Forseti Ungverjalands segir af sér

Katalin Novák Ungverjalandsforseti hefur sagt af sér. Hún tilkynnti afsögnina í sjónvarpsávarpi í gær. Afsögn Novák kemur eftir að harða gagnrýni á hana og mótmæli sem staðið hafa í vikutíma, sökum þess að forsetinn náðaði í apríl síðastliðnum mann sem dæmdur hafði verið fyrir að hylma yfir kynferðisbrot gegn börnum. 

„Ég gaf út náðunarbréf sem olli ólgu og óþægindum fyrir fjölda fólks. Ég gerði mistök,“ sagði Novák í ávarpi sínu. Hún bað jafnframt þolendur afsökunar. 

Eins og Samstöðin greindi frá síðastliðinn föstudag náðaði Novák mann sem dæmdur var sekur árið 2018 um að hafa þrýst á þolendur kynferðisbrota um að draga ásakanir sínar til baka. Maðurinn, sem ekki hefur verið nafngreindur í Ungverskum fjölmiðlum, var næstráðandi á ríkisreknu barnaheimili en stjórnandi heimilisins var sá sem glæpina framdi. Sá var dæmdur í átta ára fangelsi fyrir að hafa brotið gegn að minnsta kosti tíu börnum á árunum 2004 til 2016. 

Afsögn Novák er högg fyrir hægri popúlista ríkisstjórn Fidesz, flokks Viktors Orbán forsætisráðherra Ungverjalands. Novák er náinn bandamaður Orbán og fyrrverandi varaformaður Fidesz og var áður fjölskyldumálaráðherra í stjórn Orbán. Hún hefur í gegnum tíðina predikað um mikilvægi hefðbundinna fjölskyldugilda og að vernda þurfi börn. 

Novák var kjörinn forseti árið 2022, fyrst kvenna til að verða forseti Ungverjalands og yngsti forseti landsins frá upphafi, en hún er 46 ára gömul.

Í opinberri gagnrýni á málið allt var líka kallað eftir því að Judit Varga, flokkssystir þeirra Novák og Orbán, yrði látin sæta ábyrgð. Varga var dómsmálaráðherra á síðast ári og staðfesti náðunina. Reiknað hafði verið með því að Varga myndi leiða lista Fidesz fyrir Evrópuþingskosningarnar í sumar. Af því verður hins vegar ekki þar sem hún tilkynnti í gær í færslu á Facebook að hún hyggðist axla pólitíska ábyrgð. Hún myndi segja sig frá þingsetu á ungverska þinginu, víkja sem oddviti flokksins til Evrópuþingskosningarnar og draga sig út úr opinberu sviðsljósi. 

Málið allt er óvenjuleg snuðra á þráð Orbán og stjórnar hans. Þannig er óvanalegt að hann og samstarfsfólk hans þurfi að þola opinber mótmæli. Slík fóru hins vegar fram bæði á föstudaginn og í gær, fyrir utan forsetahöllina, áður en Novák sagði af sér. Flokkur Orbán er sá langsterkasti á ungverska þinginu og nýtur yfirburðastuðnings í Ungverjalandi, því sem næst um landið allt utan höfuðborgarinnar Búdapest. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí