Vindorkuver í Mosfellsbæ myndi rústa fjallasýn höfuðborgarinnar: „Tilgangslaus framkvæmd í eigu erlendra fjárfesta“

„Vindorkuver munu eyðileggja þá fjallasýn sem höfuðborgarbúar hafa notið til þessa. Íbúar í Úlfarsárdal og Grafarholti, Árbæ, efri byggðum Breiðholts og  efri byggðum Kópavogs við Elliðavatn munu „njóta“ útsýnis á vindorkuverið. Gestir þjóðgarðins á Þingvöllum og skíðafólk í Bláfjöllum sem hefur notið ósnortins útsýnis mun óhjákvæmilega verða vart við vindorkuverið. Ekki má gleyma að hver vindmylla mun hafa blikkandi ljós sem skína skært á heiðinni að næturlagi. Hvernig má það vera að eitt sveitarfélag geti tekið slíka ákvörðun og þannig spillt fyrir nágrannasveitarfélögum sem ekkert hafa um málið að segja?“

Þetta skrifar Páll Hrannar Hermannsson í aðsendri grein sem birtist í Hverfisblaði Grafarholts en þar vekur hann athygli á því að ef hugmyndir um vindorkuver í Mosfellsheiði yrðu að raunveruleika myndi það nokkuð afgerandi áhrif á flesta íbúa höfuðborgarsvæðins. Í stuttu máli segir Páll að sjónmengunin yrði yfirgengileg:

„Fyrir utan ýmis konar umhverfisáhrif og áhrif á vistkerfi þá hafa vindorkuver gríðarleg sjónræn umhverfisáhrif. Sýnileiki þeirra er mikill þar sem þau standa teinrétt á yfirborði jarðar og teygja sig a.m.k. 150 – 200 metra upp í loftið. Við erum þá að tala um tæpar 3 Hallgrímskirkjur á hæð (kirkjan er 74,5 m á hæð)“

Ofan á þetta þá blöskrar Páli hve lítil umræða hafi átt sér stað um þessar hugmyndir. „Í október 2020 mátti lesa frétt í Kjarnanum, sem fjallaði um að Zephyr Iceland hyggðist reisa gríðarstórt vindorkuver á Mosfellsheiði, sem samanstanda átti af 30 vindmyllum, hver þeirra 150-200 metrar á hæð. Mér fannst þetta svo fráleit hugmynd að henni hlyti að verða hafnað af stjórnvöldum og borgaryfirvöld myndu ganga fram fyrir skjöldu og verja borgarbúa gegn þessum óskapnaði í náttúru landsins. Svo líður tíminn og loftlagsmarkmið rískisstjórnarinnar eru stöðugt í umræðunni,“ segir Páll og heldur áfram:

„Núverandi ríkisstjórn hélt svo áfram inn í sitt annað kjörtímabil og ráðherrar höfðu stólaskipti. Allt í einu eru menn orðnir áhyggjufullir af komandi orkuskorti á landinu, uggandi yfir að við gætum ómögulega uppfyllt metnaðarfull markmið og skuldbindingar okkar á alþjóðavísu í loftlagsmálum nema að reisa vindorkuver og það sem víðast.“

Til að bæta gráu ofan á svart þá segir Páll vindorkuver afleitan kost samanborið við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir sem hafa dugað Íslendingum hingað til. „Af hverju er vindorkuver á Íslandi slæm hugmynd? Eru þau ekki eðlileg viðbót og styðja við markmið ríkisstjórnarinnar í loftlagsmálum? Í Evrópu er þeim er ætlað að draga úr notkun og leysa af hólmi kolaorkuver, gasorkuver og kjarnorkuver. Við eigum mun betri kosti til orkuframleiðslu en aðrar þjóðir Evrópu. Hér er nóg af vatnsafls- og jarðvarmavirkjunum sem framleiða nægt magn raforku þó að umhverfis- og orkumálaráðherra segi annað. En við erum aftur á móti með of lítið og úrsérgengið dreifikerfi, sem annar ekki núverandi framleiðslu á raforku. Lausnin liggur því í augum uppi, við þurfum öflugri byggðarlínu.“

Að lokum segir Páll: „Okkur kemur þetta mál við og okkur er ekki sama hvernig farið er með auðlindir þjóðarinnar. Erum við tilbúin að fórna náttúru okkar í tilgangslausa framkvæmd í eigu erlendra fjárfesta?“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí