Ekki er ólíklegt að einhverjir Íslendingar kannist við að hafa stolist úr vinnunni aðeins fyrr en góðu hófi gegndi eða hringt sig veika þegar stórviðburður er á dagskrá sem enginn vill missa af.
Nefna mætti sem dæmi úrslitaviðureign um gull á heimsmeistaramóti í handbolta á virkum degi. Draumur sem Íslendingar vildu gjarnan sjá rætast í beinni útsendingu. Aftur á móti eru ekki allir svo heppnir að geta laumast fyrr heim úr vinnunni. Hinir lægstlaunuðu kunna að vera í þeirri stöðu að þurfa að þræla alla daga fyrir litla umbun og án veikindaréttar.
Því þarf ekki að koma á óvart að fyrir vestan í Bandaríkjunum, hefur nú umræða um veikindadaga vegna íþróttaviðburða náð miklu flugi síðan úrslitaleikur Super Bowl fór fram í vikubyrjun.
Samkvæmt Bloomberg hringdu 16 milljónir amerískra launamanna sig inn veika vegna úrslitaleiksins. Staðhæft hefur verið að 45 milljónir manna hafi afkastað minna en ella vegna Ofurskálarinnar. Gríðarlegir fjármunir eru sagðir hafa tapast.
En peningarnir færast úr einum vasa í annan. Markaðsrök segja að sunnudagskvöld skili mestu áhorfi og þess vegna hringir fólk inn veikindi. Því er úr vöndu að ráða fyrir Bandaríkjamenn sem eru þekktir fyrir stéttaskiptingu og vinnuhörku, fáa frídaga miðað við hér á landi og síminnkandi þátttöku í verkalýðsfélögum. Elon Musk sagði fyrir nokkrum dögum að hann sæi enga glóru í að starfrækja verkalýðsfélög.
Einhver myndi því kannski segja að vinnulúinni alþýðu veitti ekkert af einum aukafrídegi. Þá er ónefnd vonin sem fylgir hverjum úrslitaleik, því úrslitaleikurinn snýst ekki bara um íþróttina heldur líka drauma alþýðunnar, að því er erlendir fjölmiðlar hafa sagt frá.
Met var slegið þegar 123 milljónir Bandaríkjamanna horfðu að meðaltali á útsendingu leiksins en þegar hæst stóð horfðu yfir 200 milljónir Bandaríkjamanna á leikinn af 341 milljón íbúa alls.