Viðar Þorsteinsson verkalýðsleiðtogi segir að ný gerð af fjölmiðlaumfjöllun sé að sækja í sig veðrið, þar sem mikið sé gert úr líðan fólks sem hefur þurft að sæta ábyrgð fyrir gjörðir sínar.

Fleiri taka undir með Viðari um að þeirri gerð fjölmiðlunar þar sem reynt er að breyta handhöfum pólitískrar ábyrgðar í þolendur vaxi ásmegin. Ein spurning er hvort forsetakosningar spila inn í.
Tilefnið er frétt á visir.is þar sem kynntur er þátturinn Eftirmál á Stöð 2 með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem sagði af sér sem ráðherra eftir svokallað lekamál. Fyrirsögnin er: „Ég var drullurædd í heilt ár“.
Viðar deilir fréttinni á facebook-síðu sinni og spyr:
„Ætli verði tekið svona viðtal við Tony Omos? Um það hvernig honum líði og svona. Annars þá er þetta áhugaverð týpa af fjölmiðlaumfjöllun, er greinilega að sækja í sig veðrið samanber nýlega heimildamynd á RÚV um Hrunið.“
Hanna Birna sagði af sér sem ráðherra eftir að Gísli Freyr Valdórsson aðstoðarmaður hennar játaði að hafa lekið trúnaðarupplýsingum um nígeríska hælisleitandann Tony Omos. Hann hafði óskað eftir hæli og hefur Tony síðan fengið dæmdar bætur hjá dómstólum vegna brota stjórnvalda.
Í umræðu um færslu Viðars er spurt hvort verið sé að dubba Hönnu Birnu upp sem forsetaefni.
Viðar segir að augljóslega séu fjölmiðlar að leggja sitt af mörkum.