Talskona Stígamóta gagnrýnir Borgarleikhúsið harðlega

Drífa Snædal, talskona Stígamóta, ávarpar þá sem eiga miða á leikritið Lúnu sem verður frumsýnt á föstudag. Drífa ræðir samfélagslega ábyrgð Borgarleikhússins og ýjar að slaufun gagnvart sýningunni.

Um ræðir nýtt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson. Vitnar Drífa til þess að höfundur hafi sagt að verkið sé unnið í samstarfi við Heiðar snyrti. Löng vinátta sé þeirra á milli.

Talskona Stígamóta segir að þegar fréttir hafi borist af fyrirhugaðri sýningu Borgarleikhússins hafi sár brotaþola Heiðars ýfst upp. Hann var árið 1996 dæmdur fyrir húsbrot og kynferðisbrot gagnvart 18 ára dreng á Egilsstöðum og er með annan dóm á bakinu.

Drífa segir að það valdi vanlíðan og undrun brotaþola að sett sé upp leikverk þar sem Heiðari sé hampað eða um hann fjallað. Þetta sé ekki verk sem gagnrýni hann sem kynferðisbrotamann eða fjalli um það heldur um „fegurðina“ eins og leikskáldið Tyrfingur hafi komist að orði.

„Það rétta hefði verið þegar fjalla á um kynferðisbrotamenn að hafa samband við brotaþola þeirra fyrirfram og fá þeirra afstöðu til frásagnarinnar. Ef viðkomandi kæra sig ekki um að málið sé tekið fyrir skal virða þær óskir til að koma í veg fyrir vanvirðingu. Reynsla brotaþola er þessu ekki óviðkomandi,“ skrifar Drífa í nýrri grein á visir.is.

Stígamót voru beðin um að aðstoða brotaþola að koma á framfæri þeirra viðhorfum og vitnar Drífa til bréfaskrifta við Borgarleikhúsið.

„Fulltrúar Borgarleikhússins, stjórnin þar með talin hafa vitneskju um þrjá brotaþola sem hafa með einhverjum hætti komið á framfæri upplifun af vanvirðingu og að auki hafa fulltrúar Stígamóta átt fund með meðal annars leikhússtjóra og leikskáldinu til að fara yfir þann sársauka sem svona sýning getur valdið og að það væri nær að vera með brotaþolavæna nálgun í verkum og framkomu.“

Drífa bendir á að sumir kunni að segja að listin megi allt og stór listaverk hafi einmitt troðið ýmsum um tær í gegnum tíðina.

„Ég lít hinsvegar á málið í stærra samhengi og sem hluta af samfélagi sem neitar ekki einungis að viðurkenna alvarleika kynferðisbrota heldur vill alls ekki að gerendur þurfi að axla ábyrgð. Kynferðisofbeldi er ógeð og smánarblettur í okkar samfélagi en nú um mundir virðist fólk aðallega hafa áhyggjur af því að þeir sem brjóta á öðru fólki megi ekki láta ljós sitt skína opinberlega lengur. Minni áhyggjur eru af því að kynferðisbrot geta haft áhrif á brotaþola allt þeirra líf og þó fólk hafi leitað sér hjálpar getur komið bakslag í líðan og það er sannanlega raunin hér,“ segir Drífa og bætir við að Borgarleikhúsið virði ekki óskir brotaþola eða alvarleika afleiðinga á þolendur heldur ákveði þrátt fyrir óskir um annað, að stilla kynferðisbrotamanni í kastljósið af því að listin megi allt – „líka viðhalda þjáningum brotaþola kynferðisofbeldis.“ Það finnst Drífu mikilvægt að gestir sýningarinnar viti, tekur hún fram.

Í kynningu Borgarleikhússins á verkinu segir: „Það er aðfangadagskvöld jóla og hjónaleysin Lúna og Ingi sitja heima og vilja helst vera einhvers staðar allt annars staðar. Þegar barið er að dyrum er þar hvorki kominn andi jólanna né jólasveinninn heldur Heiðar snyrtir.“

Sjjá grein Drífu hér: Til þeirra sem eiga miða á Lúnu í Borgar­leik­húsinu – Vísir (visir.is)

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí