Félag ungra jafnaðarmana á Íslandi „fordæmir ómannúðlega ákvörðun utanríkisráðherra að frysta greiðslur til UNRWA“ eins og segir í ályktun frá félaginu.
UNRWA er flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna í Palestínu og hefur um árabil veitt palestínsku flóttafólki menntun, heilbrigðisþjónustu og rekið flóttamannabúðir svo fátt eitt sé nefnt. Hjá UNRWA starfa 30.000 manns, þar af 13.000 á Gaza.
„Utanríkisráðherra hefur, án alls samráðs, tekið þá ákvörðun um að Ísland greiði ekki til UNRWA þar til að samráð hefur átt sér stað við aðrar norðurlandaþjóðir. Þetta er tilkomið vegna ásakana Ísraels um þátttöku 12 starfsmanna UNRWA að hryðjuverkaárás Hamas á Ísrael þann 7. október síðastliðinn. Ásakanir sem þessar ber að rannsaka efnislega en ekki taka afdrifamiklar ákvarðanir vegna þeirra einna,“ segir í yfirlýsingu ungra jafnaðarmanna.
Í yfirlýsingu frá 27. janúar 2024 bendir UNRWA á að líf fólks og stöðugleiki svæðisins liggi undir.
„Það er ómannúðlegt og úr öllu hófi að stöðva eina helstu líflínu meira en tveggja milljóna íbúa Gaza og kemur ákvörðunin niður á saklausum, almennum borgurum, sér í lagi börnum. Noregur hefur sem dæmi, af þeim sökum, ákveðið að halda áfram stuðningi sínum við UNRWA. Við fordæmum ákvörðun Bjarna Benediktssonar og hvetjum ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur til þess að snúa ákvörðuninni við, standa með mannréttindum og gegn þjóðarmorði. Lifi frjáls Palestína,“ segja ungir jafnaðarmenn.