Boðað hefur verið til mótmæla við forsetahöllin í höfuðborg Ungverjalands, Búdapest. Krafa mótmælenda er að forseti landsins, Katalin Novák, segi af sér eftir að hafa veitt dæmdum vitorðsmanni í alvarlegu kynferðisbrotamáli forseta náðun. Allir stjórnarandstöðuflokkarnir í ungverska þinginu hafa kallað eftir afsögn Novák og hefur Frans páfa meðal annars verið skrifað bréf þar sem framganga forsetans er sögð kirkjuleg synd. Einn þolenda í málinu segir gjörðir Novák óafsakanlegar.
Nóvák hefur safnað glóðum elds að höfði sér með náðuninni. Novák, sem er náinn bandamaður Viktors Orbán forsætisráðherra og fyrrverandi fjölskyldumálaráðherra, veitti manninum náðunina ásamt á þriðja tug annarra í apríl á síðasta ári. Það gerði hún við sama tækifæri og Frans páfi kom í opinbera heimsókn til Ungverjalands.
Maðurinn sem um ræðir var dæmdur til ríflega þriggja ára fangelsisvistar árið 2018 fyrir að aðstoða við að hylma yfir kynferðisbrot sem yfirmaður ríkisrekins barnaheimilis framdi gegn börnum á heimilinu. Yfirmaður barnaheimilisins var dæmdur til átta ára fangelsisvistar fyrir að hafa brotið á að minnsta kosti tíu börnum á árunum 2004 til 2016. Sá sem hlaut náðun Novák forseta var næstráðandi á barnaheimilinu.
Novák hefur hins vegar neitað því harðlega að hún hafi gert nokkuð rangt og sömuleiðis hefur hún látið kröfur um að hún standi fyrir máli sínu sem vind um eyru þjóta. “Á minni forsetatíð hafa barnaníðingar ekki verið, og verða ekki, náðaðir,” sagði forsetinn á blaðamannafundi síðastliðinn þriðjudag.
Kvarta yfir forsetanum við páfann
Allir stjórnarandstöðuflokkarnir á ungverska þinginu hafa kallað eftir afsögn Novák og þá hefur stærsti flokkurinn, DK (Lýðræðis fylkingin), sett í gang siðanefndar mál á hendur forsetanum í þinginu. Olga Kálmán, þingmaður DK, afhenti þá fulltrúum kaþólsku kirkjunnar í Ungverjalandi erindi í gær sem senda á Frans páfa, en í því segir að Nóvak hafi “syndgað” með því að náða manninn á meðan á heimsókn páfa stóð.
Með náðuninni var sakaskrá mannsins hreinsuð svo að ekkert kemur í veg fyrir að hann geti unnið með börnum á nýjan leik.
Í gær birti einn af þolendum yfirmanns barnaheimilisins, Mert Pop, athugasemd við Facebook-færslu Novák forseta þar sem hann segir að með ákvörðun sinni hafi Novák “svipt þolendur réttlætinu.” Náðunin veki þungar áhyggjur hjá þolendum og samfélaginu öllu.
„Í ljósi alvarleika glæpanna sem framdir voru er ákvörðun um náðun óvænt og óútskýranleg, veldur miklum sársauka og vonbrigðum fyrir þá sem verða fyrir snertir og flækir líf þeirra enn frekar,“ skrifaði Pop. Hann sagðist búast við skýringum frá Novák fyrir hönd fórnarlambanna.
Í gær, eftir því sem gagnrýni á Novák harnaði, lýsti Orbán forsætisráðherra því yfir að hann hefði lagt til breytingu á stjórnarskrá Ungverjalands sem kæmi í veg fyrir að þeir sem hefðu verið dæmdir fyrir brot gegn börnum gætu fengið forseta náðun. “Það á ekki sýna barnaníðingum neina miskunn, það er mín persónulega skoðun,” sagði forsætistáðherra.
Þá hefur fyrrverandi dómsmálaráðherra Ungverjalands líka hlotið sinn skerf af gagnrýni, sökum þess að undirskrift hennar var þörf til að náðunin tæki gildi. Ráðherrann fyrrverandi, Judit Varga, er einnig náin samstarfskona Orbán og búist er við að hún muni leiða flokk hans, Fidesz, í Evrópuþingskosningunum í sumar.
Uppreist æru sprengdi íslenska ríkisstjórn
Skemmst er að minnast þess að þingmenn Bjartrar framtíðar slitu ríkisstjórnarsamstarfi sínu við Sjálfstæðisflokk og Viðreisn vegna trúnaðarbrests í september 2017. Sá trúnaðarbrestur fólst í því að Sigríður Andersen, þá dómsmálaráðherra, lýsti því í fjölmiðlum að hún hefði verið fengið upplýsingar um að Benedikt Sveinsson, faðir Bjarna Benediktssonar formanns Sjálfstæðisflokksins og þáverandi forsætisráðherra, hefði verið einn þeirra sem veitti dæmdum barnaníðingi meðmæli sín. Barnaníðingurinn var Hjalti Sigurjón Hauksson en Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands veitti Hjalta uppreist æru að tillögu dómsmálaráðherra. Um þetta hefði Sigríður upplýst Bjarna í júlí það sama ár en hvorki hún né Bjarni hefðu séð ástæðu til að upplýsa samstarfsfólk sitt í ríkisstjórn um málið.
Ákvæði um uppreist æru voru skömmu síðar felld út úr almennum hegningarlögum á Íslandi.