Til átaka kom milli bænda og lögreglu í Brussel í morgun fyrir utan skrifstofur Evrópuráðsins, en þar funda landbúnaðarráðherrar Evrópusambandsríkjanna nú um leiðir til að mæta kröfum bænda. Bændur dreifðu mykju úr haugsugum yfir óeirðalögreglu og kveiktu í dekkjum á meðan að lögregla notaðist við háþrýsti vatnsbyssur til að dreifa mannfjöldanum.
Átökin nú eru enn ein birtingarmynda óánægju og slakrar stöðu bænda í Evrópu sem hafa undanfarnar vikur mótmælt vítt og breitt um álfuna og sakað stjórnvöld, bæði einstakra ríkja og Evrópusambandsins, um aðgerðarleysi í málefnum þeirra.
Reiði bænda beinist að því sem þeir vilja meina að sé skriffinska og reglugerðarfargan í landbúnaðargeiranum í Evrópu, sem og ódýrum innfluttum landbúnaðarvörum frá löndum þar sem kröfur um aðbúnað og gæði framleiðslu, sem bændur telja mjög umfangsmiklar í Evrópu, séu mun slakari.
Bændur keyrðu stífluðu aðalbrautir inn í miðborg Brussel með um dráttarvélum sínum, en belgíska lögreglan telur að 900 dráttarvélum hafi verið ekið inn í borgina. Bændur stöðvuðu umferð og komu í veg fyrir að almenningssam fararmátar kæmust leiðar sinnar.
Lögreglan varði Evrópusambandsbyggingar á bak við steinsteypta farartálma og gaddavírsgirðingar. Nokkrar dráttarvélar komust hins vegar inn fyrir að minnsta kosti einn farartálmann og sendu lögreglumenn á flótt. Reykur liðaðist um götur borgarinnar.
Í byrjun mánaðarins kom einnig til átaka milli bænda og lögreglu í Brussel þegar bændur kveiktu elda í heyböggum og grýttu lögreglu.
Síðastliðinn laugardag var baulað á Emmanuel Macron þegar hann mætti til opnunar landbúnaðarsýningarinnar í París. Á síðustu vikum hafa bændur mótmælt í Ungverjalandi, í Hollandi, á Spáni, í Búlgaíu og Grikklandi, meðal annars.
Stjórnmálamenn hafa undanfarnar vikur lýst því að þeir viðurkenni vanda bænda, sem meðal annars tengist lækkandi framlögum til landbúnaðar úr sjóðum Evrópusambandsins, hertum reglum er varða umhverfisvernd og áhrifum innrásar Rússa þegar kemur að útflutningi á korni frá Úkraínu. Um helgina voru hátt í 160 tonn af úkraínsku korni eyðilögð á lestarstöð í Póllandi í mótmælum bænda þar í landi við því sem þeir segja að sé ósanngjörn samkeppni en korn þaðan hefur verið flutt inn án tolla.
Belgíski landbúnaðarráðherran David Clarinvel sagði í dag að umkvartanir bænda færu ekki fram hjá landbúnaðarráðherrum ESB ríkjanna. Hann hvatti bændur þó til að sýna stillingu og beita ekki ofbeldi í mótmælum sínum.