Undanfarið hefur það heyrst æ oftar að Ísland þurfi nauðsynlega að auka rafmagnsframleiðslu. Samkvæmt talsmönnum þess sjónarmiðs þá er voðinn vís ef ekkert verður virkjað á næstu árum, því orkuþörfin verði svo mikil í kjölfar orkuskipta. Þetta hefur valdið nokkuð miklum núningi innan ríkisstjórnarinnar. Sumir Sjálfstæðismenn hafa jafnvel kallað eftir stjórnarslitum svo hægt væri að virkja án þess að þurfa að hlusta á mótbárur VG.
Andri Snær Magnason, rithöfundur og náttúruverndarsinni, segir hins vegar að þetta sé ímyndað vandamál. Nóg sé af raforku. „Í umræðu um orkuskipti er ágætt að hafa góða hugmynd um stærðir þegar kemur að raforkunotkun. Rafmagnsbíllinn minn notar um 2500 KWh á ári til að keyra 15.000 kílómetra. Þúsund rafbílar nota þá um 2500MWh og milljón rafbílar nota þá um 2500GWh sem eru 2.5 Terawattstundir á ári,“ skrifar Andri Snær á Facebook.
Hann bendir á að orkuþörf rafbíla sé eins og dropi í hafi miðað við álverin. „Álverin á Íslandi nota um það bil 13 Terawattstundir á ári – eða jafn mikið og fimm milljónir rafbíla. Segja má að rafbílaþátturinn í orkuskiptum sé furðulega einfaldur þegar kemur að orkukerfinu, jafnvel 100.000 rafbílar myndu ekki valda „virkjanaþrýstingi“, enda væri það aðeins um 250 GWh sem er eins og c. a 35 MW virkjun,“ segir Andri Snær.
Að lokum bendir hann á að engin þjóð í heiminum kemst með tærnar þar sem Íslendingar eru með hælana hvað varðar orkunotkun. „Hér má sjá hversu mikil orkunotkun er hjá okkur í hlutfalli við þjóðarframleiðslu. Nágrannaþjóðum tekst að skapa jafn mikla velmegun með aðeins fjórðung af raforkunotkun okkar,“ segir Andri Snær og deilir myndinni sem sjá má hér fyrir neðan.