Hvað er sonur Viktors Orbáns að gera í Afríku?

Eins og Samstöðin greindi frá í gær hafa Ungverjar ákveðið að senda herlið til Afríkulandsins Tjad. Hvað það herlið á að gera þar er með öllu óljóst, og hefur ákvörðunin valdið miklum heilabrotum í Ungverjalandi, þar sem spurt er hvað Ungverjar séu að brölta í Tjad, landi sem engin tengsl eru við. En söguþráðurinn er enn flóknari en mætti virðast við fyrstu sýn. 

Ungverski utanríkisráðherrann Péter Szijártó hélt til Tjad í byrjun desember síðastliðins í opinbera heimsókn. Þegar myndbandsupptaka af komu ráðherrans og sendiliðs hans var birt á Facebook-síðu forsetaembættisins í Tjad vakti furðuleg hegðun eins fylgdarmanna ráðherrans athygli. Þegar sá sem um ræðir varð var við myndatökuliðið sneri hann snarlega baki við myndavélunum, reyndi að ganga út úr myndarammanum og setti upp andlitsgrímu. 

Í myndbandinu má sjá fleiri skot af manninum þar sem hann reynir eftir fremsta megni að forðast myndavélarnar, jafnvel með því að reyna að fela sig á bak við súlu í forsetahöllinni. Hjákátlegt, því maðurinn var afar áberandi klæddur í heimsókninni, með frostpinna-grænan fedora hatt á höfði. 

Í myndefni frá fleiri heimsóknum ungverskra ráðamanna til Afríkuríkja má sjá að sami maður hefur tekið þátt í að minnsta kosti sex fundum frá því í maí á síðasta ári og fram í janúar síðastliðinn. Hann er þó því sem næst ósýnilegur í myndefni sem ungversk stjórnvöld hafa birt í tengslum við umrædda fundi. 

Um margra vikna skeið hafa Direkt36, ungverskur rannsóknar fjölmiðill, og franska stórblaðið Le Monde rannsakað myndefnið til að reyna að bera kennsl á manninn. Í ljós er komið að óþekkti maðurinn er ekki alveg óþekktur. Um er að ræða mann að nafni Gáspár. Faðir hans er þó öllu þekktari, sá er Viktor Orbán, forsætisráðherra Ungverjalands. Sem stýrir Ungverjalandi með næsta harðri hendi. Lýðræðislegt einræði er orðasamband sem hefur verið notað til að lýsa þeim stjórnarháttum.

Hermaður guðs

Orbán yngri er um margt merkileg fígúra, sem hefur komið víða við ef marka má ýmsar opinberar upplýsingar um hann. Hann vakti þannig kannski fyrst athygli fyrir knattspyrnuferil sinn, sem þó var ekki sérstaklega beysinn. Gáspár fékk atvinnumannasamning hjá ungmenna akademíu Fehérvár FC árið 2010, þá 18 ára gamall. Akademían, sem þá hér Videoton II en var síðan nefnd Puskás Akadémia eftir helstu knattspyrnuhetju Ungverja, Ferenc Púskas, er staðsett í þorpinu Felcsút. Uppeldisþorpi sjálfs Viktor Orbán. 

Gáspár, sem lék sem miðjumaður, spilaði ellefu leiki í 2. deild og tvo í 1. deild ungverska fólboltans á árunum 2011 til 2014, án þess að skora mark. Hann lagði skóna á hilluna árið 2014 vegna meiðsla, eða það er opinbera skýringin í það minnsta. 

Gáspár, sem þá var við nám í lögfræði við ELTE háskólann í Búdapest, venti sínu kvæði í kross eftir að fótboltaferlinum lauk og fluttist til Afríku. Þar vann hann að sögn með kristnu hjálparsamtökunum Empower a Child og kenndi börnum í Úganda að spila fótbolta. „Í Afríku kynntist ég mætti hins almáttuga guðs með þeim hætti að ég gaf líf mitt Jesú á vald,“ sagði Gáspár í viðtali við ungverska miðilinn 24.hu árið 2017.

Gáspár birtist að segja má í ungversku þjóðlífi á nýjan leik eftir heimkomuna frá Afríku þegar hann var skyndilega orðinn einn af leiðtogum kristilega safnaðarins Felház. Söfnuðurinnr ber skýr merki sértrúarsöfnuðar, þó annars sé lítið vitað um stefnu hans. Í ítarlegri umfjöllun 24.hu, sem byggði á rannsóknarvinnu sem meðal annars fólst í að sækja samkomur Felház um margra vikna skeið og viðtölum við fjölda fólks, er greint frá því að hinn ungi Orbán hafi talað tungum og læknað sjúka. Í það minnsta á yfirborðinu. 

Gáspár þótti hins vegar ekki nægja að vera bara hermaður guðs heldur þurfti áþreifanlegri verkefni. Árið 2019 gekk hann í ungverska herinn og eftir því sem Telex.hu greindi frá árið 2021 fékk Orbán yngri styrk frá varnarmálaráðuneytinu til að nema við breska herskólann Sandhurst. Engar upplýsingar er að finna um árangur hans þar eða framgang innan ungverska hersins síðan. 

Ærandi þögn ungverskra stjórnvalda

Eins og greint var frá í fyrri umfjöllun Samstöðvarinnar um þreifingar Ungverja í Afríku samþykkti ungverska þingið óvænt í nóvember síðastliðnum að senda 200 hermenn til Tjad til ráðgjafarstarfa og þjálfunar hermanna í ríkinu. Ákvörðunin kom flestum á óvart, innan hersins sem utan, og vakti takmarkaðar vinsældir. Herleiðangurinn þykir áhættusamur, kostnaðarsamur og tilgangur hans afar óljós, einkum í ljósi þess að tengsl ríkjanna tveggja voru nákvæmlega engin fyrir

Í umfjöllun Direkt36 kemur fram að miðillinn hafi fengið upplýsingar um að Gáspár sé lykilpersóna í því að koma hernaðaraðstoðinni á koppinn. Í kjölfarið sendi miðillinn upplýsingabeiðnir á fjögur ráðuneyti þar sem farið var fram á upplýsingar um hvaða hlutverki Orbán yngri gengdi eiginlega í málinu öllu. Svörin voru afar takmörkuð. 

Varnarmálaráðuneytið staðfesti aðeins að Gáspár væri foringi í hernum en gaf ekki upp stöðu hans þar né nokkrar aðrar upplýsingar og bar því við að þær væru trúnaðarmál. Önnur ráðuneyti neituðu fyrir nokkra tengingu við Gáspár, þar með talið utanríkisráðuneytið. Sem er furðulegt í því ljósi að Gáspár var sannarlega í för með utanríkisráðherranum og sat fundi hans með embættismönnum afrískra ríkja. Þar með talið í Tjad, og í Níger. 

Le Monde fékk þá upplýsingar frá heimildarmönnum sem standa nærri stjórnvöldum í Tjad um að það hefði sannarlega verið Gáspár Orbán sem kom á tengslum milli ríkjanna tveggja, í gegnum kunningsskap við Mohamed Bazoum, son (nú fyrrverandi) forseta Nígeríu. Sá hefði komið Gáspár í samband við hálfbróður forseta Tjad. Þá mun frönskum yfirvöldum, en Frakkar eru enn mjög áhrifamiklir í sinni gömlu nýlendu Tjad, vera ljós aðkoma Gáspár Orbán. Sama heimild fullyrti að upphaflega hefði staðið til að Ungverjar sendu hernaðaraðstoð til Níger, en ekkert hefði orðið af því eftir valdarán í landinu á síðasta ári. Og þeir því snúið sér að Tjad.  

Í framhaldi af því að Direkt36 fékk neikvæð svör frá ráðuneytunum ungversku um aðkomu Gáspár að nokkru því sem við kæmi þreifingum Ungverja í Afríku samþykktu tveir fulltrúar utanríkisráðuneytisins sem tekið höfðu þátt í fundunum í Tjad viðtal við Le Monde. Í viðtalinu voru þeir spurðir um þátt Gáspárs í málinu öllu. Samkvæmt frásögn Le Monde kom mjög á mennina tvo við það. Þeir neituðu ekki fyrir að Gáspár hefði verið á umræddum fundum en neituðu hins vegar að upplýsa frekar um hvert hlutverk hans hefði verið. 

Daginn eftir birti miðill Index.hu, sem hefur verið undir hælnum á ungverskum stjórnvöldum um langt skeið, viðtal við utanríkisráðherrann Kristóf Szalay-Bobrovniczky. Í því greindi hann frá því að Gáspár kæmi að undirbúningi herferðarinnar til Tjad vegna “sérstakra hæfileika hans, kunnáttu í lögum og tungumálakunnáttu.” Gáspár væri hluti af verkefninu í krafti stöðu sinnar í hernum. Þess ber að geta að á öllu myndefni sem fundist hefur af Gáspár á umræddum fundum í Afríku er hann í borgaralegum klæðum. Jakkafötum og með fyrrnefndan grænan hatt.

Eftir stendur spurningin um hvað Ungverjar eru eiginlega að gera í Afríkuríkinu Tjad, eða í Afríku yfirhöfuð? Hvaða tilgangi átti herleiðangur Ungverja til Níger eiginlega að þjóna og fyrst valdaránið í landinu batt enda á þær áætlanir allar, hvers vegna í ósköpunum var  næsta verk ungverskra stjórnvalda að snúa sér að nálægu nágrannaríki?

Ungverskir fjölmiðlar enn hafa ekki getað svarað þeim spurningum. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí