„Hef heyrt marga Grindvíkinga segja eitthvað á þessa leið: „Ég vildi óska þess að jarðskjálftar, eldgos og hraun hreinlega eyðileggi bæinn!““
Þetta skrifar Björn Birgisson, íbúi í Grindavík, á Facebook en hann segir að þó þetta sé auðvitað hræðileg hugsun þá verði menn að reyna að sjá þetta með augum íbúa. Margir vilji flytja en get það ekki vegna þess að allt þeirra fé er bundið í fasteign í bænum.
„Þetta hljómar vitaskuld alveg hræðilega – en skoðum nánar hvers vegna þetta er sagt og þá rennur væntanlega ljós upp fyrir flestum! Þeir sem eiga ónýt hús fá þau greidd út og geta væntanlega í flestum tilvikum keypt sér húsakost annars staðar standi vilji þeirra til þess. Eða keypt innanbæjar í Grindavík vilji þeir það, þar verður mikið framboð á flottum eignum á tombóluverði!,“ segir Björn.
Hann segir marga sitja uppi með óseljanlegar eignir. „Þeir sem eiga óskemmd eða lítið skemmd hús og vilja ekki flytja heim til Grindavíkur aftur – treysta sér ekki til þess – sitja uppi með óseljanlegar eignir, hugsanlega það sem eftir er ævinnar. Væntanlega eru það í mörgum tilvikum hús með brunabótamat á bilinu 50-100 milljónir. Sjaldan minna, oftar meira. Afrakstur ævistritsins í mörgum tilvikum skyndilega bundinn í óseljanlegri fasteign, enda lengi tíðkast að fjárfesta í steypu hérlendis og húsakosti almennt. Þetta er staðan!,“ segir Björn.
Í ljósi þessa þá myndi það bjarga mörgum ef bærinn færi undir hraun. „Náttúruhamfaratryggingar Íslands bæta skemmdar og ónýtar eignir – en skipta sér ekkert af verðfallinu á eignum í bæjarfélaginu. Þær tryggingar bæta bara áþreifanleg tjón, sprungin gólf, sprungna veggi, brotið gler, en ekki fjárhagslegt hrun íbúa heils bæjarfélags. Ef einhver getur komið inn og hreinlega keypt upp eignir þeirra sem treysta sér ekki til Grindavíkur aftur – þá er það ríkissjóður – sem getur svo selt þær eignir síðar ef þær verða einhvern tímann söluvara aftur,“ segir Björn.
Hann segir að þetta sé eitthvað sem stjórnmálamenn, því miður, þurfa að leysa. „Þar kemur pólitíkin inn í málið. Um þetta mætti hafa mörg fleiri orð, en það er lýjandi að margsegja hlutina ef réttir aðilar – þeir sem völdin hafa – vilja ekki eða nenna ekki að hlusta og lesa. Þetta er eitt af því sem reddast ekki af sjálfu sér.“