Félagið Ísland-Palestína „fordæmir þá gerræðislegu ákvörðun utanríkisráðherra Íslands að svipta Palestínuflóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNRWA) fjárhagsaðstoð“ eins og segir í tilkynningu.
„Ákvörðunin er tekin áður en rannsókn á ásökunum Ísraels á hendur starfsmönnum UNRWA hefur skilað niðurstöðu,“ segir jafnframt.
Félagið bendir á að Palestínuflóttamannaaðstoð SÞ gegni lykilhlutverki í neyðaraðstoð við Gazabúa sem séu í lífshættu sökum skorts á mat, vatni, lyfjum og eldsneyti vegna hernaðar Ísraels.
Með þessari aðgerð tekur íslenska ríkisstjórnin þátt í ólögleglegri hóprefsingu að því er félagið segir og vísar í Genfarsáttmálann.
„Í úrskurði Alþjóðadómstólsins í Haag segir að mögulegt þjóðarmorð sé í uppsiglingu á Gaza, bæði vegna stöðugra sprengjuárása úr lofti og á legi og ennfremur vegna skorts á lífsnauðsynjum. Aðgerð utanríkisráðherra er því í andstöðu við úrskurð dómstólsins og eykur enn frekar á áþján Gazabúa. Íslensk stjórnvöld verða að aflétta þessari aðgerð utanríkisráðherra strax. Neyðaraðstoð verður að berast til Gaza strax!“ segir félagið.