Síðustu ár hafa reglulega verið sagðar fréttir af því að lögreglan á Íslandi hafi bannað meðlimum í vélhjólagengjum, oftast sænskum, að koma til Íslands. Yfirleitt hafði þeim verið boðið hingað af íslenskum örmum klúbbanna, en stærstu klúbbarnir Banditos og Hells Angels hafa bæði haft útibú hér á landi. Lögreglan hefur ávallt vísað til þess að þessi gengi flokkist sem skipulögð glæpasamtök. Þeim hafi verið vísað úr landi því almenningi stafi hætta af þeim.
Eitt er þó ljóst, þetta eru ekki glæpasamtök sem reyna að fela slóð sína. Til marks um það þá eru Banditos í Svíþjóð með Facebook-hóp, sem telur um þúsund manns og er opinn öllum. Þar má finna ógrynni af myndum af frekar pattaralegum miðaldra Svíum. Hér má sjá þær.
Fyrir um viku var þar birt mynd af félögum í Banditos, í fullum skrúða, á Þingvöllum. „Svíþjóð sækir Ísland heim,“ skrifaði einn bandítinn. Ekkert bendir til annars en að myndin sé ný. Það má því gefa sér að annað hvort af tvennu hafi skeð: Svíarnir hafi sloppið í gegnum án vitneskju lögreglunnar, en fram til þess hafa þeir yfirleitt ekki falið það á ferðalaginu að þeir væru í gengi.
Á hinn bóginn gæti verið að lögreglan hafi ekki séð ástæðu til þess að hindra komu þeirra til landsins, þeir væru ekki að stefna lífum landsmanna hættu, með komu til landsins. Rétt er þó að benda á að það eru einungis þrjú ár síðan liðsmönnum var bannað að koma til landsins en þá hugðust þeir að blessa íslenskt vélhjólagengi.
Til gamans má svo geta þess að þeir komu ekki alveg ólaskaðir frá þessari Íslandsför. Íslensk kona, á miðjum aldri, segir þeim til syndanna í athugasemdum við Þingvallamyndina. Hún segir að þetta gengi þurfi lögreglan að skoða betur. Hún fær þau svör frá íslensku fólki sem virðist þekkja yfirlýstu bandítana að þetta sé „ekkert gengi, bara vinir að skoða Ísland.“
Konan svarar: „Ósköp eru þið viðkvæmir greyin.“