„Sex banaslys á einum mánuði, og það fyrsta mánuði ársins, er sex banaslysum of mikið! Við verðum að koma í veg fyrir fleiri slys,“ segir Guðbergur Reynisson, sem stýrir Facebook-hópnum Stopp hingað og ekki lengra, hópi sem hingað til hefur fyrst og fremst verið helgaður öruggari Reykjanesbraut.
En hvað er til ráða? Er jafnvel ekkert hægt að gera til að draga úr banaslysum á Íslandi? Nei, því eru menn ekki sammála innan fyrrnefnds hóps. Sumir vekja athygli á því mörg slys mætti forðast ef ökumenn þyrftu að klára endurmenntun reglulega. „Máltæki á eyjunni La Gomera hljóðar svo. Það eru ekki vegirnir sem eru hættulegir heldur þeir sem um þá fara! En jú það má alveg til sansvegar færa að margur er vegurinn slæmur. Þess þá heldur að fara varlegar. Svo mætti skella á endurmenntun ökumanna á 15 ára fresti. Sjómenn sæta endurmenntun á 5 ára fresti og þar hefur banaslysum nær því verið útrýmt. Látið svo símann vera þegar ekið er,“ skrifar einn maður.
En svo eru margir sem benda á nokkuð sem lengi hefur verið til umræðu, hvernig bílaleigur afhendi bíla til ferðamanna sem í raun eiga ekkert erindi í þær aðstæður sem oft eru á Íslandi. „Bílaleigurnar leyfa öllum að fá bíl í hendur og sendir þetta fólk beint í áskorun lífs síns, að aka á Íslandi sem er engin hægðarleikur fyrir óvana,“ segir einn maður.
Annar maður tekur undir og segir: „Er hægt að sjá einhverstaðar hversu margir af þessum sem hafa lent eða valdið slysi eru erlendir ferðamenn sem eru alls óvanir að keyra við þessar aðstæður? Var að þvælast um daginn í viku og ég veit ekki hversu oft ég var í hættu vegna aksturslags kínverska bílstjóra…“
Af þeim sex sem hafa látist í umferðinni á þessu ári voru í það minnsta tveir erlendir ferðamenn.