Í dag eru fimmtíu ár frá valdaráni hersins í Chile þegar þeir steypti Salvador Allende af stóli. Allende féll, að sögn fyrir eigin hendi. Valdaránið var grimmilegt. Dagana og vikurnar á eftir var fjöldi vinstrisinna myrtur af hernum og fjölmargir flúðu land. Eins og víða gerðist í kalda stríðinu sigraði hægri sinnuð öfl með stuðningi bandarísku leyniþjónustunnar einfaldlega með því að drepa sósíalista.
Herforingjarnir lögðu af allar félagslegar umbætur sem stjórn Allende hafði innleitt og tóku upp efnahagsstefnu nýfrjálshyggjunnar. Fordæmið frá Chile varð hægrinu á Vesturlöndum fyrirmynd. Því má segja að valdaránið 11. september 1973 sé ekki aðeins einn af hápunktum kalda stríðsins, sem var síður en svo kalt heldur blóðugt og grimmt, heldur markaði það upphaf nýfrjálshyggjunnar.
Við ræðum valdaránið í Chile við Rauða borðið í kvöld við sérfræðing Samstöðvarinnar í málefnum Suður-Ameríku, Valdimar Þór Hrafnkelsson, aðdraganda þess, stjórnarstefnu Allende, morðin og miskunnarleysið sem fylgi á eftir, þátt bandarískra stjórnvalda, afleiðingar fyrir stjórnmálaþróun álfunnar, nýfrjálshyggjunnar og fleira sem tengist þessum sögulega viðburði.
„Þessi dagur 11. september hefur í hugum flestra Chilebúa sess sem sorgardagur þegar fasisminn sálgaði lýðræðinu,“ skrifar Kristinn Hrafnsson á facebook-síðu sína. „Nú er líka vel vitað að Nixon stjórnin Bandaríska blés í glæðurnar í þessu valdaráni og CIA falið að grafa undan Allende stjórninni. Réttlætingin var að verja þyrfti landið fyrir sósíalismanum en valdaránið var fyrst og síðast til að verja hagsmuni arðrænandi stórfyrirtækja og fámennisklíku ólígarka í Chile sem töldu það sinn náttúrurétt að sölsa undir sig auðlindir landsins.“
Kristinn heldur áfram: „Sárin vegna þessa valdaráns gróa seint. Í Chile segja menn „nunca más!- aldrei aftur!“ til að reyna að halda vofu fasismanns í gröfinni. Hún hefur engu að síður bært á sér að nýju þar, eins og í okkar heimshluta.
Ariel Dorfman sem var ráðgjafi stjórnar Allende en komst naumlega undan valdaræningjunum, minnir á það í aðsendri grein í New York Times, að áróður fyrir breyttri söguskoðun hefur skilað árangri. Gabriel Boric, forseti Chile og aðdáandi Allende reyndi að fá alla stjórnmálaflokka landsins til að samþykkja yfirlýsingu um að undir engum kringumstæðum væri valdarán hersins réttlætanlegt. Í liðinni viku höfnuðu hægri flokkar landsins að skrifa undir yfirlýsinguna og hafa haldið á lofti þeirri söguskoðun að valdaránið og óhæfuverk herstjórnarinnar hafi verið ill nauðsyn. Einn af leiðtogum hægri manna, José Antonio Kast sem sumir kalla „Trump Andesfjalla“ er talinn eiga möguleika á því að ná forsetakjöri eftir tvö ár.
Fasisminn er víða í sókn býsna nærri okkur og er víða dulbúinn sem einhvers konar „fasismi light“. Aðferðafræðin til að komast til valda er svipuð og áður, meðal annars með því að ala á hatri gegn ímynduðum óvinahópum. Víða um okkar álfu elur Hægrið markvisst á hatri gegn innflytjendum og einkum hælisleitendum. Með áróðri er því snúið svo að þessir hópar séu ógn við hagsmuni almennings en reyndin er sú að verið er að beina óánægju fólks frá hinni raunverulegu rót. Áróðursmaskina hægrisins er að verja hagsmuni fámennrar valdaklíku, spilltra fyrirtækja og óligarka sem telja það sinn náttúrurétt að voma yfir öllum verðmætum.
Þannig var það í Chile 1973 og þannig er það á Íslandi 2023. Við þurfum öll að vera á varðbergi.
Nunca más!“ skrifar Kristinn.
En hér eru fréttir Þjóðviljans og Moggans frá 12. september 1973, þar sem blöðin reyna að segja Íslendingum frá því sem gerðist daginn áður:
UPPREISN Í CHILE:
HERINN RlS UPP GEGN FORSETA
óljósar fregnir herma að hann hafi sagt af sér
Herinn i Chile gerði i dag uppreisn gegn Salvador Allende forseta landsins. Allt samband við landið er nú rofið og flugferðir þangað hafa stöðvast, og eru fréttir þaðan því mjög óljósar og ruglingslegar. Samkvæmt sumum heimildum sem NTBfréttastofan byggir sínar fréttir á er herinn búinn að steypa Allende af stóli og hefur nú full yfirráð yfir landinu, en aðrar heimildir segja að Allende hafi neitað að segja af sér og hafi búist til varnar.
Fljótlega eftir að uppreisnin ver gerð, rofnaði allt talsamband við Chile, og flugsamgöngur milli Buenos Aires og Santiago stöðvuðust. Ekki bárust þá aðrar fréttir frá landinu en þær sem fréttamenn frá Buenos Aires gátu heyrt i útvarpsstöðvum, en þær voru mjög mismunandi eftir því hvort útvarpsstöðin var á valdi uppreisnarmanna eða stuðningsmanna forsetans.
Fyrstu fréttir af uppreisninni bárust i yfirlýsingu frá Allende forseta, sem lesin var upp i útvarpsstöð. Þar sagði að hluti sjóhersins i stærstu flotahöfn landsins, Valparaiso, hefði gert uppreisn. Forsetinn sagði að uppreisnarmenn nytu lítils stuðnings og hvatti hann verkamenn til að búast til varnar. Skömmu siðar var lesin upp i annarri útvarpsstöð tilkynning sem sögð var undirrituð af yfirmönnum landhers, flughers, flota og lögregluhermanna. Þar var þess krafist að Allende segði af sér.
Siðan bárust ruglingslegar fréttir af bardögum i Santiago, og var sagt að flugvélar úr flughernum hefðu varpað sprengjum á forsetahöllina, bústað Allendes og ýmis önnur skotmörk i höfuðborginni.
Þessar fréttir voru lesnar upp i útvarpsstöð, sem var á valdi uppreisnarmanna, og um leið var lesin tilkynning um að herinn væri búinn að steypa Allende úr stóli. En þrátt fyrir þessa yfirlýsingu var skömmu siðar lesin upp áskorun til Allendes um að hann segði af sér fyrir ákveðinn tíma.
Loks tilkynntu uppreisnarmenn, að Allende hefði gefist upp og þeir hefðu nú fullt vald yfir landinu. Óstaðfestar fréttir, sem skýrt var frá i Mexíkó, hermdu að Allende hefði leitað hælis i sendiráði Argentínu i Santiago, en engin staðfesting hefur borist á því. Sagt var að allt væri með kyrrum kjörum i Santiago og marxistar hefðu verið handteknir.
Þessum atburðum er hér lýst eins og norska fréttastofan NTB lýsir þeim.
Herinn við völd í Chile:
Allende sagður hafa framið sjálfsmorð
Með flugvélum, skriðdrekum og fótgönguliði steypti herinn í Chile Salvador Allende forseta af stóli í dag og tók völdin í sinar hendur, að því er útvarpsstöð landsins, sem er á valdi herforingja, sagði. Eftir umsátur um hina veglegu forsetahöll, La Moneda, þar sem beitt var bæði árásum úr lofti og af jörðu, gafst Allende að lokum upp og var hann siðan handtekinn ásamt flokki vopnaðra fylgismanna sinna. Uppgjöfin kom átta klukkustundum eftir að bylting hersins hófst með upphlaupi sjóhersins i flotaborginni Vaipariso.
Þetta er í fyrsta skipti i 46 ár, sem herinn í Chile tekur völd af kosinni ríkisstjórn, og er landið þannig komið í röð hinna fjölmörgu Suður-Ameríkuríkja, sem búa við stöðugar valdatökur herforingja.
Salvador Allende, sem er 65 ára að aldri, varð forseti árið 1970. Fyrsti löglega kjörni marxistinn, sem kemst til forsetatignar á Vesturlöndum, var því aðeins við völd í þrjú ár. Ætlun hans var að gera Chile að sósíalistaríki, en sú tilraunin mætti mikilli andspyrnu þingsins, þar sem stjórnarandstaðan undir forystu kristilegra demókrata, hafði töglin og hagldirnar, svo og millistéttanna í landinu. Eftir stöðuga og vaxandi efnahagsörðugleika með óðaverðbólgu, verkföllum og smáuppreisnum varð Allende æ valtari á valdastóli, unz hann að lokum varð nú í sumar að taka herforingja í stjórnina. Nú hafa hins vegar herforingjarnir tekið Allende úr henni.
Eftir flotauppreisnina í Valparaiso fyrr í dag, hélt Allende útvarpsræðu og sagði m. a.: „Ég er hér og mun verða hér áfram til að verja ríkisstjórnina, sem verkalýðurinn hefur kosið sér.“ Meðan á ræðu hans stóð sveimuðu herflugvélar yfir forsetahöllinni.
Stuttu sáðar setti herinn – flug-, land- og sjóher, ásamt lögreglunni og leiðtogum stjórnarandstöðunnar, Allende úrslitakosti. Hann átti að hafa sagt af sér innan 24 klukkustunda. Þessu neitaði hann og vígbjóst í höll sinni í miðborg Santiago með hóp stuðningsmanna. Er fresturinn rann út hófu umsátursherirnir árásir og að lokum gafst forsetinn upp.
Á meðan var allt símasamband landsins við útlönd rofið, svo og samgöngur, og voru allar fréttir mjög óljósar fram eftir og svo til eingöngu reistar á útvarpsstöð hersins.
Herinn hefur tilkynnt öllum helztu marxistum og sósíalistum í landinu að þeir eigi að gefa sig fram þegar í stað.
SÍÐUSTU FRÉTTIR
Fréttir í kvöld hermdu að Allend.e forseti hefði framið sjálfsmorð. Ekki voru þær staðfestar er Morgunblaðið fór í prentun. Þá skýrði mexíkönsk útvarpsstöð frá því að blaðamenn í Ohile hefðu séð lík Allendes liggja við hlið eins af blaðafulltrúum hans, sem einnig var látinn. Útvarpsstöðin sagði að talsmaður hersins hefði staðfest fréttina um sjálfsmorð forsetans. Aðrar fregnir hermdu að hann hefði verið skotinn af lífverði sínum og enn aðrar að hann hefði sézt leiddur burt í handjárnum.