starfslokasamningur hafi verið gerður við Björn Grétar en um þetta leyti stóðu yfir viðræður um sameiningu sérsambanda ófaglærðs verkafólks, Verkamannasambands Íslands, Landssambands iðnverkafólks og Þjónustusambandsins í eitt samband. Í sömu frétt Morgunblaðsins kemur fram að aðilar tengdum Flóabandalaginu sem voru á þessum tíma bandalag Eflingar, Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis og Verkalýðsfélagsins Hlífar hafi komið þeim skilaboðum áleiðis til Björns að þörf væri á að hann viki til þess að koma á þessum breytingum. Þarna hafði Björn Grétar verið frá í töluverðan tíma vegna veikinda og meðal annars legið á sjúkrahúsi. „Það var bara einfaldlega þannig að það kom til mín maður með þau skilaboð frá hinum, að ég ætti að hætta. Það var stjórnin og Flóabandalagið svokallaða sem raunverulega klauf sig frá restinni af Verkamannasambandinu. Það eru einhver mestu skemmdarverk sem ég hef séð, að kljúfa sig svona út.” Hann er þó ekki á því að það hafi verið mistök hjá honum að fara inn í Verkamannasambandið en þar hafi hann verið farinn að eiga við allt aðra og leiðinlegri hluti. Í staðinn fyrir að eiga í samskiptum við almennt félagsfólk þá hafi hann þurft að vera að sinna formönnum hjá Verkamannasambandinu og einhverju miðstjórnarfólki hjá ASÍ. Hann hafi setið marga árangurslitla, tilgangslitla og leiðinlega fundi í miðstjórn Alþýðusambandsins. En svo var hann bara látinn hætta. „Ég reiddist rosalega þegar ég var settur út hjá Verkamannasambandinu. Þeir komu bara með starfslokasamning. Ágætis samning, það var ekki það. Það fauk svo í mig vegna þess að ég átti ekki von á þessu á þessum tímapunkti. Ég var svo sem byrjaður að hugsa um hvenær maður myndi hætta þar sem það var auðvitað komin bara allt önnur sýn á þetta eins og hjá Dagsbrún. Svo ég sletti fram í reiði og sagði bara við þá að ef þeir vildu losna við mig þá þyrftu þeir að borga mér í lengri tíma.” Þá hljóp boðberinn yfir í næsta hús, til Eflingar og kom til baka nokkrum mínútum síðar þar sem kröfu Björns var tekið en hann hafi gert það sem skilyrði að hann myndi ekki mæta á næsta þing Verkamannasambandsins. „Ég treysti mér bara ekki til að mæta, ég játa það. Þetta er viðkvæmt. Ég var búinn að vera í þessu af lífi og sál, dag og nótt öll þessi ár. Svona skeði það, að ég hætti sem formaður Verkamannasambandsins.” Þær breytingar sem urðu við hvarf Björns frá VMSÍ hafi þó verið góðar að hans mati. Þá hafi fleiri komið inn, eins og þeir sem höfðu gengið inn í Eflingu frá Verkakvennafélaginu Sókn og iðnverkafólkið frá Iðju og aðrir ófaglærðir iðnaðarmenn eins og úr verksmiðjunum.
Norræna leiðin er algjört kjaftæði
Björn Grétar var hluti af hinu frægum Þjóðarsáttarsamningum sem hann telur að hafi náð sínum markmiðum en telur fórnarkostnaðinn hafi mögulega verið of mikinn. Um fórnarkostnaðinn skefur hann ekki af því: „Hann kom úr helvítis hagfræðinni.“ Hann hafi ekki endilega viljað ganga þessa leið og segir verkalýðsarm hreyfingarinnar hafa verið búinn að hugsa um þetta en fámennur fundur var haldinn með ráðherrum þar sem verkalýðsarmurinn vildi fresta kjarasamningum um fjörutíu daga með sameiginlegri yfirlýsingu með ríkisstjórninni til þess að knýja niður verðbólguna með handafli en stjórnmálamennirnir hafi ekki lagt í það af persónulegum ástæðum við ákveðna aðila. „Við vorum búnir að pæla í þessu áður og héldum meira að segja fund uppi hjá Guðmundi í Dagsbrún. Ég, Guðmundur, Pétur Sigurðsson, þetta eru þeir sem ég man eftir, þetta var mjög fámennur fundur, Steingrímur Hermannsson og Ólafur Ragnar Grímsson. Við vorum þar með hugmyndir, verkalýðsarmurinn þar sem við spurðum þá, eða hvort þeir myndu styðja það að ganga inn í svoleiðis rútínu. Þetta var, ég veit ekki, ég verð örugglega sagður ljúga þessu, það er pottþétt, en þeir eru svo sem einhverjir eftirlifandi, allavega Ólafur Ragnar. Ögmundur vissi nú af þessu held ég. Við vildum fresta kjarasamningnum um fjörutíu daga.”
Þjóðarsáttarsamningarnir hafi verið líf og fjör en Björn Grétar nefnir oft í þessu viðtali að þau verkefni sem hann hafi tekið þátt í á sviði verkalýðshreyfingarinnar hafi verið skemmtileg og augljóst er að hann hafi brunnið fyrir málefni vinnandi fólks á starfstíma sínum innan hreyfingarinnar. Það hafi verið upplifun að taka þátt í þessum samningum sem hann telur hafa í endingu hafa almennt verið nokkuð jákvæða. Hann var hluti af þriggja manna formannahóp sem tókst á við bankanna í aðdraganda samninganna en þar var að mestu fjallað um vexti og kostnað. Bankamennirnir hafi margir tekið skynsamlega á þessum málum en aðrir hafi verið kolvitlausir og ósvífnir á fundum.
„Þetta er svokallaður svona korporatískur samningur(Þjóðarsáttin). Ég fékk stjórnmálafræðing, mjög þekktan, til að fara yfir það með mér hvað korporatismi væri því ég er bara venjulegur gemlingur, ekkert úr háskólanum eða neitt. Hann fór svo yfir þetta með mér, mjög opið og fínt. Ég tók einn mann með mér sem fékk að hlusta á þetta með mér. Þetta var bara svona smá fundur og hann sagði mér bara hreint út að þessi korporatismi eða þetta samráð ríkis, atvinnurekenda og verkalýðshreyfingar væri einungis einnota tæki.“ segir Björn sem sagði að auki að stjórnmálafræðingurinn hefði bent sér á að slíkt samningsmódel kæmu vel út fyrir ríkisvaldið og atvinnurekendur en verkalýðshreyfingin myndi veikjast. Það vildi hann ekki sjá þar sem honum þætti vænt um hreyfinguna. Hann hafi svo borið þetta undir bróður sinn sem hafi verið að lesa sér til og að skrifa um slíka samninga á þessum tíma og hann hafi tekið undir þetta. Eftir þennan fund með stjórnmálafræðingnum hafi hann alltaf verið skeptískur á þessi stóru samráð. Hann hafi farið á fundi á Norðurlöndin þar sem þetta kerfi er við lýði og kynnst verkalýðshreyfingunni sérstaklega í Svíþjóð og Danmörku en þar hafi hreyfingin veikst verulega: „Hugmyndafræðin og kjarabaráttan væri farin. Það er búið að reyna þetta hérna á fullu, með norrænu leiðinni, alveg á fullu. Algjört kjaftæði!“ og heldur svo áfram: „Þetta norræna módel sem menn tala um, sem er ekkert annað en bara stilling hagfræðinga á hvað er til skiptanna út frá ákveðinni hugmyndafræði. Það gengur þvert á mínar skoðanir.“ Besti árangurinn sem hann hafi náð í kjarasamninga var við einstaka fyrirtæki sem sneru að ákveðnum aðilum eins og saltfiskverkendum. Þegar hann hafi náð slíkum samningum hefði hann getað farið á næsta vinnustað og gert það sama og þannig hafi hann aukið samkeppnisstöðu verkafólksins. Hann hafi trúað því að það samráð sem ASÍ hafi verið að fara í væri einskorðað við ríkið en svo hefði ekki verið. Hann nefnir svo aftur hagfræðinganna þar sem Þórir Daníelsson, forveri hans sem framkvæmdastjóri Verkamannasambandsins hafi sagt við sig í sambandi við þá, að það hefði verið þannig að þeir í Danmörku hefðu ráðið til sín hagfræðinga en ekki kosið þá. „Þetta norræna módel sem menn tala um, sem er ekkert annað en bara stilling hagfræðinga á hvað er til skiptanna út frá ákveðinni hugmyndafræði. Það gengur þvert á mínar skoðanir.”
Eina ástæðan sem hann sæi til þess að fara í svona víðtæka samninga væri ef hægt væri að bjarga einhverju sérstöku eins og til dæmis í ástandinu á Íslandi núna. Ef hægt væri að ná saman um eitthvað sem allir kæmu að og lægsti taxtinn myndi hækka hlutfallslega meira og bankarnir væru teknir í nefið eins og hann orðar það, að þá kannski væri hægt að fara í svona samninga. En hann vill aldrei sjá norræna módelið. Svona samningar séu einungis einnota.
Besti árangurinn sem hann hafi náð á sviði verkalýðshreyfingarinnar hafi verið sérkjarasamningar við fyrirtæki og stofnanir. „Sko, besti árangur sem ég hef náð í verkalýðshreyfingu var það sem maður gerði heima þegar maður notaði tækifærið til þess að gera sérkjarasamninga sem sneru að hinum ýmsum þáttum eins og bara í salfisknum. Þegar þú varst búinn að því þá gastu farið til sveitarfélagsins og bent þeim á hversu helvíti flott kjörin væru orðin við önnur fyrirtæki, uppá samkeppni um vinnuafl. Maður þarf að nota tækifærin til að gera svona“ og bætir við að hann hafi verið efasemdarmaður um of umfangsmiklar sameiningar en svona samninga sé ekki hægt að gera með sameinað félag sem nær frá Hornafirði norður á Langanesið. Það séu gallar á þessu kerfi en ómögulegt sé að ganga að formanni félagsins á hverjum stað og þar sé bara skrifstofa og formaðurinn á flækingi.
Aðgerðir og verkföll virka
Þegar rætt er við Björn um aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar, telur hann að þær svínvirki. Hann telur að fjöldafundir og 1. maí ganga séu áhrifamiklar leiðir til þess ýta á eftir pólitíkusunum sem séu skíthræddir við þetta. „1. Maí ganga hefur alltaf áhrif. Við vorum með þetta á Höfn á Hornafirði. Við lögðum þetta aldrei niður. Við vorum reyndar með verkamannaball en það lagðist nú niður, því verr og miður.“ Honum er einnig minnisstætt þegar hann hafi verið að þvælast niður í bæ í sjómannasamningum að þar hafi Grindvíkingar verið mættir fyrir framan Alþingishúsið í sjóklæðum og hann hafi farið upp á pallanna til þess að sjá viðbrögð stjórnmálamannanna og hann hafi alveg tekið eftir því á hátterni pólitíkusanna að þetta virkaði. Öll barátta snúist um skiptinguna á verðmætunum . Svo séu það verkföllin, eða hótunin um þau. Það sé oft nóg að hóta verkfalli til þess að ná upp taugaveiklun í herbúðum mótaðilans við samningaborðið. Hann segir sögu af samningum sem voru kallaðir Garðastrætissamningarnir en fyrstu drög af þeim voru felld og allt stefndi í verkfall og mikill skjálfti í atvinnurekendum þar sem það var allt fullt af fiski en þá hafi verið samið rétt fyrir miðnætti og vinnustöðvun forðað morguninn eftir. Svo virki rosalega vel í sjómannadeilum að vera í landi þegar vertíðin sé að hefjast. Hann sé þá, aðspurður, mótfallinn því að ríkið eigi að geta sett lög á verkfall nema ef það komi upp einhver „helvítis krísa“ eða einhver hátekjuhópur sé að fara í verkfall. Hann þekki þó menn innan hreyfingarinnar sem hefðu aldrei lagst gegn lagasetningu á aðgerðir verkalýðshreyfingarinnar. „Það eru nefnilega fullt af mönnum í verkalýðshreyfingunni sem ég kalla þessa hræddu menn. Sem eru hræddir við hvað? Félaga sína. Eiga bara svona gott félag og vilja bara að allir séu vinir svo lengi sem þeir sjálfir fái borgað um mánaðarmótin. Ég hef þekkt svona með og þeir eru enn til í dag.”
Verkalýðshreyfingin styrki lobbíismann og kvótinn er veikleiki
„Nei. Ég er búinn að fara í gegnum marga samninga og það hafa verið margir samningar sem ég hef alveg verið mótfallinn því að eiga eitthvað við stjórnvöld. Heldur bara að keyra á atvinnurekendahliðina. Ég hef verið með í því að fá 20 atriða lista frá stjórnvöldum sem er bara svo..“ segir Björn Grétar aðspurður hvort hann treysti stjórnvöldum en með þessum orðum virðist hann vera á þeirri skoðun að ríkisvaldið svíki þessa atriðalista. Hann telur það vera algjörlega nauðsynlegt að sett séu ströng rauð strik í samskiptunum við stjórnvöld.
Hann telur að verkalýðshreyfingin og þá sérstaklega ASÍ þurfi að styrkja hagsmunagæslu sína þar sem atvinnurekendur hafi meiri tengsl inn í atvinnulífið og við stjórnvöld og svo séu þeir líka með fjármagnið. Hann segir: „Mér hefur alltaf fundist ASÍ þurfa að styrkja lobbíismann. Það er oft fjallað um hluti milli samninga. Ég man að ég sat í töluverðan tíma í hóp sem fjallaði um vexti á fjármagnstekjur. Það var eitt að stefnumálum ASÍ að setja á fjármagnstekjuskatt. Ég sat þar. Mér finnst að svona þurfi að gera. Hvert og eitt félag getur ekki gert svona.“ Björn Grétar hafi alltaf talið það að hlutverk Alþýðusambandsins hafi alltaf átt að vera að eiga við ríkisvaldið og styrkja hagsmunagæslu hreyfingarinnar í heild sinni. Þó ætti hreyfingin ekki að horfa einungis á málefni innanlands heldur að efla það að horft sé á verkalýðshreyfinguna erlendis frá og nefnir hreyfinguna í Danmörku sem gott fordæmi: „Svo er þetta náttúrlega global. Danirnir voru seigir í því. Þeir voru alltaf með gesti. Þar var óhemjumargir gestir frá þriðja heiminum. Þarna voru danirnir bara að ná athyglinni í Danmörku. Þeir kunnu þetta.”
Björn Grétar telur atvinnurekendur alltaf hafa verið sterkari þegar kemur að hagsmunagæslu þar sem þeir hafi fjármagnið og meiri tengsl inn í atvinnulífið. Atvinnurekendur hafi haft öðruvísi samningatækni. „Þeir hafa ákveðna styrkleika, þeir vinna allt öðruvísi en við. Það var svolítið áhugavert þegar átrúnaðargoðið fyrir vestan, atvinnurekendamegin, Einar Oddur Kristjánsson. Þetta var sterkur karakter. Þú gast alveg talað við hann en á sama tíma þá er mjög harður framkvæmdastjóri hjá þeim en hinn steig alltaf fram fyrir“ og heldur áfram „Ég get sagt þér sögu frá því þegar ég þurfti að fara heim á Höfn í miðri samningslotu, þurfti að stoppa í 2-3 daga og var alveg klár að við kæmumst ekkert lengra næstu daga en þá var hringt í mig úr karphúsinu með skilaboðum frá Einari Oddi sem sagði að við myndum bara klára þetta næstu nótt. Ég held ég hafi verið þarna í 10-12 daga í viðbót. En þá var hann svo sem óvanur.“
Veikleiki verkalýðshreyfingarinnar liggi meðal annars í málefnum fiskveiðistjórnunarkerfisins. Í sveitarfélögum þar sem gangi vel, er ekki mikill vilji til þess að taka á málefnum sjávarútvegsins. Kvótinn sé ekki alslæmur en með framsali aflaheimilda og erfðaréttinum er misjafnt hvernig hægt sé að fá sum bæjarfélög til þess að virka. „Eigum við að segja sem dæmi af því þegar ég skipaði tvo menn, góðir menn, í að búa til einhvern grunn að hugsanlegri stefnu Verkamannasambandsins í kvótamálum. Það bara skeði ekki neitt, þannig ég fór að athuga með þessa menn mína, sem voru vinir mínir og spurði þá af hverju það kæmi ekki neitt frá þeim. Þá kom bara í ljós að staðan var bara góð í þessum kvótamálum heima hjá þeim. Annar var fyrir norðan og hinn var fyrir austan. Allt svona getur veikt sambönd svo mikið.”
Hann telur þá að það hafi verið mikil mistök að skipta um nafn á Dagsbrún yfir í Eflingu. Ef Dagsbrún hafi hreyft sig, hafi allt þjóðfélagið skolfið. Þetta sé það sem Efling sé að reyna að endurheimta í dag. Hann sé einnig á því að stór félög eigi að deildar- og svæðisskipta sér og vera með trúnaðarmann á fullum launum á viðkomandi svæði. „Þetta sá ég þegar ég var úti í Kaupmannahöfn. Þá var mér boðið á eitthvað svona þing SID (d. Specialarbejderforbundet i Danmark).“ SID er eru heildarsamtök verkafólks í Danmörku. „Þar vorum við uppá svölum sem gestir en þá komu þrammandi út á svalirnar óhemjufjöldi fólks sem var með spjöld og settust einhversstaðar. Þá voru þetta svæðisstjórarnir þarna. Mér fannst flott að sjá þetta. Þetta bara sýndi styrkleika. Þetta er valdatafl og ekki bara við atvinnurekendur heldur líka við stjórnmálamennina“
Seðlabankinn veldur ekki sjálfstæði sínu
Björn Grétar Sveinsson hefur til þessa ekki verið jákvæður gagnvart hagfræðingum í þessu viðtali. Aðspurður um aðkomu sérfræðinga að kjarasamningsgerð vill hann að allar forsendur þeirra séu byggðar út frá þörf og vilja félagsmanna en honum finnst þessi hjá Eflingu (Stefán Ólafsson) vera maður sem er með réttu sýnina á hlutunum. Hann vilji þó ekki auka aðkomu sérfræðinga og hún hafi verið nóg á hans tíma í hreyfingunni enda hafi hagfræðingar átt forseta Alþýðusambandsins og haft óhemju völd innan sambandsins. „Það er enginn vandi að vera með einhverja sýn sem maður lærði í skóla þar sem niðurstaðan byggir allt í kringum frjálshyggju. Það er eins og núna sem ég skil ekki að ég hef aldrei skilið þess yfirgnæfandi hræðslu pólitíkusa við miðstýringu. Eins og í sambandi við vextina, það á bara að handstýra þeim. Þjóðfélagið gengur svoleiðis núna að það gengur ekki að skipa nefnd og segja að hlutirnir séu í athugun. Ríkisstjórnin á að grípa inn í og segja að vextirnir eiga að vera svona.“
En finnst Birni þá að draga eigi úr sjálfstæði Seðlabanka Íslands? „Já já. Hann bara veldur þessu ekki. Og lausnirnar hjá honum eru bara einhæfar upp úr bók. En fólk verður að skilja það að það sem er í gangi núna er millifærsla á peningum. Þetta gerir þá fátæku fátækari.” Sameignarstefna hafi margsannað sig á Íslandi en mikil ásókn sé í að breyta því núna en hann nefnir dæmi með Landsvirkjun sem mali gull fyrir ríkið en nú sé íhaldi að reyna að kroppa í fyrirtækið og reyni að selja það. Eigur ríkisins séu grundvöllurinn fyrir því að Ísland sé sjálfstæð þjóð.
Hann treystir þá ekki stjórnvöldum fyrir húshorn þegar kemur að því að liðka fyrir undirritun kjarasamninga. Sá leikur hefjist á lokametrunum. Verkalýðshreyfingin fer niður í stjórnarráð, labba inn, setjist og bíði verandi hálfsyfjuð. Hann og Guðmundur Jaki hafi átt ágætis samskipti við Steingrím Hermannsson en hafi þó mestmegnis fengist við Davíð Oddsson. „Hann var öðruvísi týpa (en Steingrímur Hermannsson) og það er eiginlega ekki hægt að líkja því saman. Hann var kurteis og allt það en ég treysti honum aldrei. Hugsjónir hans og okkar liggja bara ekki saman. Svo einfalt var það.” Honum hafi ofboðið allir þessir samningar við ríkisvaldið en hann hafi þó ekki verið viðriðin þá hlið mjög lengi. „Ég er búinn að fara í gegnum marga samninga og það hafa verið margir samningar sem ég hef alveg verið mótfallinn því að eiga eitthvað við stjórnvöld. Heldur bara að keyra á atvinnurekendahliðina. Ég hef verið með í því að fá 20 atriða lista frá stjórnvöldum sem er bara svo.. (svikið?)“
Ekki breyta Embætti ríkissáttasemjara út af einu klúðri
Í lokin er ástæða til þess að spyrja um nútímann og framtíðina. Björn Grétar Sveinsson hefur eins og við höfum lesið hérna ýmsa fjöruna sopið á sviði verkalýðshreyfingarinnar. Allt frá jólakransanámskeiði á Höfn í Hornafirði yfir í að sitja í reykfylltu fundarherbergi með ráðherrum og skrifa undir stóra og fræga kjarasamninga. Hann telur að ekki eigi að hlaupa til handa og fóta til þess að breyta Embætti ríkissáttasemjara út af einu klúðri. Vinnulöggjöfin hafi virkað, ríkissáttasemjari hafi völd og kjarasamningar séu frjálsir samningar þannig hann telur ástæðulaust til að breyta nokkru en bætir einnig við: „Ég er líka bara enn hræddari við menn, aðallega framsóknarmenn sem byrja að tala um að breyta vinnulöggjöfinni að þá kviknar á öllum rauðum ljósum hjá mér. Ég hef farið í gegnum svona áður. Og þá voru það framsóknarmenn.”
Aðspurður hvernig samninga eigi að gera í dag en kjarasamningar eru nú lausir hjá meginþorra launafólks og einnig eru samningar opinberra starfsmanna að losna segir Björn Grétar: „Ef það er hægt að bjarga einhverju svona eins og í ástandinu núna á Íslandi, sem er ferlegt. Ef það væri hægt að ná saman um eitthvað sem allir kæmu að og þá er ég að tala um með ákveðnum skilyrðum eins og ef lægsti taxtinn myndi hækka meira og svo krónutölur bara og taka bankanna í nefið og allt saman þá kannski. En eins og ég segi. Þetta er einnota tæki. Ég myndi aldrei vilja sjá norræna módelið. Þá er ég bara að hugsa um hreyfinguna. Mér þykir mjög vænt um hreyfinguna. Hreyfingin er ekkert úrelt þó svo það sé verið að reyna að koma þeirri skoðun víða inn.”
Við þökkum Birni Grétari Sveinssyni kærlega fyrir sína yfirferð og frábær lokaorð á sínum ferli en mikilvægt er að rifja upp hvernig hlutirnir voru til þess að það sé tekið með inn í framtíðina. Björn Grétar er maður með mikla sögu og stórar skoðanir sem vel má vera að ekki séu í tísku í dag en horfa mætti miklu meira í.
Unnið úr viðtali sem tekið var fyrir BA lokaritgerð í stjórnmálafræði.