Bandaríkjaforseti segir Ísraela hafa gengið of langt 

Ísraelski herinn heldur áfram árásum sínum á Gaza-ströndinni og að minnsta kosti 22 eru látnir í árásum næturinnar og morgunsins. Ísraelski flugherinn lét sprengjum rigna yfir Rafah þar sem að minnsta kosti 600 þúsund börn á flótta dvelja nú. Stuðningur við Ísraela á alþjóðavettvangi virðist fara dvínandi og meira að segja Bandaríkjamönnum, helstu bandamönnum Ísraela í áratugi, er farið að ofbjóða. 

“Ég er þeirrar skoðunar, eins og þið vitið, að viðbrögðin á Gaza-ströndinni hafi gengið of langt,” sagði Joe Biden Bandaríkjaforseti við blaðamenn í Hvíta húsinu í gær. “Fjölmargt saklaust fólk sveltur, fjölmargt saklaust fólk á í miklum vanda og er deyjandi, og því verður að linna.” 

Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels hefur fyrirskipað landhernum að undirbúa árás á jörðu niðri í borginni Rafah. Í borginni hafast við yfir 1,2 milljónir Palestínumanna á flótta. Norska Flóttamannaráðið sem veitir neyðaraðstoð á Gaza hefur lýst því að sæki Ísrael í frekara mæli að Rafah muni það þýða fullkomið blóðbað. Jan Egeland, aðalritari Flóttamannaráðsins, sagði að ekki mætti leyfa því að gerast að stríðsátök yrðu háð í risavöxnum flóttamannabúðum en Rafah er ekkert annað. Frekari hernaðaraðgerðir myndu kollsteypa neyðaraðstoð á svæðinu.

Hungur sverfur að á Gaza og hafa hjálparsamtök varað við því að hungursneyð skelli á svæðinu, eða sé þegar skollin á. Heimildir herma að fólk hafi gripið til þess að reyna að seðja hungrið með því að borða gras, sem fólk getur ekki melt. Vatn skortir á svæðinu og þá er vatnið sem þó er hægt að nálgast óheilnæmt. 

UNICEF hefur kallað eftir því að átök í Rafah verði ekki mögnuð. Þar dvelji yfir 600 þúsund börn sem sum hver hafi þurft að leggja á flótta oftar en einu sinni eftir að árásarstríð Ísraela á Gaza hófst 7. október. 

Tónninn í garð Ísraela hefur verið að breytast verulega upp á síðkastið. Í upphafi árásar stríðsins lýstu bæði Bretar og Bandaríkjamenn óskilyrtum stuðningi við Ísraela. Sem fyrr segir hefur Biden Bandaríkjaforseti lýst því yfir að Ísraelar hafi gengið of langt og stríðinu verði að linna. Hillary Clinton, fyrrverandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fyrrverandi forsetaframbjóðandi,  sagði í gær að Netanyahu yrði að fara frá völdum. Þá lýsti breski utanríkisráðherrann, David Cameron, því yfir í lok síðasta mánaðar að mögulegt væri að Bretland myndi viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt ríki, jafnvel án samkomulags við Ísrael. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí